Hjörleifur Guttormsson 29. maí 2014

Kosningaúrslitin til Evrópuþingsins duga skammt

Niðurstöður kosninga til Evrópuþingsins um síðustu helgi komu um margt á óvart. Svokallaðir efasemdarflokkar um ágæti Evrópusambandsins og yfirlýstir andstæðingar þess rökuðu að sér fylgi og fengu flest atkvæði eða á bilinu 25‒27% í fjórum ríkjum sambandsins, þ.e. í Bretlandi, Frakklandi, Danmörku og Grikklandi.(Sjá meðfylgjandi mynd) Fleiri framboð í þessum sömu löndum lýstu yfir andstöðu við þróun ESB. Í samanburði við hliðstæðar kosningar fyrir fimm árum er niðurstaðan nú sláandi og ætti fljótt á litið að geta styrkt andstöðuöflin á Evrópuþinginu og heima fyrir í viðkomandi þjóðríkjum. Þannig er hins vegar um hnútana búið í Evrópusambandinu að annað og meira þarf til að knýja fram raunverulegar breytingar á grunnstefnunni sem er niðurnjörfuð í samþykktum þess, síðast í Lissabonsáttmálanum frá 2005. Enginn pólitískur meirihluti er til staðar eða í sjónmáli sem líklegur er til að hrófla við þessum undirstöðum. Niðurstaða nýafstaðinna kosninga í Frakklandi og Bretlandi kann vissulega að hafa áhrif á stjórnmálaþróun í þessum löndum á næstu árum og þá um leið á stöðu Evrópusambandsins, en það er sýnd veiði og langt frá því að vera gefin.

Brotakennd andstaðan úr ólíkum áttum

Andstaðan við ráðandi stefnu ESB kemur úr mörgum áttum og á sér mismunandi forsendur. Að baki henni eru ósamstæð öfl sem ekki eru líkleg til að ná saman um grundvallarbreytingar. Tilraunir ráðandi meirihluta í ESB og ýmissa fréttamiðla til að stimpla andófið sem birtist í nýafstöðnum kosningum sem einhlítan stuðning við öfgasinnaða hægriflokka eru hins vegar ekki aðeins einföldun heldur beinlínis rangar. Í Grikklandi var vinstrifylkingin Syriza sigurvegari kosninganna og fjölgaði fulltrúum hennar á Evrópuþinginu sexfalt frá því fyrir fimm árum. Í Danmörku fékk Danski þjóðarflokkurinn 26,6% atkvæða og Þjóðfylkingin gegn ESB, studd m.a. af Einingarlistanum sem telst lengst til vinstri, bætti við sig fylgi og fékk 8,1%. Það er því langsótt að túlka atkvæði meira en þriðjungs danskra þátttakenda í þessum kosningum sem stuðning við hægri öfgastefnu. Afstaða almennings til innflytjendastefnu í einstökum ESB-löndum á sér mismunandi rætur, bæði sögulega og hvað inntak snertir. Í sumum tilvikum eru tengsl við fasíska hugmyndafræði augljós og hafa ekki farið leynt, t.d. þegar í hlut á FPÖ í Austurríki. Á sama tíma og AfD, nýstofnaður þýskur andstöðuflokkur við ESB, náði 7% fylgi hlaut þarlendur nasistaflokkur (NPD) sem starfað hefur frá 1964 1% atkvæða sem dugði honum fyrir einu þingsæti.

Breytingar samt ekki í sjónmáli

Þótt margháttuð ókyrrð sé innan Evrópusambandsins í kjölfar kosninganna ber að hafa í huga að stóru flokkasamsteypurnar, sósíaldemókratar, hægriflokkahópurinn og frjálslyndir, halda áfram yfirburðastöðu sinni á Evrópuþinginu, svo og í ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB. Þessar fylkingar hafa um áratugi verið að heita má samstiga um þau skref í átt að miðstýrðu og ólýðræðislegu ESB sem stigin hafa verið síðasta aldarfjórung. Sósíaldemókratar hafa þar ekki haft neina sérstöðu. Hægrimenn sem töpuðu nú allmörgum þingmönnum frá kosningunum 2009 eru áfram stærsti flokkahópurinn og kandidat þeirra til formennsku í framkvæmdastjórninni í Brussel, Jean-Claude Juncker (f. 1954), fv. forsætisráðherra Lúxemborgar, er talinn líklegur til að hreppa hnossið.
Breski stjórnmálafræðingurinn Richard Whitman segir í viðtali við blaðið Information um kosningaúrslitin um helgina: „Vandinn við stóru flokkasamsteypurnar er að þær ýta kjósendum í aðrar pólitískar áttir. Það er ekki lengur mikill munur á miðhægri og miðvinstri, svo að spurningin er hvert snúa kjósendur sér í leit að öðrum kostum.  ... Svartsýn túlkun á úrslitunum er að jaðarhóparnir verði pólitískt gjaldgengir. Mótsögnin er hins vegar að ávinningur fyrir ESB-gagnrýna flokka í löndum eins og Danmörku, Bretlandi og Frakklandi hefur ekki mikla þýðingu fyrir stefnu Evrópusambandsins, heldur fremur á innanlandsvettvangi.“
Í orði hafa ýmsir leiðtogar ESB-ríkja látið að því liggja síðustu daga að nú verði að hægja á samrunaferlinu og taka meira tillit til viðhorfa í aðildarríkjum. Ólíklegt er að
slíkt standi til boða nema til langtum meiri tíðinda dragi, pólitískra eða efnahagslegra.
 
Til umhugsunar

Í Evrópusambandinu er þannig um hnútana búið að markaðsfrjálshyggjan er niðurnjörfuð í sáttmálum bandalagsins. Þeim verður ekki hnikað nema aðildarríkin 28 nái um það samkomulagi. Ef út af bregður er dómstóllinn í Lúxemborg reiðubúinn að bregðast við.
ESB-kerfið leggur meginlínurnar fyrir ríkisstjórnir aðildarlandanna, mest ákvarðandi innan Evrusvæðisins. Í þessu kerfi gerist ekkert af skyndingu heldur þarf til þess víðtæka pólitíska samstöðu og langan tíma. Af þessum sökum duga skammt til breytinga pólitískar hræringar af þeim toga sem menn urðu vitni að í kosningunum til Evrópuþingsins. Íslendingar eru svo lánsamir að hafa enn ekki ánetjast þessu kerfi nema að því leyti sem gerist með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Gæfa okkar sem þjóðar liggur við að ekki verði gengið lengra á þeirri braut.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim