Hjörleifur Guttormsson | 20. desember 2018 |
Eftir Katowice: Loftslagsógnin af mannavöldum breytir öllum viðmiðunu Það var vel til fundið hjá baráttumönnum gegn loftslagsógninni að velja kolaborgina Katowice sem fundarstað fyrir COP24 sem er skammstöfun fyrir 24. ráðstefnu aðila að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (Conference of the Parties ...) sem samþykktur var í Río de Janeiro 1992. Fyrsti ársfundurinn (COP1) var haldinn í Berlín 1995 þar sem stefna var tekin á Kyoto-samkomulagið sem lagður var grunnur að á COP3 í japönsku borginni Kyoto. Með því náðist áfangi í loftslagsbaráttunni sem lýkur árið 2020 en þá tekur við samkomulagið kennt við París. Jarðefnaeldsneyti, kol og olía, er megindriffjöður loftslagsbreytinganna og kolaborgin Katowice er táknræn fyrir þá ógn sem af þeim stafar. Einróma samþykkt 195 ríkja um síðustu helgi á niðurstöðu ráðstefnunnar í Katowice er vonarneisti í þeim krappa dansi sem framundan er og telja verður stærstu sameiginlegu áskorun mannkyns hingað til. Með henni eru jafnframt send kröftug skilaboð til þeirra mörgu sem hingað til hafa lokað augunum fyrir því augljósa með Trump forseta USA í fararbroddi. Viðmið og áfangar innan seilingar Parísarsamkomulagið frá 2015 var ákall sem nú hefur fengið ákveðið innihald sem beinist að hverju ríki og Sameinuðu þjóðunum sem vöktunaraðila. Á tveggja ára fresti frá og með 2020 skulu stjórnvöld í hverju landi tilgreina ráðstafanir sem þau muni grípa til svo dregið verði úr losun gróðurhúsalofts með örugglega mælanlegum aðferðum. Á fimm ára fresti frá og með árinu 2023 verður skorið úr um hvert stefni í heildarlosun á jörðinni og jafnframt um frammistöðu einstakra ríkja samkvæmt markmiði sem þau sjálf hafa sett sér. Frá og með 2025 eiga iðnríkin, og eftir atvikum þróunarríki, að endurmeta fjárhagsaðstoð sína til að draga úr hættu af loftslagsbreytingum og til að þróa nýja orkugjafa. Aðeins þau ríki sem leggja sitt af mörkum til að draga úr losun fá leyfi til að stunda alþjóðaviðskipti með CO2-kvóta. Margir spyrja sig hvernig tryggja eigi að ríki fylgi settum reglum. Svarið frá Katowice vísar á óbeint aðhald sem felist í fordæmingu þeirra sem svíkjast undan merkjum auk þess sem þau útiloka sig frá viðskiptum með losunarkvóta. Falleinkunn ríkjandi efnahagskerfis Skilaboðin frá París og Katowice snúa beint að núverandi efnahagskerfi heimsins, þar sem róttækar breytingar verða að koma til eigi árangur að nást. Óbeint er hér verið að skora á hólm kapítalisma frjálshyggjunnar sem magnað hefur upp losun gróðurhúsalofts með ósjálfbærum efnahagsvexti, sólund auðlinda og tilfærslu fjármagns á æ færri hendur. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að skynja að neyslukapphlaupið gæti verið að renna sitt skeið og án slíkra vatnaskila er afar ólíklegt að Parísarmarkmiðin náist. Forsenda þess að það takist er að hægja svo um muni á hraðfara eyðingu náttúruauðlinda og sjá til þess að vistvænn vöxtur taki við. Viðfangsefnið er þeim mun snúnara en ella vegna fyrirsjáanlega gífurlegrar fjölgunar mannkyns eða um allt að 3, 5 milljarða fram til næstu aldamóta og lausnirnar þurfa af þeim sökum að vera róttækari en ella. Vistfræðileg sýn þarf með einum eða öðrum hætti að taka við af hefðbundnum mælikvörðum kauphallanna sem leggja fjárhagslegt mat á fyrirtæki og vaxtarhorfur. Eigi þetta að gerast með lýðræðislegum stuðningi fjöldans en ekki með einhliða boðvaldi að ofan með vísan til neyðar þarf að taka félagslega hlið með í reikninginn og þá með jöfnuð að leiðarljósi. Það sýndu m.a. ótvírætt nýleg átök í Frakklandi þar sem almennar verðhækkanir yfirvalda á orku með vísan til umhverfisbóta leiddu til fjöldamótmæla og voru dregnar til baka. Vakning meðal æskufólks vekur vonir Vísbendingar eru um að meðal ungs fólks fari skilningur vaxandi á þeim manngerðu aðstæðum sem nú ógna framtíð lífs á jörðinni. Um þetta bera vott fjöldasamtök ungmenna sem létu til sín heyra í aðdraganda ráðstefnunnar í Katowice. Rödd sænsku stúlkunnar Greta Thunberg hefur borist víða þar sem hún sagði að breyta yrði leikreglunum strax ef unnt ætti að reynast að bjarga heiminum frá tortímingu. Umhverfissinnar væru ekki að grátbiðja ráðamenn um breytingar, heldur tilkynna þeim um breytta tíma, keisarinn væri klæðlaus. Af öðrum en þó skyldum toga er frumkvæði barnafjölskyldunnar á Djúpavogi sem hóf að hreinsa til á heimilinu nú fyrir jólin og fargaði að sögn yfir 2000 óþarfahlutum. Boðskapurinn er sláandi en augljós. Almenningur í samfélagi sem okkar situr uppi með ókjör glingurs, m.a. fyrir börn, sem markaðssamfélagið fær fólk til að kaupa með prangri og auglýsingum. Eigi breytt sjónarmið að ná fótfestu á skömmum tíma þarf samfélagið að leggjast á eitt, foreldrar í samvinnu við skólakerfið og sjálft æskufólkið á ýmsum stigum. Hér er vistfræðileg upplýsing og tengsl við náttúruna lykilatriði en jafnframt breyttar leikreglur á vinnumarkaði og í viðskiptalífinu. Hófstilling á hátíðum og í afmælum barna ætti að taka við af sólund og ofhlæði, að ekki sé talað um flugeldafár áramótanna hérlendis. Minna og jafnara eru lausnarorðin Mannkynið stendur á merkilegum tímamótum. Tækniþróun í krafti hugvits er að skila eldflaugum til annarra reikistjarna, en sjálft situr það eftir í ráðleysi og rugli á eigin plánetu. Frumstæðar hvatir tengdar eigingirni ráða víða för og leikreglum. Órar um annað líf eftir dauðann og spámenn aftan úr öldum skipta þjóðum og álfum í fylkingar. Bardagafýsn og tortryggni réttlæta vopnakapphlaup nú sem aldrei fyrr. Samhliða Parísarsamkomulagi sem vekur vonir um að afstýra megi syndaflóði er þörf á endurskoðun á stefnum og ríkjandi gildum. Þar þarf hófstilling og náungakærleikur að eiga athvarf og óskir um minna og jafnara þegar kemur að efnislegum gæðum. Hjörleifur Guttormsson |