Hjörleifur Guttormsson 1. nóvember 2018

Norðurlönd sameinist gegn kapphlaupi stórveldanna um  kjarnorkuvopn

Skyndilega hafa nýjar blikur færst upp á himinhvolf alþjóðamála. Undanfarið hefur verið litið á loftslagsógnina sem stærsta viðfangsefni mannkyns næstu ár og áratugi, en nú hefur kjarnorkuógnin bæst við eftir að hafa horfið að mestu úr vitund almennings allt frá lokum kalda stríðsins. Þetta gerðist með yfirlýsingu Trumps forseta Bandaríkjanna 20. október sl. um að segja einhliða upp INF-samningnum við Rússa frá 1987 um meðaldrægar kjarnorkueldflaugar, svonefndum Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty. Ólíkt afstöðunni til loftslagssamningsins er Trump talinn hafa stuðning meirihluta á Bandaríkjaþingi fyrir slíkri uppsögn. Með þessu stíga Bandaríkin sem  forysturíki NATÓ  fram á völlinn og boða einhliða nýtt og stórhættulegt vopnakapphlaup sem ógna myndi gjörvöllum mannheimi. Tillögu Rússa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku um að framlengja INF-samninginn uns reynt hefði á samkomulag um endurskoðaðan samning hafnaði USA umsvifalaust. INF-samningurinn var á sínum tíma framhaldsuppskera af Reykjavíkurfundi Reagans og Gorbatsjovs og ætti að vera mörgum hérlendis í fersku minni. Með honum var eytt hátt í 3000 kjarnorkuflugskeytum, og lögðu Sovétríkin tvöfalt meira í það púkk en Bandaríkin.

Ekkert réttlætir kúvendingu USA

Bandaríkjaforseti heldur áfram að koma mönnum óþægilega á óvart, samherjum jafnt sem andstæðingum. Eftir fall Sovétríkjanna verður ekki borið við hugmyndafræðilegum ágreiningi heldur ráða nakin valdapólitísk sjónarmið í taflinu milli helstu risavelda eins og Bandaríkjanna og Rússlands og nú einnig Kína. Fróðlegt er að lesa ummæli evrópskra stórblaða um þetta síðasta skref forsetans. Þýska vikuritið Die Zeit segir þannig á forsíðu 25. október sl: „Geri Trump alvöru úr tilkynningu sinni, opnar hann gáttir fyrir nýtt kjarnorkuvopnakapphlaup. Kjarnorkuhættan var reyndar aldrei horfin. Að vísu eru vopnabúrin minni en áður. En öll hafa kjarnorkuveldin byrjað að þróa frekar atómvopn sín. Flaugarnar og sprengjurnar eru orðnar minni, nákvæmari og markvissari. Freistingin að beita þeim einhvern tíma hefur þar af leiðandi vaxið.“ Og þann 26. október skrifaði The Economist um afleiðingarnar af ákvörðun Bandaríkjanna m.a. : „ Í fyrsta lagi gætu Rússar fljótlega komið sér upp meðaldrægum flaugum sem beindust að Evrópu. Þar á meðal væru ekki aðeins 9M729-flaugar, heldur líka RS-26 „Rubezh“,sem er langdræg flaug sen hefur verið prófuð á vegalengdum sem jaðra við efri mörk INF-samningsins. Í öðru lagi myndu Bandaríkin keppast við að ná sömu færni. Embættismenn játa að rannsóknum sé „skammt á veg komið“, ár líði uns slíkt skeyti sé fullbúið. Í þriðja lagi þurfi afburðasamningalipurð til að koma slíkum skeytum fyrir. Evrópskir leiðtogar myndu forðast að taka við þeim ...“ – Þessu til viðbótar er rétt að hafa í huga að New Start-samningurinn frá 2010 um langdrægar kjarnaflaugar rennur út í ársbyrjun 2021, en samkvæmt honum má hvor aðili hafa yfir að ráða 1550 langdrægrum atómsprengjum sem ná heimsálfa milli. Verði þessi samningur ekki framlengdur telja margir að voðinn sé vís.

Græningjar í stórsókn í Þýskalandi

Í Vestur-Þýskalandi spruttu á 8. áratugnum upp öflugar friðarhreyfingar sem beittu sér af krafti gegn fyrirætlunum NATÓ um að staðsetja meðaldrægar kjarnorkueldflaugar í Mið-Evrópu. Flokkur þýskra  Græningja sem stofnaður var 1980 tók pólitíska forystu fyrir þessum málstað, náði inn í Bundestag 1983 og hafði brátt veruleg áhrif. Forystumaður flokksins um skeið, Joschka Fischer, var utanríkisráðherra Þýskalands 1998-2005 í samstjórn með sósíaldemókrötum. Undanfarið hafa Græningjar styrkt verulega stöðu sína á kostnað flokka kristilegra og sósialdemókrata. Í nýafstöðnum fylkiskosningum í Hessen fékk flokkur Græningja um fimmtung atkvæða og var að mati stórs hóps kjósenda sá flokkur sem hefði best svör við framtíðaráskorunum. Fullvíst er að boðskapur Bandaríkjaforseta um uppsögn INF-samningsins mun falla í afar grýtta jörð meðal Þjóðverja og þá einnig kröfurnar um stóraukið fjárframlag til NATÓ. Utanríkisráðherrann Heiko Maas telur að ákvörðun Trumps geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir öryggi Evrópu.

Norðurlönd sameinist gegn vopnakapphlaupinu

Árið 1981, þegar Bandaríkin voru að undirbúa staðsetningu meðaldrægra eldflauga í Vestur-Evrópu,  kynnti Anker Jörgensen þáverandi forsætisráðherra Danmerkur hugmynd danskra sósíaldemókrata um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. (Rasmus Mariager. Historisk Tidsskrift 2005, s. 553-583). Sá sem þetta ritar átti sæti í norrænum hópi undir forystu Ankers sem ræddi hugmyndina á nokkrum fundum. Því er þetta rifjað upp hér að sú staða sem skapast hefur með útspili Bandaríkjanna um endurnýjaða kjarnorkuvígvæðingu hlýtur að kalla á andsvör og endurmat á afstöðu Norðurlanda til hernaðarbandalags undir þeirra forystu.  Sérstaða Norðurlanda felst m.a. í því að eftir lokun herstöðvarinnar í Keflavík er þar hvergi varanlegt herlið á vegum Bandaríkjanna eða NATÓ. Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland segir líka m.a.: „Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“ Varnarmálaráðherrar Norðurlanda ásamt utanríkisráðherra Íslands gáfu út það sameiginlega stöðumat í liðinni viku að engin hernaðarógn steðji nú að Norðurlöndum. Saman hafa Norðurlönd einstaka stöðu til að leggjast á árar um afvopnun og gegn framleiðslu og dreifingu kjarnavopna. Norðurlandaráð og Arktíska ráðið eru ásamt Sameinuðu þjóðunum vettvangur til að fylgja slíkri stefnu eftir.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim