Hjörleifur Guttormsson 11. maí 2018

Hvar eru umhverfismálin í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna?

Örfáar vikur eru er þar til kosið verður til sveitarstjórna hérlendis. Skipan þeirra og málefnasamningar að þeim loknum varða miklu um þróun mála á landinu sem heild sem og á viðkomandi svæðum. Í höfuðborginni hafa birst óvenju mörg  framboð en sums staðar úti um land hefur jafnvel grónum stjórnmálaflokkum reynst erfitt að manna lista á sínum vegum. Sitthvað af því sem fram kemur í farangri þessara framboða, ekki síst í höfuðborginni, ber vott um áherslur sem fremur snúa að Alþingi sem löggjafa en sveitarstjórnum. Annað sem snertir sveitarfélögin sérstaklega, ein og sér eða svæðisbundið, vill verða útundan. Þar sakna ég sérstaklega stefnumarkandi umræðu um umhverfis- og skipulagsmál sem furðu lítið ber á nú í aðdraganda kosninganna 26. maí næstkomandi. Þó er sveitarstjórnum lögum samkvæmt ætlað  mikið hlutverk í þeim efnum og valdsvið þeirra á því sviði er jafnvel meira í reynd en ríkisins. Þetta á ekki síst við um skipulag og staðbundna meðferð lands innan marka hvers sveitarfélags, jafnt í byggð sem í óbyggð.

Gífurlegar áskoranir framundan

Vart fer það framhjá neinum að á sviði umhverfismála eru framundan gífurlegar áskoranir, bæði almenns efnis en einnig sértækar fyrir einstök landsvæði. Í liðinni viku birtist ný vísindaleg úttekt um Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, sú þriðja frá aldamótum. Þar er spáð fyrir um breytingar í kjölfar áframhaldandi hlýnunar og rýnunar jökla sem hafa munu viðtæk áhrif fyrir landið sem heild en líka mismunandi fyrir einstök landsvæði. Langtímahækkun sjávarstöðu er talin óumflýjanleg víðast hvar á landinu utan Suðausturlands. Þetta varðar ekki síst skipulagsákvarðanir á höfuðborgarsvæðinu, en lítið hefur farið fyrir viðbrögðum við slíkri vá. Einnig er súrnun sjávar örari hér á norðurslóðum en sunnar og getur haft margvísleg áhrif fyrir lífríki og sjávareldi. Hlýnun loftslags um allt að 4°C á þessari öld, sem að meirihluta kæmi fram í hækkuðum vetrarhita, breytir vaxtarskilyrðum gróðurs og kallar á stefnumótun sem lengi hefur vantað um meðferð íslensks gróðurrríkis. Skilyrði til sjálfgræðslu ættu að batna til muna, m.a. mun þá íslenska birkið geta lagt mikið af mörkum í bindingu gróðurhúsalofts. Jafnhliða vex svo þörfin á virku átaki gegn ágengum tegundum.

Ferðamannastraumurinn og skipulag

Stóraukinn straumur erlendra ferðamanna til landsins knýr á um viðbrögð, þar sem ekki síst reynir á sveitarfélögin að bregðast við. Fyrir tveimur árum voru samþykkt lög nr. 20/2016 „um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum“. Á grundvelli þeirra hefur umhverfisráðherra nú lagt fram á Alþingi stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða í þessu skyni á tímabilinu 2018-2029. (479 mál þingsins). Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar fjögurra ráðuneyta ásamt með fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Henni til ráðgjafar er svo sérstök stuðningsnefnd. Landsáætlunin er mikið plagg sem kallar m.a. á útfærslu sveitarfélaga í skipulagi sem og stefnumótandi reglur í samvinnu við aðila í ferðaþjónustu og fjölmarga aðra. Með þessu á að bæta úr langri vanrækslu og hiki stjórnvalda við að bregðast við ferðamannastraumnum og því mikla álagi sem hann veldur. Samtímis þessu lagði ferðamálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um þolmörk ferðamennsku, þar sem dregin er fram núverandi takmörkuð vitneskja um þau efni. Furðu hljótt hefur verið í fjölmiðlum um þessar tillögur sem eiga þó sannarlega erindi inn á vettvang sveitarstjórna og eru góður efniviður fyrir þá að vinna úr sem kjörnir verða innan skamms.

Markvissa vinnu þarf í nærumhverfinu

Sú staða sem hér blasir við ef tryggja á verndun náttúru og menningarminja vegna loftslagsbreytinga og ferðamannastraums reynir á viðbrögð á fjölmörgum sviðum. Þar er m.a. um að ræða fjölþættar rannsóknir, skipulagsákvarðanir, landvörslu og framkvæmdir sem falli sem best að umhverfi á hverjum stað. Aðhlynning að söfnum og rannsóknarsetrum sem víðast á landinu eru þættir sem sinna þarf af alvöru og byggja þannig  upp þekkingu og kynningu svæðisbundið.  Meðal annars þarf að koma til óháð ráðgjöf fyrir sveitarstjórnir og aðra á sviði skipulags og náttúruverndar. Henni væri best komið fyrir í náttúrustofum landshlutanna og er eðlilegt er að ríkið leggi fram fjármagn í því skyni.

Þær áskoranir sem blasa við um allan heim vegna loftslagsbreytinga, ótæks efnahagskerfis,  fólksfjölgunar og örra tæknibreytinga munu reyna mjög á mannheim allan á þessari öld. Íslenskt samfélag, ríki, sveitarfélög og fyrirtæki eiga allt sitt undir að vel takist til.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim