Hjörleifur Guttormsson 19. febrúar 2003

Alcoa-verksmiðjan á Reyðarfirði
Auglýsing stjórnvalda á tillögu að starfsleyfi óheimil

Undirritaður hefur sent Umhverfisstofnun athugasemdir vegna tillagna stjórnvalda (Hollustuverndar, nú Umhverfisstofnunar) að starfsleyfi fyrir 322 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði og gert við þær margar athugasemdir. Athugasemdir mínar fylgja í sérstöku skjali ( Starfsleyfi Alcoa ) svo og kæra mín til umhverfissráðherra dags. 20. janúar 2003 vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 um matsskyldu álversins (Álver Alcoa verði metið sér).

Eftirfarandi niðurstaða kemur fram í lok athugasemda minna:

“Vegna ákvæða reglugerðar 785/1999, sem breytt var með reglugerð 849/2000, var Hollustuvernd (nú Umhverfisstofnun) óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi 322 þúsund tonna álverksmiðju Alcoa á Reyðarfirði 17. desember 2002 og er svo enn, á meðan ekki liggur fyrir niðurstaða skv. lögum nr. 106/2000 um matsskyldu framkvæmdarinnar. Umhverfisráðherra hefur nú til meðferðar kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2002 um matsskyldu og málið því óafgreitt á stjórnsýslustigi. Auk þess að vekja athygli á þessari réttarstöðu hefur undirritaður hér á undan gert margar efnislegar athugasemdir við fram komnar tillögur Hollustuverndar að starfsleyfi fyrir nefnda álverksmiðju á Reyðarfirði og telur mikið skorta á að þær uppfylli kröfur og skilyrði sem setja ber um rekstur slíks fyrirtækis.”

Samkvæmt þessu er auglýsing Hollustuverndar (nú Umhverfisstofnunar) frá 17. desember 2002 á tillögum að starfsleyfi fyrir Alcoa-álverið (Reyðarál ehf) marklaus. Ný auglýsing starfsleyfistillagna fyrir umrætt álver er þá fyrst tímabær að niðurstaða liggi fyrir um mat á umhverfisáhrifum nefndrar verksmiðju.

(fréttatilkynning til fjölmiðla)


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim