Hjörleifur Guttormsson 7. ágúst 2018

Ísrael brýtur alþjóðasamþykktir og lögfestir nú að landið sé gyðingaríki

Í gúrkutíð hérlendra fjölmiðla hefur undanfarið eðlilega verið mikið rætt um óvenjulegt veðurfar, en  ýmsir stórviðburðir á alþjóðasviði hafa ekki náð inn á fréttastofur. Undir það falla ný „þjóðríkislög“ sem Ísraelsþing samþykkti 19. júlí sl. Með þeim er  landið skilgreint sem ríki Gyðinga og hebreska verður eina opinbera tungumálið. Arabíska sem áður var jafnstæð er sett skör lægra. Að mati þýskra fjölmiðla eins og Sddeutsche Zeitung (19. júlí) er þetta hnefahögg í garð ísraelskra þegna af öðrum uppruna, en þeir eru nú röskur fimmtungur af íbúum landsins. „Mismunun er nú leyfileg og ekki þarf lengur að virða réttindi minnihluta. Þessi lög eru jafnframt svik við sjálfstæðisyfirlýsinguna um stofnun Ísraelsrikis fyrir 70 árum“ segir blaðið undir fyrirsögninni Diskriminierung per Gesetz. New York Times segir samdægurs að þessi nýja grundvallarlöggjöf, sem jafngildi stjórnarskrárbreytingu, veiti Gyðingum einum réttinn til sjálfsákvörðunar. Deilur hafa staðið árum saman um drög að þessari lagasetningu. en hún var að lokum samþykkt með 62 atkvæðum gegn 55. Nethanyahu forsætisráðherra í hægrisinnuðustu ríkisstjórn í 70 ára sögu Ísraels, lýsir lögunum sem þeim afdrifaríkustu í sögu Síonista til þessa.   Nú binda andstæðingar þessara fáheyrðu laga helst vonir við að hæstiréttur landsins dæmi þau ómerk, en aðrir telja á því litlar líkur eins og dómstóllinn nú er skipaður.

Fróðleg bók um Mið-Austurlönd

Fyrr  á þessu ári kom út bókin Mið-Austurlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson (Mál og menning 2018). Ég hafði nýlokið við að lesa hana þegar ofangreind tíðindi bárust frá „landinu helga“. Tilkoma hennar er viðburður þar eð hún bætir úr brýnni þörf sem upplýsandi rit fyrir almenning um sögu heimshluta sem um langt skeið hefur verið eitt mesta átakasvæði á jörðinni og með flókna og fyrir flest okkar framandi sögu eftir að bernskum frásögnum biblíunnar sleppir. Magnús sem starfar í Bandaríkjunum var íslenskum útvarpshlustendum áður að góðu kunnur, en hér miðlar hann úr brunni þekkingar sinnar sem sagnfræðiprófessor og sérfræðingur um þennan heimshluta. Álitamálin í sögu þessa svæðis á síðasta mannsaldri eru mörg og umdeild, m.a. vegna síendurtekinnar íhlutunar Vesturlanda. Þróun mála í Palestínu, einkum frá upphafi 20. aldar til nútíma, er aðeins hluti þessa verks. Átakasaga Ísraela og Palestínumanna er hér rakin undir kaflafyrirsögninni „Hin fullkomna deila“.  Ísraelsríki varð til á upphafsárum Sameinuðu þjóðanna með umdeildri meirihlutasamþykkt þar sem sigurvegarar stríðsins en einnig smáríki eins og Ísland komu við sögu. Sjálfstæðisyfirlýsingu Ísraelsríkis 1948 fylgdi fyrsta stríðið við arabíska nágranna og brottrekstur um 700 þúsund Araba úr eigin landi. Um það segir Magnús Þorkell í bók sinni: „Sýnt hefur verið fram á það með óvéfengjanlegum hætti að hersveitir síonista og Ísrael beittu hernaðalegu valdi til að reka meirihluta flóttamanna frá heimilum sínum“ (s. 196). Tveimur áratugum seinna, 1967, háði síðan Ísraelsher sigursælt árásarstríð  sem lauk með hernámi Ísraels  á stórum landsvæðum, sem enn er staðreynd, þ.e. á Vesturbakkanum, Gasa, Sínaiskaga og í Golanhæðum. Þvert ofan í vopnahlésskilmála og alþjóðasamþykktir hafa Ísraelsmenn síðan markvisst fært út byggðir Gyðinga á hin herteknu svæði, skref fyrir skref allt fram á þennan dag.

Breytt afstaða hérlendis til Ísraels og Palestínumanna

Viðhorf íslenskra stjórnvalda til Ísraels einkenndust um áratugi líkt og margra annarra fyrst og fremst af samúð við Gyðinga vegna ofsókna, en  mörkuðust  einnig af sögulegu og  trúarlegu ívafi.  Tilkoma Frelsissamtaka Palestínu (PLO) sem málsvara palestínsku þjóðarinnar breytti smám saman einhliða mynd af Íraelsríki, ekki síst eftir sexdagastríðið 1967 og víðtækt hernám Ísraels á landsvæðum nágrannaríkja sem fordæmt var af yfirgnæfandi meirihluta á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Alþingi sanþykkti vorið 1989 þingmannatillögu um deilur Ísraels og Palestínumanna (mál A102 á 111. þingi). Með henni fordæmdi þingið yfirgang Ísraelsmanna og lýsti stuðningi við alþjóðlega friðarráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Orðrétt sagði þar: „Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þlóðarinnar  og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að virða rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu.“ – Það var í góðu samræmi við þennan vilja þingsins að Steingrímur Hermannsson fór sem forsætisráðherra Íslands til fundar við formann PLO, Jassir Arafat, í Túnis vorið 1990.

Tveggja  ríkja lausnin fjarlægist óðum

Óslóarsamkomulagið  frá árinu 1993 vakti miklar vonir um viðsnúning í þessari hrikalegu deilu. Það var undirritað í Hvíta húsinu af báðum aðilum, Ísrael og PLO, sem með því viðurkenndu hvor annan og að stefnt skyldi að gagnkvæmri lausn með stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu við hlið Ísrael innan landamæra þess síðarnefnda frá því fyrir stríðið 1967. Brátt sló hins vegar í bakseglin, m.a. vegna landnáms Gyðinga á hernumdu svæðumum, þar sem nú búa um 500 þúsund manns í fullkomnum órétti. Síðustu aðgerðir stjórnar Nethanyahu að lýsa Jerúsalem höfuðstað Ísraels og nú með því að lögfesta að Ísraels-Arabar skuli verða annars flokks fólk í eigin landi, eru hnefahögg sem ekki verða misskilin. Magnús Þorkell Bernharðsson er sem vænta má ekki bjartsýnn á  að úr rætist. Hann segir: „Óslóarsamkomulagið er nú óvirkt og bitlaust og ekki virðist í vændum pólitískur metnaður hjá Ísraelum til að gefa nokkuð eftir. ... Sögulegar frásagnir beggja aðila byggjast á hræðslu og óöryggi. Báðir aðilar óttast útrýmingu. Og að einhverju leyti óttast báðir aðilar frið.“ Lagasetningin nýja im Gyðingaríkið, sem nefnd var hér í upphafi, bætir enn gráu ofan á svart.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim