Hjörleifur Guttormsson 27. nóvember 2017

Þakkarorð fyrir tilnefningu sem heiðursfélaga
 á 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands, 27. nóv. 2017

Forseti Íslands, forseti Ferðafélagsins og stjórn þess, háttvirta samkoma.

Sá heiður sem mér er sýndur á þessum afmælisdegi Ferðafélagsins kom mér sannarlega á óvart. Spurningunni um hvort hann sé verðskuldaður get ég í raun ekki svarað. Hefði málið snúist um færni til smíða væri auðvelt að afgreiða það. Slíkir hæfileikar voru mér ekki færðir í vöggugjöf, þau gen fóru öll í tvíburabróður minn. Um ritstörf mín og fræðatilburði er ekki mitt að dæma. 

Í fyrstu lögum Ferðafélagsins  frá stofnfundi þess 1927 stendur meðal annars þetta:
„Fjelagið gengst fyrir því að kynna mönnum jarðfræði landsins og jurtaríki og sögu ýmsra merkra staða.“

Ætli það sé ekki á þessu sviði sem ég hef reynt að verða að einhverju gagni.

Aðalatriðið er þó að mér þykir vænt um þennan félagsskap sem hér fagnar áfanga og ég hef haft ómælda ánægju af samfylgdinni með honum í hálfa öld.

Fimm árum fyrir stofnun Ferðafélagsins, síðla í september 1922, var Hannes Jónsson, bóndi og landpóstur á Núpsstað á leið austur yfir Skeiðarársand. Í dagbók sína skrifar hann „ ... var með mér stúlka, dóttir Páls bónda Sigurðssonar í Þykkvabæ í Landbroti.“ Hún var þá nýorðin 18 ára og á leið til náms í Alþýðuskólanum á Eiðum. Þegar þau komu austur á Hörðuskriðu á sandinum varð Hannesi ljóst að hlaup var að hefjast í Skeiðará. Í dagbókina skrifar hann: „Tók ég það ráðið að halda áfram og láta á engu bera við stúlkuna, hvað ég hugsaði, þar eð ég vildi ekki gera hana hrædda. Lagði ég svo í álana og hafði stúlkuna við hlið mér. Urðum við að sæta lagi svo að stærstu jakarnir lentu ekki á hestunum.“ Bændur í Bölta í Skaftafelli fylgdust með ferðum þeirra og riðu á móti þeim, og austur yfir Skeiðará komust þau klakklaust. Hannes sneri ótrauður til baka heim á leið. Viku seinna stóðu eldglæringarnar upp úr Grímsvötnum, en sá staður var þá nýlega endurfundinn í Vatnajökli. – Það er fyrir árvekni og leiðsögn Hannesar á Núpstað að ég stend hér í dag. Stúlkan unga sem hann gætti svo vel í svaðilför þessari varð áratug síðar seinni kona föður míns, móðir okkar fimm alsystkina.

Í æsku ólst ég upp í Hallormsstaðaskógi, við óvenjulegar aðstæður á íslenskan mælikvarða, en skógurinn sá hafði lengi mikla sérstöðu. Ekki mátti þar hafa sauðfé, en hjáleigubóndi fóðraði 50 ær fyrir föður minn utan skógar. Fjórtán ára að aldri fékk ég því að fara í göngu, þ.e. fjárleitir, inn á afrétt á Hraunum eystra í dýrðarveðri. Þá sá ég til Vatnajökuls í fyrsta sinn. Breðinn sá hefur fylgt mér nokkuð staðfastlega síðan.

Áður en ég hélt utan til náms vann ég sumarlangt í landmælingaflokki, m.a. á Tungnáröræfum. Um eina helgi fórum við norður yfir Sprengisand. Þá skynjaði ég til fulls andstæðurnar milli gróðurlítilla öræfa og ilmandi grænku byggðanna í Bárðardal.

Heimkomin að námi loknu réði tilviljun búsetu okkar Kristínar í Neskaupstað sem entist í rösk 40 ár. Þaðan var gert út til annarra verka, sem m.a. tengdust rannsóknum, könnunarferðum og skemmtireisum sem aðallega beindust að landinu austanverðu. Segja má að því ferðalagi sé enn ekki lokið, þótt strjálast hafi ferðir og síðasta áratuginn verið gert út frá Reykjavík.

Eystra fylgdist ég með stofnun deilda Ferðafélagsins, þ.e. Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og síðar Fjarðabyggðar. Ég hef óspart notið margra ferðamannaskála sem risu á þeirra vegum. Á hverju sumri var efnt til almennra ferðalaga þar eystra undir allskonar nöfnum, m.a. á vegum Náttúruverndarsamtaka Austurlands, stjórnmálasamtaka sem ég tengdist, ferðafélagsdeildanna, sérstakra árbókarferða og ferða í þrengri hóp sem kallaðist Litla ferðafélagið og hélt úti vikulöngum árlegum öræfaferðum. - samfellt í tvö áratugi. Öllum þessum ferðum tengjast ljúfar minningar og það einkennilega er að ég minnist engra teljandi óhappa, hvað þá slysa á allri þessari vegferð. Einna eftirminnilegust er tveggja sólarhringa dvöl  okkar í snjóhúsi á austanverðum Vatnajökli í júlílok 1989 á meðan aftakabylur geisaði útifyrir. Þá yljuðum við okkur við sögur og ljóð og náðum síðan á skíðunum heil til byggða.

Svo aðeins um árbókarskrifin. Það var haustið 1972 að Páll Jónsson ritstjóri árbókar bað mig að hitta sig heima. Þar voru fyrir Hjörtur Eldjárn á Tjörn, þá einn af félögum mínum í Náttúruverndarráði,  en hann var þá að ganga frá árbók 1973 um Svarfaðardal. Einnig var þar úr ritstjórn árbókar Haraldur Sigurðsson bókavörður, sem átti eftir að gefa mér mörg góð ráð. Þarna var þess farið á leit við mig að skrifa bók ársins 1974 um Austfjarðafjöll. Viðstaddir höfðu víst frétt af göngu minni þar eystra á 50 tinda árin á undan. Þetta gekk eftir með árbókina, þrátt fyrir miklar annir sem löngum hafa fylgt mér um dagana. Á eftir komu þær sjö bækur sem hér hefur verið minnst á, en sú síðasta er væntanleg fyrir vorið.

Samskiptin við Ferðafélagið, stjórn þess, framkvæmdastjóra, ritstjóra, ritnefndarmenn árbóka og kortagerðameistara nú á fimmta áratug hafa verið ógleymanleg og fyrir þau vil ég þakka á þessari hátíðarstundu. Fyrir utan alla þessa mörgu ábyrgðaraðila félagsins hafa fylgt bjástri mínu tengsl við fjölda manns sem ég hef leitað til um upplýsingar og yfirlestur. Sú samvinna hefur fækkað til muna pennaglöpum af minni hálfu, þótt aldrei skilji þau við höfund að fullu. Samstarf við Örnefnastofnun og Landmælingar á þessu skeiði hefur líka reynst mér gjöfult og sér þess einhver merki í texta árbókanna og á uppdráttum, m.a. í nafngiftum sem brenglast höfðu á fyrri stigum eða sem kölluðu á nýnefni. Sama á við um samstarf við fornleifafræðinga sem mælt hafa upp fyrir mig minjar sem greint er frá í bókunum. Ekki má ég heldur gleyma ljósmyndurum sem farið hafa höndum um myndir mínar og sjálfir lagt til nokkrar að auki.

Allur er þessi hlutur minn léttvægur miðað við þau afrek sem þessi félagsskapur hefur unnið á 90 ára ferli sínum: Auk þeirrar forystusveitar sem ég þegar hef nefnt, koma við sögu skálasmiðirnir og ráðskonur þeirra, skálaverðir, leiðsögumenn, og árvökult starfsfólk á skrifstofum, þar sem konur eru í meirihluta. Sú breikkun sem átt hefur sér stað í starfi félagsins undanfarið með þátttöku ungs fólks og árrisulla áhugahópa er líklega besta afmælisgjöfin á þessum tímamótum, að viðbættri áherslu félagsins á að vernda undirstöðuna, sjálfa náttúru landsins.

Í fyrstu árbók Ferðafélagsins 1928 er meginefnið þættir um Þjórsárdal eftir Jón Ófeigsson menntaskólakennara, fallega myndskreyttir og fylgir haglega teiknaður uppdráttur. Smágreinar fylgja síðan, m.a. um umgengni ferðamanna, útbúnað á ferðaslóðum og um hjálp í viðlögum. Sérstaka athygli vekur þar pistill eftir Sigurð Nordal sem ber heitið Gestrisni byggða og óbyggða. Fyrir utan klingjandi fagurt málfar er grein hans enn í dag tímabær áminning til þjóðar sem farin er að byggja afkomu sína að drjúgum hluta á ferðamönnum. Til nýstofnaðs félags er ráðlegging Sigurðar fyrir 90 árum m.a. þessi - orðrétt :

„Ferðafélagið á ekkert að gera til þess að auka aðsókn erlendra ferðamanna. En það getur gert þarfaverk með því að leiða þann straum, sem þegar er orðinn og hlýtur að vaxa af sjálfu sér, í alveg ákveðna farvegi, sem tilbúnir eru handa honum. Það má skapa vissar ferðamannaleiðir, til Þingvalla, kringum Þingvallavatn, til Heklu (með hóteli á Galtalæk), norður Kjöl til Akureyrar. En reyna að friða aðrar leiðir eftir föngum.

En mest er um það vert, að kenna Reykvíkingum að ferðast, svo að það verði þeim sjálfum til sem mestrar hressingar á líkama og sál og öðrum landsmönnum til sem minnstra óþæginda og truflunar.“

Með þessum orðum Sigurðar Nordal lýk ég máli mínu og þakka heiðurinn.
Gleðilega hátíð.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim