Hjörleifur Guttormsson 8. október 2018

Fjölga þarf náttúruverndarsvæðum í öllum landshlutum

Umhverfismál eru smám saman að þokast ofar á dagskrá alþjóðastjórnmála og einnig hérlendis. Á þessu sviði hefur tregðulögmálið ráðið för eins og best sést af því að hátt í hálfa öld tók það alþjóðasamfélagið að sameinast um að spyrna við fótum gegn manngerðum loftslagsbreytingum. Þegar árið 1968 sýndu rannsóknir í hvað stefndi með aukningu koldíoxíðs í andrúmslofti. Dæmi um að skilaboðin hafi loks náð eyrum stjórnmálamanna eru orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir viku þar sem hann sagði engan vafa í sínum huga „að loftslagsbreytingar eru óðum að verða alvarlegasta ógnin við heimsfrið, öryggi og þróun.“ Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og stefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytis er síðan að finna mörg fyrirheit sem stefna í rétta átt, m.a. um náttúruvernd og skipulag. En til að ná raunverulegum árangri þarf að virkja almenning til þátttöku og stilla saman strengi með sveitarfélögum sem nýverið hafa kosið sér forystu til fjögurra ára. Það á ekki síst við um ákvarðanir í skipulagsmálum, þar sem sveitarfélögin eru í lykilstöðu lögum samkvæmt.

Breyttar forsendur fyrir náttúruvernd

„Fámenn þjóð í stóru landi“ er oft viðkvæðið þegar lýsa skal aðstæðum hérlendis og viðfangsefnum sem tengjast búsetunni. Samkvæmt opinberum tölum er innan við fjórðungur landsins talinn gróinn og til búsetu fallinn og hefur sá hluti minnkað mikið frá landnámi vegna gróðureyðingar og uppblásturs. Fyrstu skipulagslög hérlendis voru sett árið 1921 og náðu þá aðeins til kauptúna og sjávarþorpa með yfir 500 íbúa. Það er svo fyrst árið 1979 að allt landið var gert skipulagsskylt og ekki fyrr en undir síðustu aldamót að þau ákvæði tóku í reynd einnig til hálendissvæða eftir að mörk sveitarfélaga voru ákvörðuð inn til landsins. Fyrsti þjóðgarðurinn að náttúruverndarlögum var stofnaður í Skaftafelli árið 1967 og fyrsti fólkvangurinn hérlendis í Neskaupstað 1972. Fyrsti þjóðgarðurinn sem náði að sjó var Snæfellsnesþjóðgarður, stofnaður árið 2001 eftir að hafa verið á dagskrá í þrjá áratugi. Aðsókn að svæðinu hefur margfaldast síðustu árin. Með skipulagslögunum 1997 og þjóðlendulögum um sama leyti opnuðust möguleikar á að efna til þjóðgarða á óbyggðum hálendisins og á þeim grunni var Vatnajökulsþjóðgarður formlega stofnaður fyrir röskum áratug samhliða umræðu um fleiri þjóðgarða á þjóðlendum miðhálendisins. Er nú markvisst unnið að því máli á vegum stjórnvalda í samráði við aðliggjandi sveitarfélög.

Stór og smá svæði bíða friðlýsingar

Á náttúruminjaskrá sem er listi yfir öll friðlýst svæði á Íslandi og mörg önnur áhugaverð og merkileg svæði sem enn hafa ekki enn verið friðlýst. Umhverfisstofnun skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og hlutaðeigandi náttúrustofur og náttúruverndarnefndir sjá um undirbúning og öflun gagna vegna viðbóta við náttúruminjaskrá og heildarútgáfu hennar. Forðast ber að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem eru á skránni og ekki hafa þegar verið friðlýstar og auk þess fylgir viss forkaupsréttur ríkisins ef fyrirhuguð er sala þeirra. Í lok síðasta árs voru skráðar samtals 778 náttúruminjar, mikill meirihluti þeirra án friðlýsingar að náttúruverndarlögum. Að mínu mati hefur gengið alltof hægt hjá stjórnvöldum að taka afstöðu til og láta reyna á friðlýsingu slíkra minja og veldur miklu fjárskortur til Umhverfisstofnunar mörg undanfarin ár. Þetta á m.a. við um stór svæði fram með ströndum landsins sem fallið hafa úr byggð að mestu eða öllu leyti á síðustu öld og búa yfir fjölbreyttri og sérstæðri náttúru og menningarminjum, sem sumar hverjar eru í bráðri eyðingarhættu, m.a. af hækkun sjávarborðs. Á sama tíma seilast útlendingar á síauknum mæli eftir kaupum á landi og jörðum hérlendis, m.a. í krafti EES-samningsins.

Efniviður í stór verndarsvæði

Undirritaður hefur í meira en hálfa öld fylgst með stöðu og þróun náttúruverndarmála hér heima og erlendis. Margt ánægjulegt hefur borið við á þeirri vegferð en annað miður. Þannig hafa hlaðist upp fjölmörg verkefni sem kalla á afstöðu og úrlausn. Þetta á m.a. við um áðurnefnd stór svæði í öllum landshlutum þar sem byggðin er orðin mjög strjál eða hefur lagst af með öllu. Ef skipulagsyfirvöld á vegum ríkis og sveitarfélaga eru ekki á vaktinni um afdrif slíkra landsvæða ræður kylfa kasti um meðferð þeirra og afdrif. Ég vil sérstaklega hvetja sveitarstjórnarmenn eldri sem yngri til að fara yfir þessi mál, hver í sínum ranni, og bind vonir við að þeir fái betri áheyrn nú af hálfu Alþingis sem og ríkisvaldsins og stofnana þess en verið hefur um skeið.

Leyfist mér hér í lokin að tilfæra nokkur dæmi um álitleg svæði utan miðhálendisins sem efni í þjóðgarða, friðlönd eða til landslagsverndar:

 • Búlandstindur, Búlandsdalur og Hálsar
 • Breiðdalseldstöð
 • Gerpissvæðið
 • Úthérað og aðliggjandi fjallgarðar
 • Víkur og Loðmundarfjörður
 • Langanes frá Gunnólfsvík að Fonti
 • Melrakkaslétta norðanverð
 • Flateyjarskagi og Náttfaravíkur
 • Kálfshamarsvík og Ketubjörg á Skaga
 • Norður-Strandir með Drangajökli
 • Skaginn milli Arnarfj. og Dýrafjarðar
 • Arnarvatnsheiði og Tvídægra
 • Brynjudalur, Botnsdalur og Hvalvatn
 • Reykjanes, Eldvörp og Hafnabjarg
 • Skjaldbreiður og grennd
 • Þórsmörk og nágrenni
 • Núpsstaður, Núpsstaðarskógar og Grænalón
Hér er verk að vinna í þágu alþjóðar og umheimsins.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim