Hjörleifur Guttormsson 8. apríl 2018

Fjöldi erlendra ferðamanna er vaxandi ógnun við náttúru landsins og samfélag

„Alls staðar þar sem þolmörk voru rannsökuð var þolmörkum náð. Þó nokkur friðlýst svæði og náttúruvætti eru á válista Umhverfisstofnunar yfir svæði í hættu vegna álags ferðamanna. ... Á sumrin þegar aðsóknin er mest virðist stór hluti ferðamanna vera kominn yfir þolmörk sín hvað fjölmenni á svæðunum varðar. ... Svo virðist sem álagið af vaxandi fjölda ferðamanna sé farið að valda miklum náttúruspjöllum á vinsælum ferðamannastöðum. ...  Geysir og Skógafoss (eru) orðin það illa leikin að þau eru í hættu og staðir eins og Dyrhólaey, Dverghamrar og Gullfoss ekki í mikið betra ástandi.“ Þetta eru nokkrar tilvitnanir í nýútkomna skýrslu ferðamálaráðherra til Alþingis um þolmörk ferðamennsku hérlendis, en beiðni um hana var lögð fram af Vinstri grænum fyrir tveimur árum. Það segir sitt um veltinginn í stjórnmálum hérlendis hversu löng bið var eftir svari. Skýrslan sem er 171 síða með viðaukum er annars fróðlegt plagg sem auðvelda ætti mat á stöðu mála sem tengjast ferðaþjónustunni og hún undirstrikar hversu brýnt er að grípa til mótvægisaðgerða.

Vöxturinn virðist ætla að halda áfram

Ör fjölgun ferðamanna sem Ísland sækja heim er lýginni lík og á sér vart hliðstæðu. Fjöldi brottfara erlendra ferðmanna nam 2,2, milljónum á síðasta ári og aukningin hefur numið um 25% árlega síðustu sjö ár og fimmfaldast síðan 2010. Við þetta bætast komur farþega með skemmtiferðaskipum, sem kallast dagsferðamenn, en fjöldi þeirra hefur vaxið um 11% milli ára að meðaltali á sama tímabili. Annar mælikvarði er fjölgun gistinátta sem vaxið hefur úr 3 milljónum árið 2010 í 8,8 milljónir á síðasta ári. Vantar þó stórum á að tölur um það efni skili sér í opinberar skýrslur þar eð upplýsingar um gistingu samkvæmt vefsíðum, Airbnb ofl., vantar að stórum hluta í hagtölur og skattgreiðslur til hins opinbera að sama skapi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í aðstreymi ferðmanna til landsins og umfram það sem sem spáð er á heimsvísu, þótt ef til vill hægi á fjölgun frá því sem nú er. Unnið er að því að auka afkastagetu Keflavíkurflugvallar og flugfélögum sem þangað fljúga fer stöðugt fjölgandi. Nú eru uppi áform bæði hjá Icelandair og WOW Air um að hefja beint flug til og frá Asíu. Með fyrirvara um óvissu í  framreikningum þurfa viðbrögð af hálfu stjórnvalda að  taka mið af þessum horfum.

Auðlindin náttúra í bráðri hættu

Ekki er um það deilt að íslensk náttúra er aðal aðdráttaraflið sem laðar hingað erlenda ferðamenn. Með fjölgun þeirra vex álagið og er löngu komið á hættustig þar sem aðsóknin er mest. Lengi hefur vanræksla einkennt viðbrögð stjórnvalda og umráðaaðila lands á fjölsóttum ferðamannastöðum nánast um allt land. Alltof seint hefur verið hugað að skipulagi til móttöku og nauðþurfta ferðamanna. Þetta á einnig við um friðlýst svæði í opinberri umsjá. Afleiðingin blasir við og á ekki að þurfa miklar rannsóknir til að sprett verði úr spori til úrbóta. Með fjölgun vetrargesta stigmagnast vandinn þar eð á þeim árstíma er náttúra landsins viðkvæmari gagnvart átroðningi, göngustígar vaðast út og grasflatir, hólar og hæðir troðast í svað. Viðurkennt er af skýrsluhöfundum að óhjákvæmilegt verði að taka upp takmarkanir á aðgengi ferðamanna, en til þess þarf samræmingu á reglum og skipulag þar sem margir koma við sögu. Um 70 þúsund ferðamenn eru sagðir dveljast hérlendis dag hvern yfir sumarmánuðina og örtröðin sem þessu fylgir á eftirsóttum stöðum spillir orðspori landsins fyrir utan það að Íslendingar halda sig frá helstu náttúruperlum hér heima fyrir og leita í auknum mæli til útlanda í staðinn.

Ferðaþjónustan á að standa undir afleiddum kostnaði

Við súpum nú seyðið af langvarandi vanstjórn og reiðuleysi á sviði ferðamála, ekki síst varðandi brýna tekjuöflun til að lágmarka áhrif af ferðmannastraumnum á náttúrulegt umhverfi og bæta fyrir álag á vegakerfi landsins. Ferðaþjónustan á jafnframt drjúgan þátt í losun gróðurhúslofts sem veldur hlýnun lofthjúpsins og súrnun sjávar. Talið er samkvæmt skýrslu ferðamálaráðherra að rekja megi 5% af  losun gróðurhúslofttegunda til ferðatengdrar starfsemi, einkum frá samgöngum. Ekki vantar fögur orð af stjórnvalda hálfu um sjálfbærnimarkmið á sviði ferðaþjónustu, en það er útfærslan sem hefur brugðist. Þannig hefur ferðaþjónustan greitt lægri virðisaukaskatt en aðrar atvinnugreinar án þess frambærileg rök séu fyrir slíku í blómstrandi atvinnugrein. Árið 2015 var gefinn út svonefndur Vegvísir í ferðaþjónustu í samvinnu stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar og skyldi hann gilda  til ársins 2020. Sett var á fót svonefnd Stjórnstöð ferðamála, sem í eiga sæti ekki færri en fimm ráðherrar, þannig að ekki vantaði silkihúfurnar. Einnig OECD hefur komið að því að meta stöðu og horfur í ferðaþjónusta hérlendis. Niðurstaðan var ekki óvænt: Áframhaldandi fjölgun ferðamanna hérlendis er ekki sjálfbær og gæta þarf að verndun sjálfs aðdráttaraflins, náttúrunnar og samfélagsins. Vituð þér enn – eða hvað?



Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim