Hjörleifur Guttormsson 27. september 2013

Góðar viðtökur – með einni undantekningu

Bókin Í spor Jóns lærða kom út seint í júlí í sumar og hefur fengið talsverða kynningu. Jón Guðni Kristjánsson fréttamaður fjallaði um hana í Spegli Ríkisútvarpsins þegar þann 24. júlí og ræddi þá við ritstjórann. Fréttablaðið greindi frá bókinni 29. júlí og sagði m.a.: „Í spor Jóns lærða nefnist veglegt rit sem er nýkomið út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Þar skrifar valinn hópur fólks um Jón lærða út frá ýmsum sjónarhornum.“ Síðan fylgdi viðtal við einn höfundinn, Ásdísi Thoroddsen. Morgunblaðið greindi frá útkomu bókarinnar 4. ágúst og sagði: „Hér er komið hið veglegasta verk og afar fróðlegt.“ Jónas Kristjánsson fv. ritstjóri sagði m.a. í bloggi sínu 12. ágúst: „Í spor Jóns lærða er merkasta rit ársins. Margir fræðimenn lýsa þar ævi forvígismanns málfrelsis.“

Ýmsir hafa sent ritstjóra góðar kveðjur og sagt álit sitt á verkinu. Hér verða tilfærð örfá sýnishorn. Guðni Th. Jóhannesson segir 5. sept.: „Bókina hef ég þegar lesið og líkar hún afar vel.“ Guðrún Kvaran ritar 20. sept.: „Ég var afar ánægð með bókina og hún er þeim sem stóðu henni næst til mikils sóma. Ein besta bók sem HÍB hefur gefið út lengi.“ Helgi Bernódusson skrifar um bókina 21. sept.: „Hún er í senn ágætur prentgripur og að framsetningu og ritstjórn framúrskarandi góð; miklu betri en maður á að venjast. Umbrot til fyrirmyndar.“ Tryggvi Felixson segir 26. sept.: „Ég hafði mikla ánægju af bókinni – fróðleg, vegleg og ágætlega skrifuð. Nokkuð var um endurtekningar, en hjá því verður ekki komist þegar margir höfundar leggja saman um eitt efni.“

Undantekning af hálfu þeirra sem tjáð hafa sig um ritið var umfjöllun í Kilju-þætti Egils Helgasonar í Sjónvarpinu 18. september. Þar hafði aðallega orðið Sigurður G. Tómasson, nýráðinn umsagnaraðili um bækur í þættinum ásamt Þorgeiri Tryggvasyni.  Sigurður fann bókinni allt til foráttu. Við þættinum brást Haukur Sigurðsson sagnfræðingur sem fékk birta eftir sig grein á vefritinu www.visir.is 24. september [sjá grein hans í heild]. Haukur fer lofsamlegum orðum um bókina, en um Kiljuþáttinn og frammistöðu þeirra sem þar komu við sögu sagði hann m.a. eftirfarandi:

„Þetta öndvegisrit var til meðferðar í þætti Egils Helgasonar Kiljunni 18. september síðastliðinn og hlakkaði ég til að hlýða á þá vísu menn sem þar ættu um að fjalla. Þeir voru Sigurður G. Tómasson og Þorgeir Tryggvason. Er skemmst frá því að segja að annað eins skítkast og rangfærslur hef ég ekki heyrt áður í útvarpi. Þeir greindu ekkert frá neinu af því sem sagt er frá hér að ofan og eitt fordæmingaratriði Sigurðar birtist í þessum orðum: „Prentun bókarinnar er hneyksli.“ Hann sagði að rauði liturinn hefði ekki komið út sem bæri. Mér brá og fór að athuga mitt eintak og taldi að nú rétt einu sinni væri ég glámskyggn. Prentun er fín og bókin augnayndi. Það undraði Sigurð að svo mjög er sagt frá veru Jóns á Austurlandi, sem bendir til að hann hafi ekki lesið bókina. en þeir sem lesið hafa skilja af hverju. Ekki var fjallað um neinn einasta efnisþátt úr ritinu sem bendir til að þeir hafi ekki lesið það.“

Í lok greinar sinnar segir Haukur Sigurðsson:

„Hvernig líta þessir nýju gagnrýnendur á hlutverk sitt? Getur verið að þeir hafi fundið þarna vettvang fyrir skapbresti svo að þeir bitni ekki á fjölskyldunni? Hér er líkt og ótíndir götustrákar hafi verið gripnir af götunni og leiddir til öndvegis og ber Egill Helgason ábyrgð á því. Egill verður að setja þeim siðareglur. Hafi þeir siðferðisvitund eiga þeir að biðja höfunda, ritstjóra og útgefanda afsökunar á fúkyrðum sínum. Þá yrðu þeir menn að meiri.“

Afsökunarbeiðni hefur mér vitanlega ekki borist!



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim