Hjörleifur Guttormsson | 28. febrúar 2000 |
Umhverfismat á byrjunarreit Úrskurður umhverfisráðherra sem féll 25. febrúar sl. mun hafa komið mörgum í opna skjöldu. Það á ekki síst við um iðnaðarráðherra og starfsmenn hans í NORAL-verkefninu, sem voru hönnuðir að matsferlinu á umhverfisáhrifum álverksmiðju við Reyðarfjörð. Iðnaðarráðuneytið hefur þegar kostað háum fjárhæðum til við undirbúning að verksmiðjuhugmyndinni og ekkert verið til sparað. Úrskurðarorð umhverfisráðherra fela í sér að "...meðferð málsins, sem hófst með tilkynningu framkvæmdaraðilans, Eignarhaldsfélagsins Hrauns ehf., um umrædda framkvæmd 12. október 1999, er ómerkt í heild sinni." Öllu harðari gat dómurinn ekki verið yfir málatilbúnaði álmanna, sem með þessu eru settir á byrjunarreit. Hraun ehf , sem að formi til átti að heita "framkvæmdaraðili", var hins vegar aðeins peð í leiknum og er nú trúlega úr sögunni. Allt úr skorðum Menn velta því eðlilega fyrir sér, hvers vegna Siv umhverfisráðherra, sem ekki hefur setið sig úr færi að votta stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar hollustu, skuli komast að þessari niðurstöðu. Við því fást svör ef menn kynna sér skriflegan rökstuðning fyrir úrskurðinum. Ráðherrann taldi sig í raun aðeins eiga tvo kosti í stöðunni og hvorugan góðan frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar: Annar var sá að fallast á úrskurð skipulagsstjóra frá 10. desember sl. um "frekara mat", hinn sá að ónýta alla málsmeðferðina. Augljósar lagahindranir stóðu í vegi þess að hægt væri að fallast á kröfu "framkvæmdaraðila" um grænt ljós fyrir 1. áfanga verksmiðjunnar, auk þess sem margir meinbugir hefðu verið á slíkri afgreiðslu. Þetta var þó sú leið sem Framsóknarforystan gerði kröfu um strax í desember eftir að skipulagsstjóri kom með sína niðurstöðu um frekara mat á 480 þúsund tonna álveri. Eftir að úrskurður ráðherra lá fyrir á dögunum var forstjóri Landsvirkjunar fljótur að kveða upp úr um það, að ekki þýddi að hugsa til að hefja virkjunarframkvæmdir í Fljótsdal á árinu 2000. Samkvæmt NORAL-verkefninu var hins vegar gert ráð fyrir að úrslit réðust, af eða á um verksmiðjuna, ekki seinna en 1. júní næsta sumar. Sú tímasetning var meðal annars notuð sem svipa á alþingismenn þegar fjallað var um málin á Alþingi fyrir jól. Nú er þetta allt úr skorðum og mikil óvissa um framhaldið. Kröfur NAUST í sviðsljósið Náttúruverndarsamtök Austurlands - NAUST - lýstu stuðningi við meginniðurstöðu skipulagsstjóra um frekara mat, en samtökin vildu með kæru sinni freista þess að tryggja að skýr heildarmynd fáist af áhrifum allra stóriðjuframkvæmdanna samtímis. Það á meðal annars við um virkjanir og raflínur og losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni. Þessar kröfur munu nú fá byr undir vængi og tímarökin gegn mati á Fljótsdalsvirkjun eru jafnframt fokin út í veður og vind. Krafan um að allt verði undir í nýju mati, einnig tillagan um Snæfellsþjóðgarð, mun verða mjög almenn og að fórnarkostnaður vegna áformaðra framkvæmda fáist metinn. Loks er nú komið fram stjórnarfrumvarp til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum og er stefnt að lögfestingu þess fyrir vorið. Mat á umhverfisáhrifum, hvaða nafni sem nefnist, hlýtur héðan í frá að fara eftir forskrift nýrra laga. Framkvæmdaaðilar þurfa að vanda sig áður þeir leggja fram nýja frummatsskýrslu, því að ella eiga þeir á hættu að allt reki í strand á nýjan leik. Hugmyndir sem gera ráð fyrir að fá aðeins 1. áfanga verksmiðjunnar metinn í upphafi, eru líklegar til að steyta á skeri og hugnast varla þeim sem ætlað er að leggja fé í verksmiðjuna. Landsmenn eiga kröfu á að málið sé metið í heild sinni og standi eða falli á slíku prófi. Allt annað væru svik við framtíðina. Nokkrum dögum áður en úrskurður umhverfisráðherra féll skilaði NAUST sem kæruaðili áliti um framkomnar umsagnir. Þeir sem vilja kynna sér það álit finna það með því að smella á [meðfylgjandi skjal NAUST220200]. Margt af því sem þar kemur fram er áfram í fullu gildi. Hjörleifur Guttormsson |