Hjörleifur Guttormsson 18. október 2018

Hefur loftslagsógnin náð eyrum stjórnmálamanna og almennings?

Þann 6. október sl. gaf heimsráð Sameinuðu þjóðanna (IPCC) út nýja skýrslu um hvað þurfi til svo að unnt verði að stöðva meðalhlýnun loftslags jarðar við 1,5°C, sem er það markmið sem gert er ráð fyrir í Parísarsamkomulaginu frá 2015. Til að þetta takist þarf nú þegar að grípa til róttækra og víðtækra aðgerða, m.a. í orkuframleiðslu, landnotkun, húsnæði, samgöngum og iðnaði. Úrslitum ræður hvað gerist í þessum efnum á næstu 10 árum, því að meðalhitinn hækkar um 0,2°C á áratug. Gert er ráð fyrir að hlýnun á norðurskautssvæðinu verði tvisvar til þrisvar sinnum meiri en annars staðar og ekki er talið útilokað að ís á Grænlandi og Suðurskautslandinu taki að bráðna þegar við þessi mörk. Slíkt gæti þýtt hækkun sjávarborðs um marga metra í stað innan við 1 m að meðaltali. Við slíkar aðstæður færi sjór að flæða inn í helstu hafnarborgir heimsins. Rétt er að hafa í huga að þegar innkomin loforð ríkja á grundvelli Paríarsamkomulagsins duga skammt, þ.e. aðeins til að heimsbyggðin nái að stöðva sig af á bilinu 2,6 til 4,0 gráðu hlýnun sem væri skelfileg niðurstaða. – Forsendur ofangreindrar óskastöðu um 1,5° hlýnun eru m.a. þær, að 70-85% raforkunotkunar heimsins komi um miðja öldina frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá verði jafnframt brennsla kola alveg úr sögunni og losun CO2 frá iðnaði hefði minnkað um allt að 90% miðað við losunina árið 2010.

Koma stjórnmálamenn boðskapnum áfram?

Ofangreindar niðurstöður IPCC bárust að hluta til út til fjölmiðla á meðan skýrslan var í vinnslu og kölluðu fram fyrirsagnir um skelfilegar horfur. Stóra spurningin sem nú blasir við er hvort stjórnmálamenn og aðrir fulltrúar almennings taki boðskapinn alvarlega og hefji nú þegar sókn í umhverfismálum að settu marki. Sem kunnugt er höfðu þegar fyrir mannsaldri komið fram niðurstöður loftslagsmælinga sem sýndu ótvírætt hvert stefndi. Sá sem þetta skrifar rakti það í ritinu Vistkreppa eða náttúruvernd sem út kom 1974 (s. 29-30). Þeim fækkar að vísu óðum sem loka augunum fyrir nefndum horfum og staðreyndum, eða neita að taka þær alvarlega, en skiljanlegt er að þeim sem raunsæir eru þyki brekkan framundan vera brött. Því skiptir öllu máli að ekki verði frekari dráttur á að grípa til aðgerða, þar eð hik og undanbrögð þyngja aðeins róðurinn fyrir alda og óborna. Nærtækt dæmi um óraunsæi  er niðurstaða þýskra stjórnvalda gagnvart losun frá díselbifreiðum sem jafnframt hefur leitt af sér lækkaðar kröfur af hálfu Evrópusambandsins til framleiðenda þeirra. Núverandi forseti Bandaríkjanna er síðan sá svartipétur sem  mestum áhyggjum veldur, þar eð hann hafnaði fyrirfram Parísarsamkomulaginu og rær öllum árum gegn því.

Eru „öfgar“ í veðurfari forboði þess sem koma skal?

Þeir sem fylgjast með heimsfréttum hafa eflaust tekið eftir tíðum frásögnum af fellibyljum, skógareldum, þurrkum eða flóðum víða um veröldina, sem fullyrt er að séu stærri og öflugri en fyrr á tíð. Oft fer mest fyrir endalausri tuggu um mannslát sem mælikvarða á slíka atburði, en nú staðfesta opinber gögn úr mörgum áttum að viðburðum sem þessum fari fjölgandi sem og ofsi þeirra og styrkur.  Nýliðið er óvenjulega heitt og þurrt sumar í Mið-Evrópu þannig að ekkert í manna minnum stenst þar samanburð. Vorið sem árstíð með úrkomu og hitasveiflum kom ekki, heldur tók sumarhiti með 30°C eða þaðan af meira við af vetri. Nú um miðjan október slær hitamælirinn enn upp í 30 gráður og skrælnaðir akrar og skorpnuð lauf blasa við hvarvetna allt norður til Svíþjóðar, atburðir sem menn áður höfðu tengt við jaðarsvæði Sahara eyðimerkurinnar.  – Kona að nafni, Friederike Otto, 36 ára og þýskrar ættar, er starfandi prófessor í Oxford, og í senn með doktorsgráðu í eðlisfræði og heimspeki. Hún stendur að sögn vikublaðsins Die Zeit (4. október nr. 41, s. 37) framarlega í tengslarannsóknum (Zuordnungsforschung). Í samhengi loftslagsmálanna varðar það tengslin  milli einstakra veðurfyrirbæra og langtímabreytinga. Takist að sýna fram á samhengi á milli óvenjulegra atburða í veðurfari og langtímabreytinga gæti það aukið skilning almennings á hvert stefnir. Sem eðlisfræðingur leggur dr. Otto  eftir sem áður áherslu á að frumorsökin, þ.e. CO2-losunin, þurfi sem fyrst að nálgast núllið. Nú hefur hún verið ráðin til að ritstýra næstu skýrslu heimsloftslagsráðsins IPCC.

Augljós ummerki loftslagsbreytinga hérlendis

Ekki þarf langt að leita til að sannfæra Íslendinga um hvað er að gerast í loftslagsmálum. Óvíða blasir hækkun meðalhita jafn ótvírætt við og  í jöklum landsins, með öra bráðnun, styttingu skriðjökla og tilfærslu vatnsfalla sem frá þeim renna. Hækkað sjávarborð nagar af sjávarströndum, einkum á vestanverðu landinu. Jafnframt eykst súrnun sjávar á okkar slóðum hraðar en víðast hvar annars staðar með tilheyrandi óvissu um viðgang og dreifingu fiskistofna. Mun meiri hlýnun á norðurslóðum umfram meðaltal á heimsvísu kann í fljótu bragði að þykja jákvæð, en óvíst er hvernig hún dreifist eftir árstíðum. Þannig er hækkun meðalhita almennt talin líklegri á vetrum en sumrum. Lífríki landsins er tegundafærra og því óstöðugra  en í suðlægari löndum. Mikil óvissa er líka um áhrif hlýnunar á hafstrauma á norðurslóðum, þar á meðal á Golfstrauminn. Hvað sem þessu líður ber Íslendingum að taka fullan þátt  í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og til þess höfum við betri forsendur er margar aðrar þjóðir sunnar á hnettinum. Ráðstefnan Arctic Circle sem hér er nú haldin í sjötta sinn er gott alþjóðlegt innlegg af Íslands hálfu og sem ríki með formennsku í Norðurskautsráðinu (Arctic Counsil) næstu tvö árin höfum við í senn tækifæri og skyldur til að leggja lið baráttunni fyrir velferð mannkyns og umhverfis  á norðurslóðum.


Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim