Hjörleifur Guttormsson 2. mars 2018

Fjölþætt og öflugt átak til bjargar íslenskri tungu

Sá sem hér heldur á penna varð þess aðnjótandi að kenna íslensku ásamt öðrum greinum í tæpan áratug fyrir hálfri öld við gagnfræðastig og framhaldsdeildir í Neskaupstað. Áhugi á móðurmálinu hafði fylgt mér frá barnæsku og hann styrktist enn frekar við kennslustörfin.  Nú deili ég áhyggjum fjölmargra um framtíð íslenskunnar vegna örra tækni- og samfélagsbreytinga og ágengni hins enska málheims sem þeim tengist. Tölvutækni og netið leika hér lykilhlutverk en fyrirtækjarisarnir Facebook og Google ásamt með YouTube hirða nú um helming af auglýsingatekjum gegnum netið á heimsvísu. Aðferðafræði þessara auðhringa byggir á svonefndu algrími (algorithmus) og  blasir við hverjum manni sem notar leitarvélar. Hún bitnar ekki síst á börnum sem ánetjast auðveldlega. Að sögn þeirra sem best þekkja til vinnur kerfið nú sjálfvirkt, óháð mannlegum inngripum. (Christoph  Drösser. Ausser Kontrolle. Die Zeit. 8. febr. 2018). En þrátt fyrir þessar ógnir dugar ekki að leggja árar í bát og fyrir lítið málsvæði eins og okkar skiptir sköpum að brugðist sé við með öllum tiltækum ráðum, jafn tæknilega og samfélagslega.

Hægagangur í tvo áratugi

Íslenskt samfélag hefur brugðist seint og ómarkvisst við tækniþróun síðustu áratuga og þá ekki síst til varnar tungumálinu í tölvuheimum. Sem menntamálaráðherra reið þó Björn Bjarnason myndarlega á vaðið 1998 með því að hefja úttekt á stöðu máltækni og hrinda af stað  tungutækniáætlun í kjölfarið. Fjárveitingar voru hins vegar skornar við nögl og því skilaði þessi brýna atrenna takmörkuðum árangri. Íslensk málnefnd undir forystu Guðrúnar Kvaran setti 2008 fram markvissar tillögur að íslenskri málstefnu og m.a. skrifaði Eiríkur Rögnvaldsson prófessor drög að sérstökum kafla um íslensku í tölvuheiminum. Nefndin varaði við hægagangi á þessu sviði „og þar sem tölvutæknin sækir ört á í umhverfi okkar má búast við að enskan yfirtaki fleiri og fleiri þætti daglegs lífs.“  Tillögur málnefndarinnar undir kjörorðinu Íslenska til alls var samþykkt 2009, en aðgerðir stjórnvalda reyndust svifaseinar sem fyrr. Í skýrslu Máltækniseturs 2013 kom fram að lítill sem enginn stuðningur væri hérlendis við íslenska  máltækni. Meðal ástæðna var rakið að opinbert sjóðakerfi brygðist seint og ómarkvisst við umsóknum um verkefni á þessu sviði. Haustið 2014 skipaði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra nefnd  um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni og 2016 bættist við stýrihópur þriggja sérfróðra einstaklinga til að hafa umsjón með kortlagningu á máltækni og vali á tæknilegri útfærslu fyrir íslensku.  Fyrir atbeina hópsins og tillögur er nú loks tekið að rofa til.

Aðgerðaáætlun til 5 ára

Í fyrravor kynnti menntamálaráðuneytið tillögur nefndar um verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Með henni er stigið stórt skref af opinberri hálfu í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki til að koma upp innviðum fyrir íslenska máltækni. Markmiðið er að koma  íslenskri máltækni í almenna notkun í tölvum og tækjum og skipuleggja frá upphafi hlutverk stofnana, háskóla, ríkis og atvinnulífs í því skyni. Í skýrslu um áætlunina segja höfundar m.a.:

„Nú er svo komið að máltæknibúnaður  er orðinn alltumlykjandi og ljóst orðið að tungumál sem verða fyrir utan þróun á þessu sviði munu eiga erfitt uppdráttar á allra næstu árum.“ Hér er því í raun ekkert val. „Sækja þarf af festu og harðfylgi að erlend stórfyrirtæki á sviðinu bjóði upp á íslensku í sínum kerfum með sama hætti og önnur tungumál.“

Gert er ráð fyrir að til verkefnisins verði varið  samtals 2,3 milljöðrum króna, þar af er veitt til þess 450 mkr. samkvæmt fjárlögum í ár. Umsjón með framkvæmd áætlunarinnar verður falin sjálfseignarstofnuninni Almannarómur sem stofnað var til 2014, m.a. til að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum.

Skólar og heimili í lykilhlutverki

Þótt ofangreindar aðgerðir séu brýnar og nauðsynlegar koma þær fyrir lítið ef notendur íslenskunnar kasta henni fyrir róða og taka upp ensku í innbyrðis samskiptum. Þar gera hættumerki hvarvetna vart við sig eins og margir votta sem gerst mega vita. Ég minni á ummæli Bjarteyjar Sigurðardóttur talmeinafræðings í Fréttablaðinu 20. febrúar sl. þess efnis að orðaforði barna sem eiga íslensku sem móðurmál sé sífellt að verða enskuskotnari. „Mörg börn á leikskólaaldri eru jafnvel með sterkari orðaforða á ensku en íslensku“ , segir hún. Úrslitin um framtíð tungumálsins ráðast þó umfram allt á heimilunum og í samstarfi heimila og skóla. Lestur fyrir börn á ungum aldri og eftirlit með netnotkun þeirra getur einnig skipt sköpum og í því samhengi er hóflegur vinnudagur foreldra mikilvæg forsenda. Fyrir hálfri öld voru ritgerðir og stílæfingar drjúgur þáttur í íslenskunámi á öllum skólastigum og sendibréf gengu þá enn manna á milli. Sá tími er liðinn, en þörfin fyrir gott og agað málfar er áfram til staðar. Brýnasta verkefni Íslendinga nú um stundir er að tryggja grundvöll og viðhald tungu okkar og varðveita með því lykilinn að menningararfinum. Ásamt með ríkinu hafa sveitarfélögin sem umráðaaðilar leikskóla og grunnskóla þar mikilvægu hlutverki að gegna. Á það er ástæða að minna nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að vori.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim