Hjörleifur Guttormsson 23. júní 2018

Mikil gróska í starfi safna á Austurlandi

Á fáum sviðum hafa á Austurlandi orðið jafn mikil og jákvæð umskipti eins og í málefnum safna og skipulagðri menningarstarfsemi af ýmsu tagi í tengslum við þau. Fyrir utan almenningsbókasöfn á vegum sveitarfélaga á fyrstu áratugum aldarinnar var stofnun Minjasafns Austurlands árið 1943 fyrsti vísirinn til að „safna og varðveita hvers konar þjóðleg verðmæti, einkum þau er snerta sögu og menningu Austfirðingafjórðungs“ eins og sagði í stofnskrá þess. Að safninu stóðu þrenn félagasamtök sem tilnefndu hver sinn fulltrúa í stjórn, en tekna skyldi aflað með frjálsum framlögum. Gunnar Gunnarsson skáld var  frumkvöðull að málinu og fyrsti stjórnarformaður safnsins. Nokkurt átak var gert í söfnun næstu ár og safnmunum komið fyrir í einu herbergi á Skriðuklaustri. Hugmyndir lutu í fyrstu að því að byggja yfir safnið á Hallormsstað, en með gjöf Gunnars og Franziscu á Skriðuklaustri til ríkisins skyldi minjasafnið ásamt ýmsu öðru fá þar rúman samastað. Með yfirtöku ráðuneytis landbúnaðarmála á jörðinni 1949 fennti í það skjól og ríkti algjör stöðnun um málefni safnsins fram yfir árið 1970.

Þáttaskil með Safnastofnun Austurlands 1972

Árið 1965 samþykkti bæjarstjórn Neskaupstaðar að stofnað skyldi þar í bænum náttúrugripasafn og kaus 3ja manna nefnd til að vinna að málinu. Var ég í forsvari fyrir verkefnið og sumarið 1971 opnaði Náttúrugripasafnið í Neskaupstað í leiguhúsnæði. Í aðdraganda þessa kynntist ég áhugamönnum um söfnun og verndun minja og gamalla húsa, þeirra á meðal Hilmari Bjarnasyni hjá Byggðasögunefnd Eskifjarðar, Ármanni Halldórssyni á Eiðum, Kvískerjabræðrum og Elínu Methúsalemsdóttur á Bustarfelli. Eftir samtöl við þau og fleiri sendi ég sumarið 1971 stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi erindi um „að samfylkja sveitarfélögum til að gera skipulegt átak í safnamálum Austurlands þar sem í senn komi til samvinna, eðlileg verkaskipting og dreifing safna um fjórðunginn.“ Aðalfundur SSA tók erindinu vel og kaus þá um haustið 5 manna nefnd „til að kanna skipulag og uppbyggingu safna á Austurlandi jafnframt því að gera tillögur til stjórnar SSA um framtíðarskipulag þessara mála.“ Nefndin náði vel saman, og skilaði ítarlegum tillögum til SSA „um skipan safnamála á Austurlandi.“ Voru þær samþykktar og með þeim komið á fót Safnastofnun Austurlands (SAL). Tveimur árum seinna afgreiddi SSA reglugerð fyrir SAL, sem starfað var í aðalatriðum eftir í aldarfjórðung, þ.e. til aldamótanna 2000 að breyting varð á.

Ríkuleg uppskera af starfi fjölmargra

Auk framkvæmda á tillögum um einstök söfn og verkaskiptingu þeirra á milli gerði tilkoma Safnastofnunar kleift að ráða að henni sérmenntaðan minjavörð sem framkvæmdastjóra. Fjármunir fengust með árlegun styrkjum frá SSA að viðbættum framlögum úr ríkissjóði samkvæmt lögum um byggðasöfn. Eftir að einstök söfn komust á fót stóðu að uppbyggingu þeirra heimasveitarfélög og aflað var styrkja og tekna úr ýmsum áttum. Náttúrugripasafnið í Neskaupstað tók m.a. að sér umhverfisrannsóknir sem RARIK og Orkustofnun greiddu fyrir. Var það óbeinn aðdragandi náttúrustofa í landshlutunum með lagaheimild árið 1992. Margir síðar þekktir einstaklingar réðust sem minjaverðir til SAL, þeirra á meðal Gunnlaugur Haraldsson og Steinunn Kristjánsdóttir. Með þingsetu hvarf ég úr stjórn SAL, en við tóku ötulir stjórnarformenn eins og  Halldór Sigurðsson á Miðhúsum og Friðjón Guðröðarson á Höfn. Reglulega var skilað ársskýrslum til aðalfunda SAL og þannig fylgdust fulltrúar sveitarstjórna og þingmenn kjördæmisins með þróun í þessum málaflokki.
      Í sérstökum ramma neðan við texta fylgir hér yfirlit um helstu núverandi söfn og setur á Austurlandi. Mörg þeirra endurspegla upphaflegar tillögur SAL, en önnur eru síðar til komin. Í yfirlitið vantar sérstök ljósmyndasöfn á Egilsstöðum, Eskifirði og í Neskaupstað, þar sem einnig er starfrækt skjalasafn. Húsavernd var frá upphafi á dagskrá SAL, sem m.a. fékk Hörð Ágústsson á vettvang á Seyðisfirði á áttunda áratugnum.
      Í riti Smára Geirssonar sem ber heitið Samstarf á Austurlandi (útg. 2010) er ítarlegt yfirlit um SSA og safnamálin (s. 237-257). Þar segir m.a.: „Þegar áhrif Safnastofnunar Austurlands eru metin fer ekkert á milli mála að lengi vel skipti stofnunin sköpum fyrir framþróun safnamála í landshlutanum.“

Söfnin, fræðsla og ferðaþjónusta

Fjölmargt jákvætt hefur síðan gerst á vettvangi safna og setra sem skotið hafa rótum hér eystra síðust tvo áratugi. Má þar nefna Þórbergssetur og Breiðdalssetur með prýðilegum sýningum. svo og Kaupvang á Vopnafirði. Gunnarsstofnun hefur frá aldamótum orðið föst og ómissandi stærð á þessu sviði, sem og sýningar á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs á fjórum stöðum, Ásbyrgi þá með talið. Fyrir þróun ferðaþjónustu eru söfnin orðin ómissandi kjölfesta. Þess er að vænta að nýkjörnar sveitarstjórnir reynist áfram traustir bakhjarlar þessara stofnana. Fátt skiptir íbúana meira máli en skýr sjálfsmynd byggðarlaganna eins og hún m.a. birtist í vörslu og túlkun menningararfsins á hverjum stað.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim