Hjörleifur Guttormsson | 25. apríl 2000 |
Risaraflínur ráðgerðar eystra Smellið hér til að sjá drög að athugasemdum mínum til Skipulagsstofnunar. Furðulegar staðhæfingar Landsvirkjunar Tvær 400 kílóvolta háspennulínur af stærstu gerð sem tengja eiga raforkuver í Fljótsdal við álverksmiðju á Reyðarfirði eru nú í mati vegna umhverfisáhrifa. Skilafrestur á athugasemdum til Skipulagsstofnunar rennur út 10. maí næstkomandi og hafa allir rétt á að senda þangað skriflegar athugasemdir við þessa mannvirkjagerð. Staðhæfingar sem fram koma í frummatsskýrslu Landsvirkjunar og sem endurómað hafa í fjölmiðlum eru með miklum ólíkindum. Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar stendur: "Við mat á umhverfisáhrifum kemur fram að línurnar hafa í heildina lítil áhrif á náttúru og umhverfi svæðisins." Þetta leyfir fyrirtækið sér að fullyrða þegar um er að ræða framkvæmd sem "í heildina" er það umfangsmesta sem um getur á Austurlandi til þessa og gjörbreyta mun svipmóti margra byggðarlaga, auk vegslóða og efnistökustaða. Í stað þess að draga upp raunsanna mynd af þessum framkvæmdum og áhrifum þeirra, er með ofangreindri staðhæfingu reynt að stinga menn svefnþorni þannig að fólk hafi ekki fyrir því að kynna sér hvað er á seyði. Yfir 300 risamöstur í uppsiglingu Til að bera uppi raflínustrengina umrædda leið er talið að reisa þurfi allt að 340 stálgrindarmöstur sem munu verða 20-37 metra á hæð og með 25 metra langri þverslá auk staga. Með svona gálgum ætlat Landsvirkjun að þvera Fljótsdal, Skriðdal og botn Reyðarfjarðar fyrir utan fjalldali og heiðar sem þar eru á milli. Þær raflínur sem menn kannast við eystra eru hrein vasaútgáfa í samanburði við þá turna sem hér eru í uppsiglingu. Gangi þetta eftir verða viðkomandi sveitir dæmdar til að gengisfella umhverfið með þessum hervirkjum. Í gyllingu Landsvirkjunar kallast þetta hins vegar "lítil áhrif á náttúru og umhverfi"! Fátt eiga Íslendingar dýrmætara en umhverfi þar sem landslagið heldur svipmóti sínu þrátt fyrir margháttuð mannvirki. Okkur þykir tilfinnanlegt þegar upp rísa turnar við fiskimjölsverksmiðjur og svartir súrheysgeymar við bændabýli. En hvað er það hjá því sem nú er í vændum á Austurlandi og fylla mun þar fegurstu dali og fjarðarbotna. Þau ómældu verðmæti sem búa í óspilltu útsýni hverfa og koma ekki aftur í fyrirsjáanlegri framtíð. Um leið og gálgarnir rísa missa viðkomandi landsvæði og ferðamannaleiðir mikið af aðdráttarafli sínu. Ætlum við að láta þetta gerast athugsemdalaust fyrir augum okkar? Raflínur í jörð - stóriðjan beri kostnað Fólk spyr eðlilega hvort það þurfi að velja á milli
þess sem kallað er stöðnun og þessa ógæfulegu mannvirkja. Vissulega
er það risaálverið upp á 480 þúsund tonn sem kallar á raflínur af
þeirri ógnarstærð sem hér um ræðir með 400 kílóvolta spennu. Verksmiðjan
sú er þó enn ekki staðreynd og þótt áfangi rísi verður endanleg stærð
hennar óráðin um langa hríð. Helmingi minni verksmiðju getur nægt
helmingi lægri spenna til orkuflutnings og ekki er tiltökumál að að
leggja viðkomandi línur sem jarðstrengi að minnsta kosti á völdum
köflum. Nú renna 66 og 132 kílóvolta raflínur í jörð eins og ekkert
sé, líkt og lesa má um í gögnum Landsvirkjunar. Auðvitað á stóriðjan,ef
hún kemur á annað borð, að kosta því til sem þarf svo að unnt sé að
vernda umhverfið fyrir slíkum hervirkjum. Af hverju í ósköpunum eigum
við að fórna frumgæðum í umhverfi okkar til að lækka raforkuverðið
til stóriðjunnar svo að eigendur álverksmiðju fái meira í sinn hlut?
Kjósum okkur aðra sumargjöf en þessa gálga. |