Hjörleifur Guttormsson | 1. september 2018 |
Sumri hallar og mörg haustverkin eru framundan Þegar þetta greinarkorn er skrifað er kominn höfuðdagur 29. ágúst, sem allt fram á okkar daga fylgdi átrúnaður um veðrabrigði, ýmist til hins betra eða verra eftir því hvernig sumarið hafði verið. Minna fór fyrir að menn rifjuðu upp tilefni nafnsins sem er afhöfðun Jóhannesar skírara samkvæmt fornum sögum. Hætt er við að óskir manna nú um veðrabrigði séu ólíkar eftir landshlutum svo misskipt sem sumar og sólfar reyndist vestanlands og austan. Enn er þó mánuður til formlegrar haustkomu á Mikjálsmessu 29. september, en dofnað hefur yfir þeim tímamótum í seinni tíð og haustverk mörg hver svo sem göngur og réttir færst framar í september. Eins og sólskini var misskipt hagaði einnig til um berjasprettu, sem Austfirðingar nutu ríkulega þetta árið. Byggist það bæði á farsælli blómgun að vori sem og óvenjulega sólríku sumri. Uppskera sveitarstjórnarkosninga En það er önnur uppskera en ber og fjallskil sem nú litar umræðuna hjá sveitarstjórnum víða um land. Þær eru að vonum uppteknar við að fóta sig eftir úrslit vorkosninganna 26. maí sl. Víða hafa orðið miklar breytingar í röðum kjörinna fulltrúa og á meirihlutasamstarfi. Endurspeglast það m.a. í ráðningu nýrra starfsmanna og málefnasamningum með breyttum áherslum. Í sveitarstjórnum ekki síður en á landsmálavettvangi standa menn frammi fyrir örum breytingum sem reyna á þanþol og aðlögun samfélagsins á hverjum stað. Starf fulltrúa í sveitarstjórnum er í senn fjölþætt, afar mikilvægt og tímafrekt eigi það að vera leyst vel af hendi. Er það líklega ástæðan fyrir örari útskiptum kjörinna fulltrúa en áður, líkt og sjá má einnig á Alþingi að undanförnu. Skiptir þá miklu að til staðar sé traustur grunnur og skilvirkni, einnig í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa víðtækt skipulagsvald og ákvatðanir um landnotkun þarf að byggja á sem fyllstum upplýsingum um náttúrufar og aðra umhverfisþætti. Það sama á við um fornleifar sem ummerki byggðar fyrri alda og varðveislu á þeim takmarkaða húsakosti sem vitnar um aðstæður fólks fyrir einni öld. Víða er nú verið að taka aðalskipulag sveitarfélaga og svæðaskipulag til endurskoðunar, m.a. á Austurlandi. Staðbundin þekking skiptir þá miklu máli og efla þarf þekkingarsetur, m.a. náttúrustofur landshlutanna, til að veita sveitarstjórnum óháða ráðgjöf í skipulagsmálum. Örar umhverfisbreytingar Það er ekki aðeins á sviði upplýsingatækni og mannlegra samskipta sem við upplifum örar breytingar. Þeirra gætir jafnframt í ytra umhverfi okkar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Sá sem ekur þjóðveginn með suðurströndinni og hefur samanburð frá fyrri tíð verður nú árlega vitni að breyttu landslagi vegna rýrnunar jökla. Jökulsker eins og Nýjunúpar í Hoffellsjökli og Kárasker í Breiðamerkurjökli sem fyrst urðu sýnileg fyrir tæpri öld stækka nú óðum og ný auð svæði koma árlega í ljós langt inni á Vatnajökli. Sú mynd um bráðnun og brotthvarf jökla landsins sem brugðið er upp á margmiðlunarsýningu í Perlunni fær staðfestingu af augljósrii þróun sem er í fullum gangi. Stækkun lóna við sporða skriðjöklanna er ævintýri líkust og gjörbreyttir farvegir jökulánna sem færast nú í það horf sem heimildir eru um frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Endurnýjuð Lómagnúpsá í farvegi Gýgjukvíslar á Skeiðarársandi og brúin yfir þurran farvegi Skeiðarár eru ljós vottur um ótrúlegar umhverfisbreytingar í tíð einnar kynslóðar. Breytingarnar í gróðurríkinu Svipuð saga og um rýrnun jökla endurspeglast nú í gróðurríkinu. Þar er náttúruleg uppgræðsla birkis á Skeiðarársandi ljós vottur en sem einnig kemur fram hvarvetna í gróðurlendum þar sem land hefur verið friðað fyrir beit eða úr henni verið dregið að ráði. Í Hrafnkelsdal eystra er þannig birki orðið sýnilegt í fjallshlíðum ofan við 400 m hæð, þar sem ekkert var að sjá af slíku fyrir fáum áratugum. Að þessu leyti birtist okkur hækkun meðalhita enn með jákvæðum hætti hérlendis þótt hún sé almennt ógnvaldur fyrir heimsbyggðina á heildina litið. Í mótsögn við þessa jákvæðu endurgræðslu innlendra tegunda birtist okkur geigvænleg útbreiðsla lúpínu sem ágengrar tegundar og viðbrögð við þeim háska eru enn fálmkennd af opinberri hálfu. Einnig sú öfugþróun blasir við frá hringveginum. Forysta Landgræðslu ríkisins hefur nú viðurkennt að notkun lúpínu til landgræðsu hafi verið vanhugsuð (Mbl. 10. ágúst sl., s.35) og sé úr sögunni af hálfu stofnunarinnar. Það sama verður ekki sagt um talsmenn Skógræktarinnar, en frá reitum hennar hefur lúpínan dreifst víða um land. Á heildina litið vantar skýra gróðurverndarstefnu hérlendis og í því samhengi hefur þáttur íslenska birkisins tul endurgræðslu verið vanmetinn. Ferðamenn og akstur utan vega Stökkbreyting í fjölda ferðamanna birtist hverjum þeim sem ekur um þjóðvegi landsins, ekki síst sunnanlands. Það er þróun langt úr hófi og sér ekki fyrir endann á. Örtröðin á fjölsóttustu stöðunum er þegar farin að bitna á annars jákvæðri upplifun, Þingvellir, Gullfoss, Skaftafell og Jökulsárlón augljós dæmi. Mikið vantar á að af opinberri hálfu hafi verið brugðist við þessum fjölda með fjárveitingum til gagnaðgerða, svo sem virkri landvörslu, hreinlætisaðstöðu og með skýrum leiðbeiningum. Að sjálfsögðu á atvinnugreinin líka að leggja sitt af mörkum, því að ella er hún að grafa sína eigin gröf. Akstur utan vega blasir víða við, þó hvergi jafn áberandi við alfaraleið og á Skeiðarársandi utan þjóðgarðs, einkum sunnan vegar. Þar sýnist fátt annað en öflug snúra eða girðing fram með veginum duga til að taka fyrir ósómann. Hjörleifur Guttormsson |