Hjörleifur Guttormsson 25. október 2011

Ýmis rök gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu

Með tillögu til landsfundar VG 2011 um aðildarviðræður við ESB (sjá vettvangspistli 14. október 2011) fylgdi eftirfarandi greinargerð þar sem vakin er athygli á ýmsum þeim þáttum sem mæla gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fullveldisafsal

ESB-aðild felur í sér fullveldisafsal á fjölmörgum sviðum, m.a. varðandi löggjafarvald og dómsvald. Með aðild yrði grundvallarbreyting sem veikja myndi stórlega stöðu Alþingis sem löggjafa og æðsta dómsvald flyttist í hendur yfirþjóðlegs dómstóls ESB. Tollar yrðu afnumdir inn á við en tollmúrar reistir gagnvart ríkjum utan ESB. Sem aðildarríki hefði Ísland ekki heimild til að gera fríverslunarsamninga við lönd utan sambandsins. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum myndi í reynd færast undir ESB sem yfirleitt talar einni röddu á Allsherjarþinginu, svo og í nefndum og á alþjóðaráðstefnum Sameinuðu þjóðanna. Í utanríkis- og öryggismálum er nú kveðið á um samstarf og samræmingu á stefnu aðildarríkja undir forystu sérstaks utanríkistalsmanns ESB. Þessu til viðbótar stefnir nú í að mikilvægir þættir efnahags- og fjármála aðildarríkja verði færðir undir framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Áhrifamiklir aðilar innan ESB tala nú opinskátt fyrir myndun sambandsríkis. Íslendingar eiga af fjölmörgum ástæðum, m.a. vegna legu landsins og sérstæðra og gjöfulla náttúruauðlinda, ekki að ganga slíku ríki á hönd.

Skerðing lýðræðis og fjarlægar valdamiðstöðvar

Skert lýðræði, sem oft er vísað til sem „lýðræðishalla‟, hefur einkennt ESB frá upphafi og orðið æ meira áberandi eftir því sem aðildarríkjum þess hefur fjölgað og framkvæmdastjórnin í Brussel náð undir sig fleiri málasviðum. Stjórnskipuð 27 manna framkvæmdastjórn í Brussel með tugþúsunda starfsliði og umkringd herskörum lobbýista hefur ein rétt til að leggja fram lagafrumvörp (tilskipanir) sem ráðherraráð ESB og Evrópuþingið síðan þurfa að samþykkja eftir flóknum reglum, m.a. um atkvæðavægi. Stöðugt heyrast kröfur um styrkingu ESB-þingsins en auknum áhrifum þess fylgir óhjákvæmilega minna vægi þjóðþinga aðildarríkjanna. Áhugi á kosningum til Evrópuþingsins hefur verið mjög takmarkaður, í síðustu kosningum var þátttakan aðeins um 43% og fór niður í 20% í sumum aðildarríkjum.
Á Evrópuþinginu fengi Ísland í mesta lagi 6 fulltrúa en nú eru fulltrúar þar 736 alls. Í ráðherrráðinu yrði hlutur Íslands líka langt innan við 1% atkvæða af um 350 alls. Fjarlægð Íslands frá meginlandinu og valdastofnunum ESB takmarkar enn frekar möguleika til áhrifa, svo ekki sé talað um að íslenskur almenningur geti haft áhrif með nærveru sinni eins og gerist gagnvart innlendum stofnunum, m.a. með útifundum og öðrum samkomum.
 
Sjávarútvegur og aðrar auðlindir

Í tillögunni eru í upphafi nefnd atriði þar sem útilokað er fyrir Íslendinga að gefa nokkuð eftir með tilliti til grundvallarhagsmuna og sem varða yfirráð auðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Brýnt er að fá það sem fyrst skýrt fram í yfirstandandi viðræðum, hvort ESB sé reiðubúið að fallast á að Ísland sem aðili að ESB haldi fullu og óskoruðu forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan efnahagslögsögunnar og samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum. Sé svarið við þessu neikvætt er ástæðulaust að eyða tíma og fjármunum í frekari viðræður. Framkomnar hugmyndir um breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB breyta engu um grunnþætti sáttmála ESB á þessu sviði. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á sjávarútvegsstefnunni falla nú þegar í grýtta jörð hjá ýmsum og langan tíma mun taka áður en niðurstaða er fengin.
Svipuðu máli og um fiskimiðin gegnir um aðrar náttúruauðlindir sem VG hefur barist fyrir að lýstar verði þjóðareign og sem vaxandi hljómgrunnur er fyrir að kveðið verði á um í nýrri stjórnarskrá. Þetta á m.a. við um ferskvatn, orku fallvatna, jarðhita og önnur auðævi í jörðu.  

Landbúnaður: fæðu- og matvælaöryggi ógnað

Kröfur ESB um aðlögun íslensks landbúnaðar að laga- og stofnanakerfi ESB liggja nú fyrir. Þær leiða í ljós að krafist er fyrirfram aðlögunar þessara þátta, áður en fyrir lægi hvort aðildarsamningur yrði samþykktur af Íslands hálfu. Bændasamtökin hafa brugðist við með því að setja fram við íslensk stjórnvöld lágmarkskröfur um skýr samningsmarkmið af þeirra hálfu í viðræðum við ESB. Undir þá afstöðu hefur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra tekið enda er hún réttmæt og eðlileg. Heildstæð viðbrögð stjórnvalda liggja hinsvegar enn ekki fyrir. Ljóst er að með afnámi tollverndar yrði samkeppnisstaða innlendrar landbúnaðarframleiðslu veikt til mikilla muna. Jafnframt yrði fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar stefnt í tvísýnu. Tæknivæddum stórbúskap fylgir aukin mengunar og sýkingarhætta, að ekki sé talað um meðferð og velferð búfjár. Krafa ESB um afnám banns við innflutningi búfjár skapar stórhættu á búfjársjúkdómum og með því væri gengið gegn alþjóðlegum skuldbindingum um að þjóðir viðhaldi erfðaauðlindum, bæði í villtum og ræktuðum tegundum. Ekki er síður alvarlegt að með ESB-aðild fengi verksmiðjubúskapur meira forskot en nú er gagnvart lífrænni ræktun og fjölskyldubúum í sveitum, en það er rekstrarform sem hlúa ber að.

Umhverfisvernd víkjandi fyrir viðskiptahagsmunum

Þrátt fyrir ýmsa jákvæða viðleitni eiga umhverfismál innan ESB á heildina litið á brattan að sækja. Viðskiptahagsmunir eru almennt ráðandi á kostnað umhverfissjónarmiða, og koma þar einnig til reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Samkvæmt EEA (Umhverfisstofnun Evrópu) er vistspor ESB neikvætt sem heild svo miklu munar. Milli 1990 og 2008 minnkaði heildarlosun gróðurhúsalofts í ESB-ríkjum um 11%, en jókst á ný 2010, og óvíst er nú talið að markmiðinu um 20% samdrátt verði náð 2020, hvað þá meira eins og kallað er eftir af mörgum. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hefur reynst meingallað og mikið hefur verið um svindl og misnotkun.  Stórfelld aukning hefur orðið í losun frá samgöngum innan ESB, einkum vegna þungaflutninga, en mestur árangur náðst í sorpeyðingu. Landbúnaðarstefna ESB (CAP) sem einkennst hefur af miklum niðurgreiðslum og útflutningsbótum hefur verið afar umdeild og nýframkomnar tillögur að breyttri landbúnaðarstefnu sæta gagnrýni, m.a. frá umhverfissamtökum. Jafnframt hefur ESB nýlega slakað mjög á reglum um ræktun erfðabreyttra lífvera. Sjávarútvegsstefna ESB (CFP) hefur leitt til gegndarlausrar ofveiði og tillögur að breyttri stefnu, sem m.a. gerir ráð fyrir framseljanlegum veiðikvótum, eiga langt í land með að hljóta samþykki. Frá 2008 hafa pólitískar áherslur innan ESB eins og víðar færst frá umhverfissviðinu yfir á glímuna við afleiðingar ósjálfbærs efnahags- og fjármálakerfis.
            Náttúra Íslands á hér hvergi hliðstæðu og á sviði náttúruverndar þurfa Íslendingar að taka mið af eigin aðstæðum, víðlendum óbyggðum og jarðfræðilegum sérkennum. Samvinna við aðrar þjóðir er þó sjálfsögð, m.a. innan Evrópu, eins og þegar er stunduð í krafti alþjóðlegra sáttmála.

Fjármagnið ræður för

Gangverk Evrópusambandsins er í grunninn hákapítalískt með óheft fjármagnsflæði og fjölþjóðafyrirtæki sem leiðandi afl. Jafnframt hefur komið skýrt í ljós að undanförnu, að það eru Þýskaland og Frakkland sem telja sig eiga að ráða för þegar á reynir innan sambandsins, hvað sem líður formreglum. Í ESB þrengir markaðurinn sér stig af stigi inn á svið opinberrar þjónustu, studdur af úrskurðum ESB-dómstólsins í Lúxemborg sem í dómsniðurstöðum tekur oftast mið af markmiðum stofnsáttmála ESB um samruna og aukna samkeppni. Það sem hefur verið að gerast á evru-svæðinu að undanförnu afhjúpar að það eru hagsmunir fjármagns sem þar ráða för. Þessa dagana er verið að leggja á ráðin um að ausa gífurlegum fjárfúlgum úr sameiginlegum sjóðum og frá almenningi í einkabanka og aðrar fjármálastofnanir. Herða á síðan á spennitreyju evrunnar með miðstýrðum ákvörðunum og boðvaldi frá Brussel um fjármál aðildarríkjanna, þar sem niðurskurður velferðarþjónustu er efstur á blaði og jaðarsvæði verða harðast úti.

Launafólk á undir högg að sækja

Launamunur og bil milli ríkra og fátækra hefur farið vaxandi innan ESB. Atvinnuleysi er nú að meðaltali 9,5% á ESB-svæðinu og um 20% hjá ungu fólki undir 25 ára aldri. Á Spáni þar sem ástandið er verst er atvinnuleysi um 21% og yfir 40% hjá ungu fólki. Samningsstaða launafólks hefur veikst, m.a. vegna undirboða milli landa (þjónustutilskipun ESB) og dóma ESB-dómstólsins (Laval-málið). Vinnuréttur er nú orðinn hluti af ESB-regluverki (Vaxholm-dómurinn 2007 og Viking-Line-dómurinn 2008). Niðurskurður hefur bitnað á velferð og lífeyrisskuldbindingum og víða er verið að hækka eftirlaunaaldur. – Aðild að ESB hefur orðið til að veikja samnings- og réttarstöðu launafólks og ekki er séð fyrir endann á þeirri þróun.

Opinber almannaþjónusta í spennitreyju

Opinber almannaþjónusta hefur lengi átt undir högg að sækja innan ESB, sem hefur haft tilhneigingu til að skilgreina slíka þjónustu á markaði. ESB skiptir almannaþjónustu í tvo flokka, annan sem er þröngur flokkur „kjarnaþjónustu‟ á borð við lögreglu og her og kallast „þjónusta sem ekki er af efnahagslegum toga‟. Hinn flokkurinn sem er mun stærri kallast „þjónusta í almannaþjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu‟. Þar undir falla t.d. bæði heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og veituþjónusta. Um þá þjónustu gilda reglur innri markaðarins nema í undantekningatilvikum. Þessa tvískiptingu er nú í fyrsta sinn að finna í lögum um þjónustuviðskipti. Mjög mikilvægt er að íslensk stjórnvöld leitist við að tryggja að opinber almannaþjónusta falli ekki undir markaðsreglur ESB, meðal annars er afar varhugavert að fella slíka þjónustu undir hlutafélagaformið.

Áhugi ESB á aðild Íslands vegna Norðurslóða

Ekki hefur farið dult áhugi ESB á aðild Íslands m.a. vegna aukinna ítaka sem það myndi veita Evrópusambandinu til að hlutast til um málefni Norðurslóða. Í ályktun Evrópuþingsins 20. janúar 2011 um stefnu ESB fyrir norðurheimsskautssvæðið er vikið að aðildarumsókn Íslands með þessum orðum:

„[Evrópuþingið] beinir sjónum að þeirri staðreynd að framtíðaraðild Íslands að ESB myndi breyta Evrópusambandinu í strandeiningu á Norðurslóðum (Arctic coastal entity) og að umsókn Íslands um aðild undirstrikar þörfina á  samræmdri Norðurslóðastefnu ESB og gefur hernaðarleg tækifæri fyrir ESB til virkari afskipta og myndi leiða til fjölþættrar stjórnar á heimsskautssvæðinu; [þingið] telur að aðild Íslands að ESB myndi treysta í sessi nærveru ESB í Norðurheimskautsráðinu.‟

Fáum dylst að það er sóknin í náttúruauðlindir á norðurslóðum, einkum olíu og jarðgas, sem mestu ræður um kapphlaup stórvelda og ESB um aukin ítök á norðurheimskautssvæðinu.

Utanríkis- og hernaðarmálefni

Með Lissabon-sáttmála hefur verið stofnað embætti yfirmanns utanríkis- og öryggismála ESB. Sá hinn sami er varaformaður framkvæmdastjórnar ESB. Sett hefur verið á fót Samvinnustofnun hermála, komið á sérstökum Evrópuherdeildum  (EU Battlegroups) og Ráðherraráðið og Evrópuþingið hafa samþykkt að stofna skuli hið fyrsta 60 þúsund manna her (Eurocorps). Vopnasala hefur lengi verið stór liður í atvinnustarfsemi margra ESB-ríkja. „Aðildarríkin skulu auka hernaðarmátt sinn‟ segir í 42. grein Lissabon-sáttmálans. Evrópusambandið býr sig þannig undir að verða hernaðarstórveldi.

Góð samskipti við umheiminn án ESB-aðildar

Ísland er í miðlægri stöðu landfræðilega á Norður-Atlantshafi, í þjóðbraut milli austurs og vesturs og lægi einnig vel við vaxandi samskiptum milli Evrópu og Austur-Asíu eftir nýjum siglingaleiðum. Ef Íslendingum auðnast að halda þétt utan um náttúruauðlindir sínar til lands og sjávar og vernda umhverfið fyrir mengun og ofnýtingu er unnt að halda hér uppi sjálfbæru og þróttmiklu menningarsamfélagi til jafns við það sem best gerist annars staðar. Góð samskipti við ESB og aðrar viðskipta- og ríkjasamsteypur eiga eftirleiðis sem hingað til að vera hluti af utanríkissamskiptum sjálfstæðs og fullvalda Íslands.

Undir þessa greinargerð til landsfundar VG 2011 skrifa:

Hjörleifur Guttormsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Anna Margrét Birgisdóttir, Anna Guðrún Þórhallsdóttir, Bjarni Harðarson, Bjarni Jónsson, Björn Vigfússon, Brynja B. Halldórsdóttir, Garðar Mýrdal, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Guttormsson, Helgi Seljan, Hrafnkell Lárusson, Ingunn Snædal, Jón Torfason, Kolbrún Halldórsdóttir, Loftur Guttormsson, Ólafía Jakobsdóttir, Páll Hannesson, Ragnar Arnalds, Sigurður Flosason, Sólveig Anna Jónsdóttir, Steinarr Guðmundsson, Þorsteinn Bergsson, Þórarinn Magnússon.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim