Hjörleifur Guttormsson | 15. febrúar 2018 |
Hrakfarir þýskra sósíaldemókrata ekkert einsdæmi Kosið var til þýska sambandsþingsins Bundestag 24. september sl. haust, mánuði fyrr en hér til Alþingis. Á Íslandi var mynduð ríkisstjórn eftir viðræður sem staðið höfðu í fjórar vikur, á Þýskalandi tók þetta ferli á fimmta mánuð og nú er það undir óbreyttum flokksmönnum í þýska krataflokknum SPD komið hvort núverandi stjórn þriggja flokka (SPD, CDU og CSU) verður endurnýjuð og taki formlega við völdum í marsbyrjun. Þessar löngu fæðingarhríðir hafa verið sögulegar og varpa um leið ljósi á flókna stöðu í þýskum stjórnmálum og þá um leið innan Evrópusambandsins. Allir töpuðu þessir þrír flokkar miklu fylgi í kosningunum í september og hefur SPD ekki séð framan í minna fylgi (20,5%) frá upphafi. Nýr formaður, Martin Schulz (62ja ára), fór fyrir flokknum í kosningabaráttunni, kallaður til af fráfarandi formanni Sigmari Gabriel (58 ára) sem enn er utanríkisráðherra. Schulz var áður þingforseti á Evrópuþingi ESB í Strasborg en var fyrst sl. haust kosinn á sambandsþingið í Berlín. Þessi mannaskipti reyndust enginn happadráttur fyrir SPD og tóku á sig sögulegan kollhnís í síðustu viku. Afleiðingarnar gætu haft víðtæk áhrif og varpa ljósi á kreppu sósíaldemókrata og viðhorf almennings til stjórnmála nú um stundir. Þýskir sósíaldemókratar lengi gefið tóninn Stefna þýskra krata hefur lengi verið tóngefandi fyrir sósíaldemókrata víðast hvar í Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndum. SPD hefur þannig allt frá seinni hluta 19. aldar verið eins konar móðurskip annarra krataflokka í álfunni. Grundvallarbreyting varð á stefnu flokksins 1959 með nýrri stefnuskrá sem kennd er við Godesberg í Bonn. Þar var formlega fallið frá andstöðu við kapítalismann sem leiðandi afl en í staðinn skyldi reynt að endurbæta ríkjandi kerfi. Tákngervingur þessa málstaðar varð Willy Brandt og síðar Helmut Schmidt og Gerhard Schröder, allir um tíma leiðandi sem forsætisráðherrar með kanslaranafnbót. Þeir ásamt formönnum franskra sósíalista, Mitterand og Delors, drógu EB/ESB-vagninn sem skandinavískir sósíaldemókratar stukku á 1989 með afdrifaríkum afleiðingum, ekki síst fyrir norrænt samstarf. Merkel sem kanslari frá 2005, m.a. í tveimur samsteypustjórnum með sósíaldemókrötum, hefur með flokki sínum CDU lengi sótt inn á miðjuna og býr sig nú undir að leiða slíka ríkisstjórn með krötum innanborðs í þriðja sinn. Hvort þau áform ganga eftir er nú óvíst og hangir margt á þeirri spýtu. Kviðrista krataforystunnar Viðbrögð Schulz við kosningaúrslitunum sl. haust voru eindregið þau að áframhaldandi stjórnarþátttaka með Merkel kæmi ekki til greina. Að áeggjan Steinmeiers forseta sá hann sig um hönd. Miðvikudaginn 7. febrúar sl. eftir lyktir margra vikna stjórnarmyndunarviðræðna önduðu margir léttar og talið var að krataforystan hefði náð ýmsu fram á lokametrunum. En þá féll sprengja. Martin Schulz opinberaði að hann hygðist stíga niður úr formannssæti sínu og afhenda Andreu Nahles keflið. Sjálfur myndi hann verða utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Þá steig fram Sigmar Gabriel, enn í því embætti, og sagði áform flokksforystunnar ganga þvert á loforð um að hann héldi ráðherrastarfinu. Jafnframt varð ljóst að formannsefnið Nahles hafði vikum saman verið þátttakandi í þessum áformum Schulz. Þessi tíðindi féllu eins og sprengja og viðbrögð fjölda flokksmanna leiddu til þess að Schulz sá þann kost einan að draga sig í hlé. Síðan hefur umræðan meðal flokksmanna SPD og í fjölmiðlum snúist um þessa ótrúlegu atburðarás. Í Süddeutsche Zeitung skrifaði 9. febrúar sl. Ferdos Forudastan, nú yfirmaður á ritstjórn og áður blaðafulltrúi Gauck fyrrum forseta, að nú verði félagar í SPD að spyrja sig réttra spurninga: Uppgjör krata við frjálshyggjuna á brauðfótum Mikil andstaða er innan SPD við fyrirhugað stjórnarsamstarf, ekki síst meðal ungliða í flokknum. Úrslit atkvæðagreiðslu flokksmanna í marsbyrjun með eða móti stjórnarþátttöku eru engan veginn gefin og hætt er við að áfram fjari undan fylginu. Það sama er að gerast jafnvel í enn ríkari mæli víðast hvar í álfunni, m.a. í Frakklandi þar sem fylgi við sósíalista reyndist undir 10% í kosningum á síðasta ári. Tvístígandi stefna og óljós afstaða krata til meginspurninga varðandi samfélagsþróun síðustu ára og framhaldið, stuðningur við hnattvæðingu á forsendum fjármagnseigenda og hálfvelgja í umhverfismálum eiga eflaust ríkan þátt í sögulegu hruni þessara fyrrum merkisbera á vinstri væng stjórnmálanna. Hjörleifur Guttormsson |