Hjörleifur Guttormsson 24. nóvember 2018

Ótrúverðug „heimildarmynd“ um Neskaupstað

Ég þáði boð Gríms Hákonarsonar í liðinni viku um að koma á frumsýningu kvikmyndar hans sem ber heitið „Litla-Moskva“. Hann hefur síðan um hana fjallað í útvarpi og blöðum (Morgunblaðið 15. nóv.,Fréttablaðið 17. nóv.). Ég sá á sínum tíma „Hrúta“, kvikmynd eftir sama höfund, og þótti hún ágæt, enda vakið verðskuldaða athygli. Ég hafði því fyrirfram góðar væntingar um þessa nýju kvikmynd hans, þótt mér þætti fyrirsögnin kyndug. Svo fór hins vegar að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með verkið, þátt fyrir stöku góða myndræna spretti.  Ástæðan er gloppótt og í veigamiklum atriðum röng túlkun Gríms á hálfrar aldar valdatíma sósíalista og Alþýðubandalagsins í þessu umtalaða sveitarfélagi.

Myndataka og söguþráður

Fyrst hins vegar nokkur orð um jákvæðar hliðar myndarinnar. Myndatakan er á köflum góð, þótt gjarnan hefði mátt bregða upp bjartari hliðum af fögru umhverfi og glæstum fjallahring Norðfjarðar ásamt með vetrarmyndum. Best skila sér viðtalskaflarnir við Guðmund Sigurjónsson og Stellu Steinþórsdóttur, en myndatakan af Guðmundi Bjarnasyni sem nú er látinn er óboðleg og daufleg þótti mér sviðsetning af viðtali við Kristin V. Jóhannsson, fyrrum bæjarfulltrúa. Það er þó söguþráðurinn sem Grímur spinnur og staðhæfingar hans um nánast trúarleg viðhorf meirihluta kjósenda í bænum til Sovétríkjanna sem ekki standast hlutlæga skoðun. Til hvaða tímabils er hér verið að vísa? Glæpir Stalínstímans urðu lýðum ljósir 1956, þ.e. fáum árum eftir að sósíalistar fengu meirihlutafylgi í bæjarfélaginu. Og þótt enn fyndust gamlir forystumenn sem vonuðu að Eyjólfur hresstist, var það ekki lengur ráðandi viðhorf. Alþýðubandalagið í Neskaupstað var stofnað 1965 og bauð fram til bæjarstjórnar út öldina. Sem formlegur stjórnmálaflokkur á landsvísu frá 1968 hafnaði það öllum pólitískum samskiptum við ráðandi kommúnistaflokka í ríkjum Austur-Evrópu sem stóðu að innrásinni í Tékkóslóvakíu það sama ár. Tilraunir til að sniðganga þá afstöðu flokksins voru kveðnar niður, m.a. með formlegri miðstjórnarsamþykkt 1976. Félagsskapurinn MÍR (Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna) var með öllu ótengdur Alþýðubandalaginu, þótt reynt sé að gefa annað til kynna í kvikmyndinni. Hugmyndaleg afstaða einstaklinga eins og Guðmundar „stalíns“  og fleiri gagnvart  Sovétríkjunum var auðvitað einkamál viðkomandi sem margir brostu að og höfðu í flimtingum. Sérstök afstaða Stellu „stóru“ á hinum vængnum var á sama hátt vel þekkt, en ekki er ég viss um að liðsoddar Sjálfstæðisflokksins  í bæjarfélaginu hafi almennt samsamað sig með hennar viðhorfum.

Hallærisheitið Litla-Moskva

Heiti myndarinnar „Litla-Moskva“ er nafngift sem ég heyrði ekki í Neskaupstað á meðan Sovétríkin voru við líði, og ekki minnist ég þess heldur úr dagblöðum eða vikublöðum þess tíma. Hitt gerðist hins vegar á 10. áratugnum að nýir forystumenn í bæjarstjórn eins og Smári og Einar Már fundu upp á því að láta reisa stóra vörðu við innkeyrsluna í bæinn og setja á hana skjöld með áletruninni Litla-Moskva, og ör sem vísaði í austur og á stóð Moskva 2000 km (sagt eftir minni). Þetta átti að þeirra sögn að vekja athygli á kaupstaðnum og trekkja að ferðamenn! Ég gerði strax athugasemd við þetta tiltæki og mannvirkið var horfið innan fárra daga! Í stíl við þetta stóðu þeir hinir sömu undir aldamót og lengi síðar fyrir föstum skemmtiþætti á þorrablótum, klæddir einkennisbúningum frá tíð Sovétsins. Í þessu opinberaðist grunnhyggni og flónska, sem var að mínu mati óviðeigandi í sögulegu samhengi og gagnvart íbúum Neskaupstaðar. Það er dapurlegt að Grímur skuli nú velja skrípanafngiftina Litla-Moskva sem heiti á það sem hann kallar heimildarmynd.

Iðnaðarkommar og álver

Í viðtali við Fréttablaðið um síðustu helgi segir Grímur m.a.: „Kommarnir í Neskaupstað voru iðnaðarkommar. Þeir gerðu allt til að skapa atvinnu. Þeir fóru í það að biðla til álvers að koma þangað og eru aðalhvatamenn að þessu álveri og Kárahnjúkavirkjun líka.“ Hér er um sérkennilega alhæfingu að ræða. Til hverra er hér vísað? Varla til Lúðvíks Jósepssonar, Helga Seljan eða undirritaðs, sem var kjörinn á þing 1978 og háði harða rimmu við Alusuisse og Alcoa, síðast fyrir Hæstarétti eftir aldamót. Alþýðubandalagið markaði sér skýra orkustefnu 1976, bæði varðandi orkufreka stóriðju og umhverfismál. Þeirri stefnu var fylgt fram um 1990 en þá var af nýrri forystu Alþýðubandalagsins á landsvísu farið að slaka á gagnvart erlendri stóriðju. Um það og margt fleira var síðan deilt innan flokksins og leiddi að lokum til stofnunar Vinstri grænna 1998-99, á meðan aðrir skriðu saman við Alþýðuflokkinn í Samfylkingunni. Það var fyrst rétt fyrir kosningar til sveitarstjórna vorið 1998 að Smári, Guðmundur bæjarstjóri og Einar Már sýndu á álspilin og gerðust meðhlauparar í lest sem aðrir flokkar drógu kappsamlega. Eftir sem áður voru fjölmargir fyrrum stuðningsmenn Alþýðubandalagsins eystra andsnúnir álbræðslu á Reyðarfirði og stórvirkjun í hennar þágu.  Þetta með öðru sýnir hversu fjarstætt það er að líta á þessa kvikmynd sem gilda heimild um stjórnmálastarf Alþýðubandalagsins í Neskaupstað á seinni hluta síðustu aldar.
Grímur segist hafa „vitað rosalega lítið um bæinn“ þegar hann hóf vinnu að kvikmynd sinni en staðhæfir hins vegar að sósíalistar í Neskaupstað hafi alltaf verið að bíða eftir byltingunni. Sú fjarstæðukennda fullyrðing endurspeglast ekki í störfum þeirra að hagsmunum íbúanna á umræddu tímabili, oft við erfiðar ytri aðstæður. Þannig er þessi „heimildarmynd“ full af mótsögnum og fjarri þeim veruleika sem höfundurinn væntanlega ætlaði sér að varpa ljósi á.   Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim