Hjörleifur Guttormsson 22. mars 2018

Kalt stríð endurvakið í skugga nýrra kjarnavopna

Þessi pistill er skrifaður á vorjafndægri, mánuði fyrir sumar á Íslandi og í höfuðstaðnum er 7° hiti. Á meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum hefur snjóað að undaförnu og mörgum orðið hált á svelli. Þó er það óvera hjá þeim kulda sem andað hefur í austur frá ráðamönnum í garð Rússa sem sagðir eru óalandi í siðara manna söfnuði og verðskulda að éta það eitt sem úti frýs. Þeim hinum sömu svöruðu sléttuúlfarnir með því að endurkjósa Pútín til forseta í þriðja sinn með þrem fjórðu greiddra atkvæða. Ekki varð það tilefni til hamingjuóska í austurveg, heldur dundu þangað ókvæðisorðin með Boris Johnson sem formælanda í margradda kór liðsmanna NATÓ. Fylgdi sögunni að nú yrði bætt myndarlega í vopnabúrin vestan hins endurreista járntjalds til að mæta ógninni úr austri. Til að undirstrika alvöru málsins, var ráðlagt  að enginn sannur lýðræðissinni, hvað þá kóngafók, skyldi slást í för með fótboltabullum sem ætli að fjölmenna á boltaleiki í Rússlandi um komandi hásumartíð. Yrði þeirra skömm og svik við lýðræðið lengi í minnum höfð.

Eitur í bland við milljarðafúlgur

Enginn getur láð Bretum þótt þeir firtist við þegar á breskri grund er ráðist að leysingjum úr njósnasveitum stórveldanna og þeim byrlað eitur af verri endanum. Árásin á feðginin í Salisburry verðskuldar auðvitað ítarlega rannsókn, en heldur fljótræðislegt virtist af May forsætisráðherra að gera rússnesk stjórnvöld ábyrg fyrir ódæðinu strax á þriðja degi og utanríkisráðherrann bætti um betur og fullyrti að enginn annar en Pútín þá forsetaframbjóðandi hafi fyrirskipað aðförina.  Jafnframt var eftir því leitað við Trump og aðra  lýðræðisleiðtoga að þeir slægjust í för með fordæmingu í garð Kremlar. Eitthvað stóð það í stöku manni, m.a. réði Corbyn formaður breska verkamannaflokksins frá því að taka svo djúpt í árinni og þýskir og franskir embættismenn vöruðu við of skjótum ályktunum um hver ætti sökina. Afneitunum Pútins um að rússnesk stjórnvöld hafi átt hér hlut að máli sagði breski utanríkisráðherrann haugalygi („haystack of lies“). – Afleiðingar þessa orðastríðs hafa hingað til birst í gagnkvæmri brottvísan á þriðja tug sendiráðsstarfsmanna (les: njósnara) frá London og Moskvu. Ýmsir eins og ritstjórar The Economist (17. mars) hvetja bresk stjórnvöld til að láta ekki þar við sitja heldur setja skorður við viðskiptum Rússa og fjármálaumsvifum rússneskra auðjöfra í Bretlandi, en þar vega á móti hagsmunir Lundúna sem fjármálamiðstöðvar. Ekki færri en 300 þúsund Rússar eru nú búsettir í Englandi, ekki aðeins þeir sem þangað héldu með fúlgur fjár eftir fall Sovétríkjanna heldur einnig útflytjendur í leit að betri aðstæðum, þeirra á meðal andstæðingar rússneskra stjórnvalda.

Ört versnandi ástand á alþjóðavettvangi

Á siðustu misserum hefur ástand á alþjóðavettvangi farið hríðvernandi. Forstjóri Sameinuðu þjóðanna António Guterres nefndi í síðasta nýársávarpi m.a. staðbundin stríðsátök, óttann við kjarnorkustyrjöld, loftslagsbreytingar og vaxandi ójöfnuð. Síðan hafa bæst við aðgerðir Trumps með nýja tollmúra gegn innflutningi á stáli og áli til Bandaríkjanna sem margir telja upphaf að viðskiptastríði sem auki enn á andstæður milli ríkja og heimshluta. Nú er svo komið að Kína undir forystu samhents kommúnistaflokks birtist sem einn helsti talsmaður frjálsra heimsviðskipta, en gegn efnahagsveldi Kína eru ekki síst refirnir skornir af hálfu Trumps. Níu ríki búa nú yfir kjarnorkuvopnum: Bandaríkin, Rússland, Kína , Pakistan, Indland, England, Frakkland, Ísrael og Norður-Kórea. Til samans er talið að þau búi yfir um 2500 kjarnorkusprengjum, meirihlutinn í höndum USA og Rússa. Öll vinna þau að frekari þróun kjarnavopna sinna. Surtarlogi kjarnorkustríðs, sem margir höfðu afskrifað, hefur þannig færst nær. Mestan ugg vekur nú stefna bandarískra hermálayfirvalda að þróa „minni kjarnorkusprengjur“ sem beita megi staðbundið. Hafa ber í huga að kjarnasprengja eins og sú sem lagði Hirósíma í rúst 1945 væri nú talin lítil, þær stóru eru orðnar allt að 100-falt öflugri. Þá má minna á að Pútín kynnti nýverið ofureldflaug sem enginn fengi grandað. – Boðaðar viðræður USA við Norður-Kóreu eru smáglæta í myrkri vaxandi ógna, en of snemmt að spá nokkru um árangur.

Hvar liggja hagsmunir Íslands?

Sú spurning er áleitin hvar liggi lífshagsmunir vopnlausrar örþjóðar eins og Íslendinga í harðnandi heimi. Eigum við skilyrðislaust samleið með Nató-ríkjum sem standa í blóðugum átökum sem eru arfleifð nýlendustefnu liðinnar aldar? Ber okkur ekki skylda til að skipa okkur í sveit með yfirgnæfandi fjölda þjóða heims sem krefjast kjarnorkuafvopnunar? Hvað varð um tillögur sem voru á borði Alþingis fyrir nokkrum árum þess efnis að Ísland yrði hluti af kjarnorkuvopnalausu svæði á Norður-Atlantshafi og sem helst ætti að taka til allra Norðurlanda? Eigum við að vera þáttakendur í viðskiptahindrunum að kröfu stórveldanna í NATÓ þvert á gróin viðskiptasambönd? Um þetta er þörf að ræða í stað þess að stinga höfðinu í sandinn.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim