Hjörleifur Guttormsson | 20. apríl 2007 |
Olíustóriðja fyrir Vestfirðinga með kveðju frá ríkisstjórninni Sú tilfinning sækir á að erlendir fjárfestar og útsendarar þeirra telji sig geta komið fram við Íslendinga eins og hér sé bananalýðveldi. Síðasta dæmið um þetta er tilboð rússnesk-bandarískra fjármálaspekúlanta um að reisa 8 milljón tonna olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og fyrrum sendiherra stígur fram til að dásama tilboðið. Ráðherrar í ríkisstjórn landsins vísa boðskapnum heim í hérað hálf vandræðalegir og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri á Ísafirði þorir enga skoðun að hafa á málinu en framsendir það til sveitarstjórnarmanna vestra og almennings sem þurfi að gera upp hug sinn. Sá hinn sami hafði áður fyrir hönd Vestfirðinga hafnað stóriðju en telur nú ekki einsýnt að olíuhreinsunarstöð þessi falli undir það hugtak. Lykilatriði í sölumennskunni eru 500 störf sem eigi að fylgja með hnossinu og það munar um minna. Gamlir Vestfirðingar klóra sér í höfðinu og sumir eygja hér bjarghring fyrir vanræktan landshluta. Fer nú að vora um Dýrafjörð? Uppbökuð gömul lumma Það er meira en áratugur síðan þessir erlendu aðilar kynntu sams konar hugmyndir og þá fyrir milligöngu íslenska utanríkisráðneytisins þar sem Halldór Ásgrímsson hafði nýlega tekið við lyklavöldum. Íslendingur starfandi í bandarískum olíuiðnaði mun hafa bent á ráðuneytið sem tengilið og þar kom Ólafur Egilsson inn í málið, hafði áður verið sendiherra í Moskvu og um þetta leyti fulltrúi Íslands í Barentsráðinu. Ráðuneytið fór strax að máta þessa hugmynd við Reyðarfjörð. Eftir að þessi tíðindi spurðust út árið 1997 beindi ég á Alþingi fyrirspurn til Finns Ingólfssonar þáverandi iðnaðarráðherra. Á svari hans (sjá hér) var ekki mikið að græða frekar en nú á viðbrögðum ráðamanna sem varpa þessari hugmynd ásamt fleira góðgæti inn á kosningavöllinn á Vestfjörðum. Það er hins vegar langsótt að upplýsingar skorti um þessa stóriðjuhugmynd. Farið var allrækilega ofan í málið fyrir 10 árum, þá á vegum fyrirtækisins Línuhönnunar í samvinnu við þýskt fyrirtæki. Borin var saman hugsanleg staðsetning við Kolkuós í Skagafirði annars vegar og á Reyðarfirði hins vegar. Sérstaklega var þá litið til umhverfis– og öryggisþátta málsins og staðsetningu í Skagafirði ýtt til hliðar þar sem hafís gæti gert sjóleiðina hættulega. Hins vegar hafa stjórnvöld eða aðrir aldrei haft fyrir því að leita álits Umhverfisstofnunar (áður Hollustuverndar) á þessari stóriðju sem íslenskur sendiherra hefur verið að sýsla við milli kokteilboða. Rækileg úttekt Júlíusar Sólness Í framhaldi af úttekt Línuhönnnar tók Júlíus Sólnes prófessor við HÍ og fyrrum þingmaður og umhverfisráðherra sig til og gerði samanburð á umhverfisáhrifum umræddrar hugmyndar um olíuhreinsunarstöð og álvers á Reyðarfirði. Birti hann ítarlega grein um niðurstöður sínar í Árbók VFÍ/TFÍ 1998/99 (sjá hér) og má telja með fádæmum að niðurstöður hans skuli ekki hafa fylgt sögunni nú, þegar þessari lummu er skellt á borð Vestfirðinga. Framsetning Ólafs Egilssonar verður í ljósi þessa að teljast einkar ámælisverð þar eð hann kýs að þegja um eða rangtúlka umhverfisáhrif og áhættu sem við blasir af svona fyrirtæki. Olíuhreinsunarstöð þessi er nú áætluð fjórðungi stærri en fyrir áratug, framleiðslugetan um 8 milljón tonn á ári. Hér verða rakin fáein atriði úr úttekt Júlíusar, sem hélt sig á lágu nótunum í sínum útleggingum. Heildaráhrif svipuð og af stóriðjunni eystra Júlíus reiknar út einskonar gæðavísitölu (Environmental Quality Index) fyrir olíuhreinsunarstöðina annars vegar og álver + virkjanir því tengdar eystra hins vegar og gefur þeim báðum falleinkunn. Útkoman var mjög áþekk, þ.e. 4,3 EQI fyrir olíuhreinsunarstöðina og 3,9 fyrir álver með virkjunum (besta einkunn væri 10). Mestu umhverfishættuna við rekstur olíuhreinsunarstöðvar sér Júlíus í áhættu af sjóslysum.
skrifar hann. Skagafjörður var tekinn út af dagskrá eftir athugun Línuhönnunar hf. þar eð staðsetning þar væri mun áhættusamari en á Reyðarfirði, hvað þá á Vestfjörðum sem liggja næst hafísjaðrinum og á einni stórviðrasömustu siglingaleið hér við land. Í greininni fjallar Júlíus m.a. um áhættuna af flutningaskipum með einu byrði og tvöföldu og segir í því sambandi:
Mengunin stórfelld Júlíus rekur skilmerkilega mengunaráhrifin sem varða einkum gróðurhúsaloft, rokgjörn lífræn gös, brennisteinstvíoxíð, köfnunarefnisoxíð og ryk. Losun á brennisteinssamböndum hjá álbræðslu Alcoa á Reyðarfirði er áætluð um 4600 tonn en yrði frá 8 milljón tonna olíuhreinsunarstöð líklega nálægt 6500 tonn á ári án vothreinsunar. Mesta athygli vekur hins vegar gífurleg losun gróðurhúsalofts frá olíuhreinsunarstöðinni eða langtum meiri en frá álbræðslu Alcoa eystra. Miðað við 8 milljón tonna vinnslu yrði losun gróðurhúsalofts ekki undir 700 þúsund tonnum á ári, þ.e. álíka og frá öllum samgöngum hérlendis árið 2004. Náttúruverndarsamtök Íslands sem nýlega hafa birt tölur um þetta, byggðar á sænskum staðli og miðað við 8,5 milljón tonna framleiðslu, áætla árlega losun af gróðurhúsalofti frá svona stöð rösklega eina milljón tonna. Júlíus Sólnes benti þegar árið 1998 rækilega á ósamræmið milli hugmynda um olíuhreinsunarstöð og væntanlegra skuldbindinga Íslands samkvæmt Kyótó–bókuninni. Þessu leyndarmáli um gróðurhúsaáhrifin hefðu formenn Sjálfstæðis– og Framsóknarflokks getað hvíslað að sínum mönnum vestra og sagt þeim um leið að gleyma þessum uppvakningi. Óþarft er að fara fleiri orðum um þessa sendingu ríkisstjórnarinnar á heimilisfang Vestfirðinga. Hún segir heilmikla sögu um hvar núverandi valdhafar og stóriðjuhandlangarar þeirra eru staddir. Spaugstofan hefði vart haft ímyndunarafl til að setja eitthvað þessu líkt á svið. Hjörleifur Guttormsson |