Hjörleifur Guttormsson 22. september 2018

Mannkynið fjarlægist óðum draumsýnina um sjálfbæra þróun

Fjölmiðlar hafa undanfarið minnt okkur á að áratugur er liðinn frá því að stærsta fjármálakreppa frá síðari heimsstyrjöldinni skall á í Bandaríkjunum og barst þaðan víða um lönd. Á sama tíma hafði fjöldinn allur af minni háttar bankakreppum riðið yfir hér og þar einkum eftir að dró úr hefðbundnum efnahagsvexti upp úr 1970. Hér var það hins vegar dollarinn sem brast og með honum undirstöður ríkjandi efnahagskerfis. Margir spyrja hvort ráðandi aðilar, Seðlabanki Bandaríkjanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og viðlíka valdastofnanir og hugveitur hafi dregið þá lærdóma af hruninu fyrir áratug að líkur á viðlíka atburði hafi minnkað til muna. Svar margra, þar á meðal tímaritisns The Economist (8.-14. september sl.), er neikvætt. Eitthvað hafi menn að vísu reynt að læra, en eftir standi stórir óvissuþættir, ekki síst fjármögnun húsnæðis, dollarinn sem grunnmynt í fjárfestingum og evran sem gjaldmiðill. Umrótið í alþjóðamálum veiki jafnframt möguleika á að bregðast við næstu efnahagskreppu.

Efnahagskerfi gegn sjálfbærni

Aldarþriðjungur er liðinn frá því hugmyndin um sjálfbærni var kynnt á vegum Heimsnefndarinnar um umhverfi og þróun (World Commission on Environment and Development), en formaður hennar var Gro Harlem Brundtland. Sjálfbær þróun á að hvíla á þremur meginstoðum, vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, og með gagnkvæmu samspili þeirra á að tryggja framtíðarheill komandi kynslóða.  Nánari greining á þessum þáttum, m.a. á vegum Sameinuðu þjóðanna, leiðir í ljós að mannkynið fjarlægist nú óðum draumsýnina um farsælt samspil slíkrar undirstöðu. Á félagslega sviðinu blasir við vaxandi misskipting og fátækt og ríkjandi efnahagskerfi hefur í för með sér stórfellda eyðingu á auðlindum jarðar og ómælda umhverfisröskun. Um þetta bera loftslagsbreytingar af mannavöldum ljósast vitni.
 Við upphaf  Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 sagði Kanadamaðurinn Maurice Strong, sem í áratugi var aðalráðgjafi SÞ um umhverfismál, m.a.:
„Í brennidepli þeirra mála sem við munum fjalla um hér eru: Framleiðsluferli og neysla í iðnvæddum hluta heimsins sem eru að grafa undan burðarásum lífs á jörðinni, sprenging í fólksfjölgun sem bætir við fjórðungi úr milljón daglega, dýpkandi gjá mismununar milli ríkra og fátækra, sem skilur 75% mannkyns eftir við kröpp kjör, og efnahagskerfi sem tekur ekkert tillit til vistrænna útgjalda eða skemmda – kerfi þar sem litið er á óhefta gróðasöfnun sem framfarir.“
Þessi orð eru enn í fullu gildi og ef eitthvað er hefur hallað á ógæfuhliðina.

Óvissan  vegna loftslagsbreytinga

Loftslagssamningur SÞ var samþykktur á Ríó-ráðstefnunni fyrir aldarfjórðungi, en margir tóku skilaboð hans þá ekki alvarlega, þar á meðal íslensk stjórnvöld. Nú er flestum að verða ljós sú gífurlega röskun sem tengist hlýnun af mannavöldum, jafnvel þótt takist að nálgast markmið Parísarsamkomulagsins. Gegn því standa hins vegar sterk hagsmunaöfl og ekki bætir úr skák vaxandi ringulreið í alþjóðaviðskiptum. Hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar eru meðal helstu óvissuþáttanna og að hve miklu leyti hlýnunin hafi áhrif á stærstu jökulhvelin á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Í skýrslu íslensku vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar, sem gefin var úr sl. vor, lesum við eftirfarandi: „Óafturkræft hrun á jöklum á Suðurskautslandinu kann að vera hafið. Það getur á nokkrum öldum valdið margra metra hækkun á sjávarborði heimshafanna.“ Þar ættu í hlut flestar fjölmennustu borgir heims. Aðeins örfáir áratugir eru til stefnu ef uppfylla á Parísarmarkmiðin. Gegn því vinnur nú öflugasta efnahagsveldi heims, Bandaríkin, og fleiri ríki kunna að slást með þeim í för. Mannkyn allt stendur þannig á krossgötum í samskiptum við móður jörð og skilin milli feigs og ófeigs kunna að ráðast í tíð þeirra sem nú eru á dögum.

Evran efni í kollsteypu

Íslensk stjórnvöld hafa fyrir sitt leyti gefið út eindregnar yfirlýsingar um að staðið verði af þeirra hálfu við markmið fyirheitanna frá París. Margt í stefnu og gjörðum núverandi ríkisstjórnar bendir til að hugur fylgi máli. Örlögin ráðast þó af öðrum og stærri leikendum á heimssviðinu. Þar veldur mestu óvissan tengd kapítalísku efnahagskerfi og kreppum þess í framtíðinni. Dómsdagsfléttan sem mestu réði um kreppuna 2008 er enn til staðar að mati The Economist. Með núverandi veikleikum evrusvæðisins ríkir áfram óvissa um framtíð evru sem gjaldmiðils. Skyndihrun hennar hefði í för með sér slíka kollsteypu að  kreppan 2008 væri sem smámunir í samanburði, skrifar The Economist, sem ekki verður sakað um vinstri slagsíðu. Það sætir furðu að hérlendis finnast enn formenn stjórnmálaflokka sem boða  upptöku evru sem helsta baráttumál sitt og allrameinabót.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim