Hjörleifur Guttormsson 28. maí 2018

Heildstæða stefnu og löggjöf vantar um gróður- og jarðvegsauðlindina

Nú grænkar óðum og margir taka sér tíma til útivistar og endurnýjaðra kynna við landið okkar. Það leiðir hugann að ásigkomulagi þess, gróðurs og jarðvegs sem og auðna hálendisins. Í Íslendingabók sinni frá um 1120 rifjar Ari fróði upp gömul minni um ásýnd þess við landnám með orðunum „Í þann tið var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru.“ Þessi knappa en sannferðuga lýsing varð mörgum umhugunarefni og brýning á 19.öld og leiddi m.a. til fyrstu lagasetningar um skógrækt og varnir gegn uppblætri lands upp úr aldamótunum 1900. Með henni var brugðist við neyðarástandi á stórum svæðum vegna uppblásturs og til að bjarga örfáum skógarleifum, fyrst af öllu á Hallormsstað og á Vöglum. Við búum nú að aldarlangri reynslu á sviði landgræðslu og skógræktar þar sem margt jákvætt hefur verið unnið og aflað hefur verið margháttaðrar þekkingar á sviði gróðurs og jarðvegs, síðast með lúkningu vistgerðarkorta á vegum Náttúrufræðistofnunar. Samt vantar enn mikið á að í löggjöf og framkvæmd birtist okkur heildstæð sýn um landsauðlindirnar og æskilega meðferð þeirra.

Ýmist í ökkla eða eyra

Ekki tjóar að fárast yfir áníðslu kynslóða fyrri alda í tíð sjálfsþurftarbúskapar. Seinni hluti síðustu aldar endurspeglar hins vegar öfgakenndar sveiflur í umgengni við landið. Þá meira en tvöfaldaðist sauðfjár- og hrossafjöldi á fáeinum áratugum og votlendi var rist sundur með skurðum. Þar við bættust virkjunaráform með miðlunarlónum á helstu gróðurvinjum hálendisins. Þótt þessi skelfilega umgengni við landið hafi að nokkru gengið til baka vantar mikið á að sjálfbær landnotkun sé orðin leiðarljós. Ofbeit sauðfjár á sér áfram stað víða og hrossaeign með um 70 þúsund hesta er langt yfir skynsamlegum mörkum. Þótt skurðgröftur á nýjum votlendissvæðum hafi að mestu stöðvast er langt í að teljandi endurheimt votlendis gangi eftir. Landgræðsla er enn stunduð með ágengri tegund eins og lúpínu og engin trúverðug áform eru uppi um að stöðva útbreiðslu hennar. Plöntun bartrjáa í birkiskóglendi heyrir víðast sögunni til en undirbúningur og eftirlit með svonefndri bændaskógrækt er allsendis ófullnægjandi og markmiðin óskýr. Þótt loks sé að rofa til um lagaramma fyrir skipulagsákvarðanir sem snúa að landnotkun þarf stórátak að koma til í samstarfi sveitarfélaga og Skipulagsstofnunar til að viðunandi grunnur sé lagður fyrir ákvarðanir um ráðstöfun lands og nýtingu þess. Við þetta bætist nú hömlulaus aukning ferðamanna til landsins með tilheyrandi átroðningi sem ógnar umhverfi eftirsóttra náttúrusvæða.

Löggjafi og stjórnsýsla þurfa að vakna

Þekking á náttúru landsins hefur vaxið hröðum skrefum fyrir tilstuðlan vísindamanna og sérfræðinga á mörgum stofnunum og möguleikar á yfirsýn hafa vaxið hröðum skrefum, m.a. með fjarkönnun. Hins vegar skortir mjög á um úrvinnslu á niðurstöðum, samræmingu í löggjöf og eftirfylgni um aðhald og skipulagsákvarðanir. Á þetta hefur verið bent í áliti margra nefnda og starfshópa sem falið hefur verið að greina stöðuna í þessum efnum hin síðustu ár. Dæmi um slíkt er ágætt álit starfshóps ráðuneyta um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu sem skilaði af sér í janúar 2013 og benti á marga veikleika í stjórnkerfi og framkvæmd og leiðir til úrbóta. Meðal þess sem þar var lagt til er að byggt verði upp símatskerfi til vöktunar á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda til stjórnar á nýtingu, að unnið verði svæðisbundið að beitarstjórnun og skipulagi landnotkunar og að hafin verði vinna að leiðbeinandi rammaáætlun um slíkt skipulag.. Bent er á að ástand og afköst vistkerfa landsins  séu almennt miklu lakari en þau gætu verið. – Ísland hefur frá árinu 1994 verið aðili að Ríó-samningnum um liffræðilega fjölbreytni sem hefur að geyma fjölmörg leiðbeinandi ákvæði. Þeim hefur hins vegar lítið verið sinnt hérlendis, þar á meðal um nýtingu og dreifingu innfluttra tegunda, að ekki sé talað um vöktun og viðbrögð gagnvart ágengum tegundum eins og lúpínu.

Heildstæða löggjöf þarf um auðlindir þurrlendisins

Það segir sína sögu um tregðu og hindranir í íslensku stjórnkerfi að engin heildstæð og samræmd löggjöf er til staðar um gróður- og jarðvegsauðlindina. Lögin um skógrækt hafa að mestu staðið óbreytt frá árinu 1955 og lögin um landgræðslu eru að stofni til frá 1965. Miklu skiptir að sett verði ný löggjöf varðandi meðferð og umgengni við landið og að hún sé heildstæð  og innbyrðis í rökrænu samhengi. Yfirskrift hennar gæti verið lög um gróður- og jarðvegsvernd og hún þarf að endurspegla í senn aðþjóðlega þekkingu og sáttmála sem og skýr ákvæði um einstök efnissvið. Miklu skiptir að einnig séu ljós fyrirmæli um farvegi einstakra efnisþátta innan stjórnsýslunnnar, jafnt hjá ríki og sveitarstjórnum og stofnunum á þeirra vegum. Taka þarf jafnframt mið af  alþjóðlegum skuldbindingum og líklegum umhverfisbreytingum, ekki síst á sviði loftslagsmála. Veruleg hækkun meðalhita sem spáð er á norðlægum slóðum mun væntanlega bæta vaxtarskilyrði innlends gróðurs, þar á meðal birkisins, þ.e. þess „viðar“ sem klæddi Ísland í öndverðu.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim