Hjörleifur Guttormsson 18. janúar 2018

Sveitarstjórnarstigið í ógöngum – hvað er til ráða?

Sá sem þetta ritar átti mikið samstarf við sveitarstjórnir og fulltrúa þeirra á síðasta þriðjungi 20. aldar. Búseta í Neskaupstað setti eðlilega mark sitt á þessi samskipti sem og starf mitt  á Alþingi í tvo áratugi. Staða Neskaupstaðar sem sveitarfélags var nokkuð óvenjuleg að því leyti að þar var í hálfa öld við völd vinstri meirihluti, lengst af undir merkjum Alþýðubandalagsins. Þátttaka í því starfi var góður skóli fyrir marga. Frá æskudögum hafði ég haft mikinn áhuga á stjórnmálum en sóttist ekki eftir sæti í sveitarstjórn og raunar ekki heldur eftir þingsæti. Það sem réði för var áhugi á samfélagsþróuninni og þátttaka með samferðamönnum við að leggja henni lið. Sveitarfélög á Austurlandi komu sér snemma upp samstarfsvettvangi, SSA, sem enn er við lýði og stjórn þess hafði jafnan mikil og gagnkvæm samskipti við þingmenn kjördæmisins. Þrátt fyrir breyttar aðstæður hef ég áfram verið í snertingu við sveitarstjórnir eystra og syðra og fylgst með umræðunni um sveitarstjórnarstigið. Hún endurspeglar áhyggjur manna af þróun þess og að því er virðist ört minnkandi áhuga einstaklinga og almennings til þátttöku á þeim mikilvæga vettvangi.

Mistök sem þyrfti að leiðrétta

Þróun sveitarfélaga og samstarf þeirra á milli á 20. öld tók miklum breytingum. Framan af birtust þær m.a. í aðskilnaði þéttbýlis og dreifbýlis með fjölgun kaupstaða og kauptúnahreppa og þannig urðu m.a. til fámennir sveitahreppar við hlið kauptúna, m.a. innan sama fjallahrings. Forystumenn þéttbýlis gáfu yfirleitt tóninn um þessa aðgreiningu. Sýslur yfir 20 talsins voru þá enn við lýði samkvæmt lögum allt til ársins 1986 að þær voru afnumdar. Þær voru vísir að sérstakri stjórnsýslueiningu því að innan þeirra störfuðu sýslunefndir kjörinna fulltrúa með sýslumanninn sem eins konar framkvæmdastjóra. Utan þeirra stóðu að formi til kaupstaðirnir. Í aðdraganda afnáms sýslna fóru fram miklar umræður um stofnun nýs stjórnsýslustigs, líkt og tíðkast hefur á öðrum Norðurlöndum. Var þá  ýmist talað um fylki eða héruð,.  Skiptar skoðanir voru um þetta innan þáverandi stjórnmálaflokka og meðal starfandi sveitarstjórnarmanna. Vinstri flokkarnir voru almennt jákvæðir fyrir hugmyndinni, Framsókn tvístígandi, en Sjálfstæðisflokkurinn eindregið andvígur. Því réði að ég hygg sterk þáverandi staða flokksins suðvestanlands og víðar á landinu. Við meðferð frumvarps til nýrra sveitarstjórnarlaga (mál 54/1885) flutti ég tillögu um að bæta við sjálfstæðum  kafla um héruð sem nýtt stjórnsýslustig . Gerði tillagan ráð fyrir að landinu yrði skipt í 8 héruð með  lýðræðislega kjörnum héraðsþingum sem kosið yrði til samhliða kjöri til sveitarstjórna. Eitt þeirra var höfuðborgarsvæðið undir nafninu Kjalarnes. Tillaga mín var felld. Þess í stað var stefnan tekin á stækkun sveitarfélaga með sameiningu sem leitt hefur til þess að sveitarfélögin eru nú rösklega 70 talsins en voru áður á  þriðja hundrað talsins.

Stjórnskipunina ætti að endurskoða heildstætt

Ég hef enn sannfæringu fyrir að endurskoða ætti stjórnskipan landsins, koma á héruðum sem þriðja stjórnsýslustiginu og setja í lög ákvæði um réttindi og skyldur Reykjavíkur sem höfuðborgar og miðstöðvar sameiginlegrar stjórnsýslu. Farsælast væri að endurskoða um leið núverandi kjördæmskipan þannig að saman falli mörk kjördæma og héraða, nema menn vilji taka skrefið og  kjósa í einu kjördæmi til Alþingis og jafna þannig kosningarétt landsmanna til fulls. Kjördæmabreytingin um síðustu aldamót með fækkun og stækkun þáverandi kjördæma og sýndarskiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi var afleitt skref, sem ég ásamt fáeinum öðrum þingmönnum lagðist gegn. Hún var hins vegar samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta á Alþingi. Með því voru rofin hefðbundin tengsl þingmanna við umdæmi sín og raunar gengið gegn fjórðungaskipan sem verið hafði grunnur íslensks samfélags að heita má frá öndverðu. Stóru kjördæmin á landsbyggðinni hafa síðan gert þingmönnum illkleift að halda uppi hefðbundnu sambandi við kjósendur og sveitarstjórnir og færðu þeim í hendur óbeina fjarvistarsönnun.  Hvað áttu t.d. Siglufjörður og Djúpivogur sameiginlegt í einu og sama kjördæmi  eða þá Hofsós og Akranes, svo dæmi séu tekin? Með sjálfstæðum  héraðsþingum fengist skýr og lýðræðislegur vettvangur fyrir samstarf og ákvarðanir í viðkomandi landshlutum sem kallaðist á við Alþingi. Þrýstingnum á stækkun sveitarfélaga væri um leið aflétt og þar gæti nærsamfélagið ráðið ráðum um sín málefni. Reykjavík sem miðstöð stjórnsýslu í landinu myndi kallast á við stjórnstöðvar í héruðunum en jafnframt taka á sig skyldur sem fylgja miðstöðvarhlutverkinu, m.a. um skipulagsmál og fjármál tengd opinberri stjórnsýslu.

Áhersla ekki síst á skipulags- og umhverfismál

Ávinningurinn af þeim breytingum sem hér hafa verið reifaðar væri margþættur. Með þeim fengist skýr rammi fyrir samskipti landsstjórnar, höfuðborgar og héraða, en sveitarfélög yrðu vettvangur fyrir íbúasamskipti í nærsamfélagi. Með þessu yrðu sveitarfélögin laus undan hagkvæmnikröfum um landfræðilega stækkun sem víða hefur brotið niður eðlileg tengsl, leitt til firringar og fælt fólk frá þátttöku í stjórnunarstörfum og samráði frá því sem var í smærri byggðarlögum. Héruðin sem stjórnsýslueiningar yrðu mótandi aðilar um megindrætti samfélagsþróunarinnar, hvert á sínu svæði, með skýru umboði til ákvarðana á vegum lýðræðislega kjörinna héraðsþinga og stjórna á þeirra vegum. Flest það sem viðkomandi svæði varðar heyrði þar undir, en áhersla yrði frá byrjun ekki síst á skipulags- og umhverfismál. Þingmenn ættu með áheyrnaraðild greiðan aðgang að þingum héraðanna og stjórnsýslu. Væri úr vegi að taka þessi mikilvægu mál til umræðu í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga og á Alþingi með hliðsjón af fullveldisafmælinu?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim