Hjörleifur Guttormsson 8. desember 2018

Sýningarnar í Perlunni – Lykill að innsýn í íslenska náttúru

Mannkynið er óðum að hverfa úr sveit inn í borgir. Með því slitna náttúrulegar rætur við umhverfið utan þeirra sem áður fyrr hjálpaði til skilnings á tilverunni. Einnig hérlendis er þessi þróun í fullum gangi, þótt ef til vill gangi hún hægar en í þéttbýlli löndum. Við slíkar aðstæður er góð fræðsla um umhverfið í skólum, á náttúrusöfnum og í fjölmiðlum mikilvægari en áður. Því er það fagnaðarefni að eftir langt hlé og afturför í málefnum náttúrusafns á höfuðborgarsvæðinu skuli nú vera komin fjölbreytt sýning um íslenska náttúru í Perlunni á Öskjuhlíð í samstarfi margra aðila. Fyrsti vísirinn varð sýnilegur með íshelli og jöklasýningu fyrir rösku ári, en nú á fullveldisdaginn 1. desember birtist mönnum framhald sem ekki verður jafnað við annað en hástökk í sýningarhaldi af þessu tagi hérlendis. Þar kemur til fjölþætt margmiðlun ásamt textaskýringum, lifandi og sérhönnuð sýnishorn, steindir og bergmyndanir, að ógleymdu stjörnuveri af fullkomnustu gerð. Hér verður stiklað á örfáum atriðum úr langri og oft dapurlegri sögu, uns þáttaskil urðu fyrir um þremur árum.

Frá áhugastarfi HÍN í daufa ríkisforsjá

Hið íslenska náttúrufræðifélag sem stofnað var árið  1889 hóf þá þegar að koma á fót náttúrufræðisafni sem árið 1908 fékk inni í sýningarsal  í Safnahúsinu við Hverfisgötu og var þar fram undir 1960. Þá hafði félagið gefið ríkinu safnið til eignar gegn loforði um að byggt yrði yfir það á lóð Háskólans. Við það var ekki staðið en á árunum 1967-2008 hélt Náttúrufræðistofnun Íslands uppi sýningu náttúrugripa í leiguhúsnæði við Hlemm, sem nýttist ekki síst skólum. Um 1990 starfaði stjórnskipuð nefnd sem lagði m.a. til að byggt yrði yfir sýningarhald sérstakt Náttúruhús í eigu ríkisins, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar á lóð sem enn er merkt þessu verkefni í Vatnsmýrinni. Fjárveiting í verkefnið birtist í frumvarpi árið 1992, en þá hljóp annar stjórnarflokkur þess tíma undan merkjum og ekkert marktækt gerðist næstu 15 árin. Árið 2007 voru sett lög um Náttúruminjasafn Íslands og yfir það skipaður forstjóri sem fékk hins vegar enga áheyrn hjá menntamálaráðuneytinu næstu 5 árin. Í ársbyrjun 2012 sendi Ríkisendurskoðun frá sér harðorða skýrslu um málefni safnsins, sem þá var enn nafnið tómt. Þrátt fyrir umræðu á Alþingi 3. febrúar 2012 og fyrirheit þáverandi stjórnvalda um aðgerðir sat við það sama af opinberri hálfu fram á árið 2017.  

 „Perluvinir“ buðu fram aðstoð

Í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar kom í febrúar 2012 saman 5 manna áhugahópur sem kallaði sig Perluvini. Í honum voru Hjörleifur Stefánsson arkitekt, Þórunn S. Þorgrímsdóttir sýningarhönnuður, Árni Hjartarson formaður HÍN, Álfheiður Ingadóttir ritstjóri Náttúrufræðingsins og undirritaður. Höfðu tvö þau fyrstnefndu skrifað grein í Fréttablaðið þann 4. febrúar 2012 þar sem þau lögðu til að komið yrði upp á vegum Náttúrminjasafnsins sýningu í Perlunni, en Orkuveita Reykjavíkur hafði þá nýlega boðað sölu hússins til einkaaðila. Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og frumkvöðull að byggingu Perlunnar tók afar jákvætt undir safnhugmyndina (Mbl. 10. febr. 2012) og Reykjavíkurborg opnaði fyrir leigu á Perlunni í þessu skyni og eyrnamerkti upphæð í verkefnið. Perluvinir sendu Katrínu Jakobsdóttur þáverandi menntamálaráherra erindi 15. febr. 2012 þar sem sagði m.a.: „Við höfum í huga að húsnæðið, að breyttu breytanda, þurfi að standast kröfur um  nútímalega vísindamiðlun og að sýningar þar geti endurspeglað gagnvirk áhrif manns og náttúru.“  Ríkisstjórnin sem tók við 2013 aðhafðist hins vegar lengi vel ekkert í málinu þrátt fyrir eftirrekstur Perluvina, borgarstjórnar og Hilmars J. Malmquist forstjóra safnsins.

Perla norðursins ehf verður til

Haustið 2015 brugðu Perluvinir á það ráð að breikka hópinn, stofnuðu einkahlutafélag til að ýta á eftir aðgerðum og fengu til liðs við sig um 80 manns. Félagið leitaði til Finnboga Jónssonar um stjórnarforystu sem hann hefur gegnt síðan af alkunnri atorku og tók síðar einnig við stjórnarforystu í Perlu norðursins ehf. Það gerðist í sama mund haustið 2015 að fram komu fjárhagslega öflugir aðilar, sem áhuga höfðu á að fjárfesta í sýningum í Perlunni og höfðu hafið undirbúning í því skyni. Forystu fyrir þeim hafði Gunnar Gunnarsson lögmaður, nú forstjóri Perlunnar. Varð sammæli með þeim og Perluvinum ehf um tilboð til Reykjavíkurborgar um leigu á Perlunni til langs tíma undir náttúrusýningu. Var það samþykkt einróma í borgarráði 3. mars 2016.  Hófst þá þegar undirbúningur að sýningu og breytingu á húsnæðinu  í samvinnu við Ingimar Sveinsson arkitekt Perlunnar. Jafnframt kynnti Perla norðursins ehf  menntamálaráðuneytinu tilboð um að Náttúruminjasafn Íslands fengi endurgjaldslaust sýningaraðstöðu til a.m.k. 15 ára á sérstöku 340 m2  rými í Perlunni og að auki að kosta fyrir safnið laun tveggja safnkennara, m.a. til að taka á móti skólanemendum. Kristján Þór Júlíusson þáverandi menntamálaráðherra sýndi þessu strax áhuga og samningur var að lokum undirritaður með blessun Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra 30. ágúst sl. Alþingi samþykkti  jafnframt að leggja safninu til nauðsynlegt fjármagn til uppsetningar á sýningarþætti, sem ber heitið Vatnið í náttúru Íslands. Ég hygg að sjaldan hafi tekist að leysa úr jafn flóknu og fjölþættu verkefni á svo stuttum tíma, og það þrátt fyrir alvarlegan bruna á svæðinu sl. vor.

Stór áfangi á langri leið

Af fjölmörgu markverðu sem gerðist í tengslum við fullveldisafmælið um liðna helgi mun náttúrusýningarnar í Perlunni framvegis bera hátt. Með þeim hefur tekist með samvinnu einkaaðila, áhugafólks og stjórnvalda að bæta svo um munar úr áratuga vanrækslu. Ákvæði í sáttmála núverandi ríkisstjórnar vekur jafnframt vonir um að áfram verði sótt fram, því að þar er gert ráð fyrir framtíðarhönnun fyrir öflugt Náttúruminjasafn Íslands við hlið annarra höfuðsafna. Reynslan úr Perlunni á  Öskjuhlíð mun væntanlega auðvelda mönnum að fóta sig á því stórbrotna verkefni.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim