Hjörleifur Guttormsson 6. apríl 2005

Risafjárfesting á ótraustum grunni

Þann 30. desember 2004 birtist eftir undirritaðan grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Hversu traustar eru undirstöður Kárahnjúkastíflu og Hálslóns? Þar var vakin athygli á aðvörunum nafngreindra jarðfræðinga og fleiri á aðstæðum á virkjunarsvæðinu áður en teknar voru ákvarðanir um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Jafnframt vísaði ég til margra þátta sem fram hafa komið eftir að framkvæmdir hófust, svo sem misgengis undir sjálfri aðalstíflunni og jarðhita í mun meiri mæli en greint hafði verið frá.

Stjórn Landsvirkjunar hefur að undanförnu fjallað um skýrslur og sérfræðiálit í kjölfar jarðfræðirannsókna sem ráðist var í á virkjanasvæðinu á síðastliðnu sumri. Leiddi þetta til sérstakrar samþykktar stjórnarinnar 4. apríl sl. Um það segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar:

“Í samþykkt stjórnarinnar var ákveðið að endurskoða áhættumat fyrir Kárahnjúkavirkjun í ljósi nýrra upplýsinga um jarðfræði. Endurskoðunin nái m.a. til eldgosa og jarðhræringa svo og til áhrifa lónfargsins og möguleika á opnun sprungna við lónfyllingu. Ennfremur skuli meta hugsanlegar afleiðingar áhættunnar fyrir starfsemi fyrirtækisins og viðskiptavina þess og endurskoða eldri viðbragðsáætlanir.”

Þetta eru söguleg tíðindi. Tvö ár eru síðan ákvörðun var tekin um Kárahnjúkavirkjun og í kjölfarið hófust framkvæmdir við þessa 100 miljarða króna fjárfestingu. Nú í miðjum klíðum upplýsir Landsvirkjun að endurskoða þurfi sjálfan jarðfræðilegan grundvöll framkvæmdanna og þá áhættu sem í þeim felst, efnahagslega og fyrir mannvirki og líf fólks sem undir þeim býr. Um leið og þetta er gert reyna verkfræðilegri ráðgjafar fyrirtæksins, svonefndur KEJV hópur að eyða áhyggjum manna með yfirlýsingum eins og þessari, dags. 31. mars 2005:

“Stífluhönnun verður endurskoðuð þegar fyrir liggja nauðsynlegar upplýsingar, annars vegar úr frekari sprungurannsóknum og hins vegar um þá jarðskjálfta og jarðhræringar sem Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði vinnur að greiningu á. Ennfremur verður endurskoðuð skýrsla um leka úr Hálslóni og þá m.a. með tilliti til upplýsinga um jarðhitasprungur á svæðinu.”

Þessar yfirlýsingar sýna ljóslega í hverskonar kviksyndi menn eru staddir. Bygging stíflanna sem halda eiga uppi Hálslóni er komin vel á veg, en ennþá hafa menn ekki fullnægjandi upplýsingar um forsendur. Samt er látið eins og allt sé með felldu og mótvægisaðgerðir kosti smámuni. Það blasir þó við að hversu vel sem menn leggja sig fram um að berja í brestina verður fullgerð Kárahnjúkavirkjun tifandi tímasprengja.

Tilvitnanir í niðurstöður

Frétt á vef Landsvirkjunar 4. apríl (www.landsvirkjun.is) ber yfirskriftina Stíflur í Kárahnjúkavirkjun – Hönnunarforsendur endurmetnar, áhættumat endurskoðað. Þar segir m.a.:

“Vinnu við verkfræðilega hlið þessa endurmats er ekki lokið, en fyrir liggja nokkrar breytingar á vísindalegum forsendum. Eins og jafnan við framkvæmdir af þessu tagi eru verkfræðilegar lausnir aðlagaðar jafnóðum að aðstæðum, en umrædd enduraskoðun snýr hins vegar að því hvort þörf sé breytinga í hönnun eða frekari ráðstafana til að auka öryggi.

Markverðasta niðurstaða nýlegra rannsókna er að eftir síðustu ísöld hafa hreyfingar á jarðskorpunni orðið nær Kárahnjúkum en áður var talið, en misgengi sem hafa hreyfst eftir ísöld eru skilgreind sem virk. Þetta leiðir til þess að endurmeta þarf forsendur um mögulega jarðskjálfta og yfirfara þá áraun sem notuð var við hönnun mannvirkjanna við Kárahnjúka.”

Á vef Landsvirkjunar er að finna samantekt úr skýrslu vinnuhóps sem stjórn fyrirtækisins fól að skoða og leggja mat á rannsóknaskýrslur jarðfræðinganna Hauks Jóhannessonar og Kristjáns Sæmundssonar frá árinu 2004. Heiti skýrslunnar er Jarðskjálftar og misgengi á Kárahnjúkasvæði – Mat á vá og ábendingar um frekari athuganir. Formaður vinnuhópsins var Freysteinn Sigmundsson. Samantektin er svohljóðandi:

  1. Kárahnjúkasvæðið einkennist um þessar mundir af lítilli eða engri jarðskjálftavirkni (e. seismically quiet). Nýlegar jarðfræðirannsóknir benda á hinn bóginn til hreyfinga á misgengi í Sauðárdal á nútíma, síðast fyrir nokkrum þúsundum ára. Það misgengi liggur að hluta til undir lónstæði Hálslóns. Misgengjakerfi við Kárahnjúkastíflu er jafnframt viðameira en áður var talið, og einnig tengist jarðhiti því. Þessar nýju athuganir benda til að svæðið sé ekki fullkomlega stöðugt með tilliti til höggunar og jarðskjálfta, og að jarðfræðileg vá sér þar umfangsmeiri en áður hefur verið talið.
  2. Spennu- og aflögunarsvið svæðisins kann að breytast og jarðskjálftar verði þar á ný. Myndun Hálslóns og aukinn vatnsþrýstingur samfara því kann að valda misgengishreyfingum á Kárahnjúkasvæðinu, jafnframt því sem fjarlægir skjálftar geta valdið hreyfingum þar. Þá kann virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum, þar á meðal í Öskju, Kverkfjöllum og Snæfelli, að leiða til misgengishreyfinga (e. triggered faulting) við Kárahnjúka.
  3. Mesta misgengishreyfing sem álitið er að geti orðið á Kárahnjúkasvæðinu er siggengishreyfing þar sem jarðskjálftavægi (seismic moment) yrði um ~ 3x1018 Nm. Mjög langur endurkomutími yrði milli slíkra atburða í samanburði við helstu jarðskjálftasvæði á Íslandi. Kortlögð lengd Sauðárdalsmisgengisins er nægjanleg til þess að slíkur atburður geti átt sér stað af völdum hreyfinga á því. Losna kann um heildarvægi slíkrar misgengishreyfingar annað hvort í einum atburði eða röð slíkra sem að hluta til kunna að eiga sér stað án þess að jarðskjálftar fylgi. Í ljósi þessa er lagt til að við hönnun mannvirkja sé hugað að nærsviðs siggengis jarðskjálfta af umtalsverðum styrk.
  4. Hætta á gleikkun sprungna vegna aukins vatnsþrýstings er umtalsverð, þar sem ríkjandi minnsta lárétta spenna er lág og nærri vatnsþrýstingi. Búast má við að margar sprungnanna séu mjög lekar.
  5. Lagt er til að landmælingar og athuganir á jarðskorpuhreyfingum á svæðinu við stíflurnar og lónið verði auknar á framkvæmdatímanum og meðan fyllt verður í lónið. Markmiðið væri að mæla hreyfingar og finna hugsanlegar sprungur sem kynnu að gleikka undan auknu álagi og vatnsþrýstingi.
  6. Þessi skýrsla er byggð á tiltölulega takmörkuðum upplýsingum. Því ætti að leggja áherslu á frekari athuganir á þeim atriðum sem skýrslan fjallar um. Jafnframt að kanna svörun hinna ýmsu mannvirkja við áraun frá jarðhræringum, og vöktun og rannsóknir til að skilja betur eðli jarðskorpuhreyfinga og höggunar í nærliggjandi eldstöðvakerfum. Virkni á víðáttumiklu svæði á norðanverðu landinu kann að valda vá á Kárahnjúkasvæðinu. Þótt slík vöktun og rannsóknir hafi líklega takmörkuð áhrif á hönnun mannvirkja Kárahnjúkavirkjunar munu þær til lengri tíma litið draga úr þeirri óvissu sem tíunduð er í skýrslu þessari og þannig auðvelda viðbrögð við vá og draga úr áhrifum hennar.”

Óðagot og þröngir pólitískir hagsmunir

Ávörðunin um Kárahnjúkavirkjun einkenndist af óðagoti og þröngum pólitískum hagsmunum. Faglegt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var að engu haft og nú liggur fyrir að jarðfræðilegar upplýsingar í matsskýrslu Landsvirkjunar voru beinlínis rangar. Þar var staðhæft að bergið hentaði vel sem grunnur fyrir stíflur við Hálslón. Aðvörunum ýmissa sérfróðra sem og fjölda einstaklinga og almannasamtaka var í engu sinnt. Þrír stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkur, Samfylking og Sjálstæðisflokkur bera alla ábyrgð á þessari framkvæmd sem stefnir í að verða kennslubókardæmi um hvernig ekki eigi að standa að verki og ákvörðunum.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim