Hjörleifur Guttormsson | 2. janúar 2018 |
Óveðursský hrannast nú upp á himni alþjóðamála Á árinu 2017 hefur andrúmsloftið í alþjóðamálum breyst mikið til hins verra og skrifast það að verulega leyti á reikning núverandi Bandaríkjaforseta. Smiðshöggið rak Trump nú rétt fyrir jólin með hótun um að skerða um allt að fjórðung framlag Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna í hefndarskyni fyrir einangrun USA í atkvæðagreiðslu á Allsherjarþinginu um málefni Jerúsalem sem höfuðborgar Ísrael. Í orðastríði við einræðisstjórn Norður Kóreu hefur Trump gefið í skyn að beiting kjarnorkuvopna að fyrrabragði sé innan seilingar. Þannig er kjarnorkuógnin á ný endurvakin eftir að hafa fjarlægst í alþjóðasamskiptum allt frá áttunda áratug liðinnar aldar. Auk harðnandi deilna vegna kjarnorkuvæðingar Norður Kóreu hafa mörg staðbundin átakamál haldið áfram og hergagnaiðnaður blómstrað sem aldrei fyrr. Átök fyrir botni Miðjarðarhafs hafa frá aldamótum verið í brennipunkti heimsfrétta en þó er það helst á því svæði sem heldur hefur rofað til upp á síðkastið með undanhaldi hersveita Íslamska ríkisins (ISIS) í Írak og Sýrlandi. Á móti koma grimmdarleg átök í Jemen sem að miklu leyti skrifast á reikning Sádi Arabíu og afleiðingarnar eru hungursneyð sem á vart sinn líka. Breytt afstaða Bandaríkanna og framtíð NATÓ Umræða og vangaveltur um framtíð NATÓ hafa eðlilega fylgt húsbóndaskiptunum í Hvíta húsinu, m.a. í ljósi ummæla Trumps í kosningabaráttu hans um NATÓ sem úrelt fyrirbæri og fjárhagslega byrði fyrir Bandaríkin. Forverar hans á forsetastóli höfðu ítrekað komið fram með kröfur um aukið fjárhagslegt framlag annarra þátttökuríkja til bandalagsins en með takmörkuðum viðbrögðum í reynd. Þær kröfur hefur Trump síðan oftsinnis ítrekað og látið liggja að því að ekki verði unað við óbreytt ástand. Almenn viðmiðun af hálfu NATÓ er að hvert aðildarríki skuli verja um 2% af vergri þjóðarframleiðslu til hermála, en aðeins 5 þátttökuríki af alls 29 teljast hafa náð því marki. Hvað Bandaríkin snertir var þeirra framlag metið vera 3,61% á árinu 2016. Innan Evrópusambandsins er þetta hlutfall sagt vera um 1,4%, mjög mismunandi eftir aðildarríkjum, langhæst hlutfallslega í Grikklandi en lægst í Lúxemborg. Umræða um hækkun framlaga til hermála er í senn viðkvæm og eldfim innan ESB. Í síðasta mánuði undirrituðu 23 ESB-ríki af 28 fyrstu sameiginlegu áætlunina um framlög til hermála á vegum bandalagsins. Þau viðbrögð eru m.a. rakin til óvissu um stefnu Bandaríkjanna í málefnum NATÓ og minnt jafnframt á ummæli Merkel kanslara sl. vor um að „Evrópa“ verði að bera ábyrgð á eigin örlögum. Óvissa og átök innan Evrópusambandsins Árið sem nú kveður hefur verið viðburðaríkt innan ESB með mikilli óvissu um framtíðarþróun þess og stefnu. Ákvörðun Breta á árinu 2016 um að segja skilið við meginlandsríkin eftir 45 ára sambúð bar eðlilega hæst í málefnum bandalagsins og umræðan um skilyrðin fyrir Brexit. Þá sættu líka tíðindum tillögur Macrons Frakklandsforseta sem hann setti m.a. fram í ræðu sinni í Sorbonne-háskóla sl. haust um aukinn samruna Evrusvæðisins, sameiginleg fjárlög og hreyfanlegar hersveitir kostaðar af aðildarríkum. Niðurstaða þingkosninganna í Þýskalandi á sama tíma, þar sem stóru flokkarnir töpuðu fylgi en andstæðingar frekari samruna efldust til muna, féll illa að þessum hugmyndum Macrons, að ekki sé talað um viðbrögð minni ríkja austar í álfunni. Langvinn stjórnarkreppa í Þýskalandi í kjölfar kosninganna sl. haust hefur jafnframt sett spurningarmerki við frekara framhald stefnumála Macrons. Þegar svo litið er til ESB-landa eins og Ungverjalands, Tékklands og Póllands, sem gerðust aðilar að ESB fyrir röskum áratug og hafa enn ekki tekið upp evru sem gjaldmiðil, er þar hörð andstaða gegn frekari samruna og þeirri stefnu að deila flóttafólki niður á ESB-ríkin. Ef svo litið er til þeirra ESB-landa við Miðjarðarhaf, sem fyrst taka við straumi flóttafólks norður á bóginn, blasir við stjórnmálaleg óvissa sem enn fjölgar spurningarmerkjum um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Harðnandi vistkreppa framundan Fyrir okkur Íslendinga sem teljum okkur almennt búa við meiri velsæld nú en oftast áður kann sú mynd sem hér hefur verið dregin upp að þykja óþarflega dökk. Margir binda vonir við hraðfara tækniþróun sem leyst geti margan vanda og að rofað geti jafnframt til í samskiptum þjóða. Hér hefur hins vegar ekki verið fjallað um þær takmarkanir sem blasa við mannkyni á heimilinu jörð og nú eru almennt viðurkenndar. Þar er átt við aðsteðjandi loftslagsbreytingar af mannavöldum og takmarkaðar auðlindir til að standa undir núverandi neyslu, að ekki sé talað um áframhaldandi öra fólksfjölgun. Það þyrfti að verða sameiginlegt markmið sem flestra, einstaklinga og þjóða, að búa mannkynið undir þá óhjákvæmilega harðnandi glímu sem framundan er af þessum sökum og beita þar öðrum aðferðum en ójöfnuði og vopnavaldi. Hjörleifur Guttormsson |