Hjörleifur Guttormsson 22. júní 2018

Um skref í sjálfstæðisbaráttunni með persónulegu ívafi

Vonandi verður árið 2018 til að festa í sessi meðal uppvaxandi kynslóða vitneskju um þann stóra áfanga sem vannst í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fyrir einni öld og jafnframt hvað þarf til að varðveita og þróa þann ávinning sem felst í fullveldi. Sambandslögin 1918 voru samþykkt af Íslendingum í þjóðaratkvæðagreiðslu þá um haustið með um 91% stuðningi, en aðeins rúm 43% kjósenda mættu á kjörstað. Ýmislegt kom þar til, ytri óáran og farsótt, en hitt vó líklega þyngra að margir áttuðu sig ekki á þeim mikla  ávinningi sem í lögunum fólst umfram heimastjórnina sem fengist hafði 1904. Með sambandslögunum 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki með sameiginlegan konung með Danmörku.  Jafnframt var í þeim endurskoðunarákvæði „eftir árslok 1940“ sem leiddi til stofnunar íslenska lýðveldisins 1944 með nær algjörri samstöðu kjósenda og 98,4% kjörsókn. Síðan hefur stofnun lýðveldisins verið sómi sýndur árlega 17. júní, en smám saman dofnaði yfir minningunni um fullveldisdaginn 1. desember og þá aldarlöngu baráttu sem var undanfari hans. Eftir upphaf kalda stríðsins, inngöngu Íslands í NATÓ og komu bandarísks herliðs til landsins 1951 var í reynd  bundinn endir á það „ævarandi hlutleysi“ sem kveðið var á um í 19. grein sambandslaganna 1918. Vó gagnrýni og togstreita um það afdrifaríka skref þungt í stjórnmálaumræðunni og varð eflaust til að draga úr einhug um að halda merki fullveldisdagsins á lofti.

Bókmenntir, málrækt og baráttan fyrir sjálfstæði

Bændasamfélagið íslenska tók litlum breytingum allt fram á 19. öld, þar sem vistaband hélst að lögum til ársins 1863. Í skauti þess varðveittust þó tengslin við fornar bókmenntir, sögu landsins og tungumál sem tók aðeins hægfara breytingum miðað við það sem gerðist í grannlöndum. Danir voru meirihluti íbúa í því þéttbýli sem tók að myndast í  Reykjavík næri aldamótunum 1800 og dönsk tunga sótti fast á meðal embættismanna og skylduliðs þeirra. Það var andóf gegn þeirri þróun, ekki síst fyrir frumkvæði danska málfræðingsins Rasks, sem varð kveikjan að sókn fyrir endurheimt sjálfstæðis. Hið íslenska bókmenntafélag sem stofnað var 1816 átti ríkan þátt í vakningu meðal menntamanna og almennings áratugina á eftir með Baldvin Einarsson, Fjölnismenn og Jón Sigurðsson í fararbroddi. Gildi Bókmenntafélagsins og bóka þess fyrir sóknina til sjálfstæðis, með tímaritið Skírni frá 1827 og nú síðast Sögu Íslands í ellefu bindum (1974-2016), verður seint ofmetið.  Baráttan fyrir endurreisn Aþingis sem skilaði árangri 1843 markaði þáttaskil og deilur um staðsetningu þess á Þingvöllum eða í Reykjavík skiptu ekki sköpum um framhaldið. Þjóðfundurinn 1851 efldi samstöðu meðal Íslendinga undir forystu Jóns Sigurðssonar. Uppskeran í næsta áfanga, stöðulögin 1872, uppfyllti að vísu engan veginn kröfur sjálfsstæðissinna, en 1. grein þeirra hljóðaði: „Ísland er óaðskiljanlegur hluti í Danaveldi með sérstökum landsréttindum.“ Stjórnarskrá afhent að ósk Alþingis 1874  í heimsókn konungs á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar reyndist sárabót, þar sem löggjafarvald Alþingis í innanlandsmálum var staðfest, en framkvæmdavald hélst áfram hjá konungi og í höndum dansks ráðherra. Í hönd fór landshöfðingjatímabilið í þrjá áratugi þar til innleidd var heimastjórn 1904 með Hannes Hafstein sem ráðherra. Lykillinn að þeim merka áfanga fólst þó fremur í sigri vinstri manna í Danmörku 1901 en samstöðu á Alþingi, þar sem valtýingar og heimastjórnarmenn höfðu árum saman deilt um breytingu á stjórnarskrá.

Myndræn sjálfstæðisbarátta á heimaslóð

Víða á landinu lét almenningur sig sjálfstæðismálin miklu varða. Á æskuheimili mínu á Hallormsstað minntu myndir á veggjum á baráttuna fyrir auknum landsréttindum. Þar var Jón Sigurðsson forseti í öndvegi í dagstofunni og við hlið hans mynd af langafa mínum séra Sigurði Gunnarssyni sem var  þjóðfundarfulltrúi 1851, ötull stuðningsmaður Jóns forseta og alþingismaður 1869-1874. Til hægri handar var mynd af  tengdaföður Sigurðar, séra Guttormi Pálssyni, síðast presti í Vallanesi sem gengið hafði í skóla hjá Hannesi Finnssyni í Skálholti fyrir 1800 og síðan kennt á Bessastöðum. Hann var mikill áhugamaður um landsmál og velti m.a. fyrir sér breskri stjórnskipan. Í  betri stofunni gaf að líta innrammaða skrautteikningu Benedikts Gröndals af fjallkonunni undir ártölunum 874 - 1874 og kvæðið Eldgamla Ísafold neðan undir. Faðir minn hafði gengið í lýðháskólann í Askov 1905-06 áður en hann fór í sérnám í skógrækt og litlu síðar þræddi systir hans Sigrún Blöndal svipaða slóð sem og frændi þeirra Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Danska og dönsk menning var í hávegum höfð hjá þeim systkinum en það dró ekki úr eindregnum stuðningi þeirra við fullt og óskorað sjálfstæði Íslandi til handa. Margir fundir voru haldnir í sveitum eystra til áherðingar málstaðnum. Í dagbókarfærslu föður míns frá fundi á Eiðum 6. febrúar 1915 segir m.a.: „Rædd voru Stjórnarskrármálið og Fánamálið. Samþykkt tillaga í stjórnarskrármálinu er lýsti velþókknun sinni á gerðum ráðherra í ríkisráði 30. okt. ... Tillaga  var samþykkt er aðhylltist þrílita fánann.“ Þessar endurminningar og margar af svipuðum toga leita á hugann á þessu afmælisári um leið og nýjar og afdrifaríkar áskoranir um fullveldi og sjálfstæði knýja dyra hjá okkur Íslendingum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim