Hjörleifur Guttormsson 12. janúar 2005

Álver Alcoa á byrjunarreit

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli undirritaðs gegn Alcoa og íslenska ríkinu gerðust þau tíðindi í dag, 12. janúar, að álver Alcoa á Reyðarfirði þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt og fyrst eftir að það mat væri afgreitt fyrirtækinu í hag er unnt að auglýsa tillögur að starfsleyfi. Álverið á Reyðarfirði er þar með komið á byrjunarreit og aðstandendur þess þurfa að hugsa málið upp á nýtt frá grunni.

Þetta gengur fram af eftirfarandi dómsorði Héraðsdóms:

Úrskurður umhverfisráðherra 15. apríl 2003, þar sem staðfest var ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2002 um að álver fyrir allt að 322 þúsund tonna ársframleiðslu þyrfti ekki að sæta umhverfismati, er ómerktur.

Aðrar dómkröfur mínar sem ekki var á fallist skipta ekki efnislega máli um þessa niðurstöðu er kalla engu að síður á viðbrögð á öðrum vettvangi. Það á sérstaklega við um þrönga lögskýringu dómsins á rétti almennings til að kæra starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hefur gefið út. Umhverfisstofnun fær af hálfu dómsins ákúrur fyrir rangar leiðbeiningar um það atriði til þeirra sem athugasemdir gerðu við starfsleyfið á sínum tíma og umhverfisráðherra fyrir að hafa dregið óhóflega lengi að kveða upp úrskurð um kæru mína.

Dómurinn virðist mér eftir skjótan yfirlestur á heildina litið mjög skýr og afdráttarlaus.

Lögmaður minn Atli Gíslason hefur skilað frábæru starfi í þessu máli.

 

PS: Dóminn í heild er hægt að lesa hér


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim