Hjörleifur Guttormsson |
27. febrúar 2004 | |
Skipulagsstofnun Efni: Ákvörðun um matsskyldu ráðgerðrar flóðlýsingar á Gullfossi Fram hefur komið nýlega, sbr. meðfylgjandi útskrift úr Morgunblaðinu 10. desember 2003, að áform séu uppi um að flóðlýsa Gullfoss í Hvítá að vetrarlagi. Með bréfi þessu óskar undirritaður eftir því, með vísan til II. kafla laga nr. 106/2000 um mat á um hverfisáhrifum sem og 2. og 3. viðauka með nefndum lögum, að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort hér sé um matsskylda framkvæmd að ræða skv. 6. grein laganna. Gullfoss er friðlýstur að náttúruverndarlögum og þar er starfrækt þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn en leyfi mun hafa verið veitt fyrir henni áður en lög um mat á umhverfisáhrifum komu til. Þá njóta fossar almennt sérstakrar verndar samkvæmt 37. grein laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Flóðlýsing Gullfoss felur í sér meiriháttar
inngrip í umhverfi eins þekktasta náttúrufyrirbæris
á Íslandi. Slík framkvæmd felur einnig í
sér breytingu á þjónustumiðstöð
og tengdum aðgerðum fyrir ferðamenn við fossinn, þar
með taldir gangstígar. Hér er augljóslega fyrirhugað
að breyta framkvæmd sem þegar hefur verið leyfð
og munu breytingarnar hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Slíkar
breytingar eða viðbætur eru matsskyldar skv. viðauka
2, 13.a. Í von um skjóta og skilmerkilega úrlausn. Virðingarfyllst Hjörleifur Guttormsson Meðfylgjandi: Afrit af grein úr gagnasafni
Morgunblaðsins 10. desember 2003 |