Hjörleifur Guttormsson | 24. september 2003 |
Auglýstu virkjanaleyfi harðlega mótmælt Undirritaður hefur með bréfi dagsettu 22. september 2003 til Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra mótmælt harðlega framkominni auglýsingu um leyfi fyrir Norðlingaölduveitu. Bréfið til ráðherrans er svohljóðandi: Iðnaðarráðuneytið
Vísað er til auglýsingar í Lögbirðingarblaðinu 19. september 2003 um heimild til Landsvirkjunar að reisa og reka Norðlingaölduveitu. Undirritaður mótmælir harðlega áformum Landsvirkjunar um að reisa og reka Norðlingaölduveitu og fyrirætlunum iðnaðarráðherra að veita til þess leyfi. Þjórsárver vestan Þjórsár eru sá hluti á hálendi Íslands sem síst skyldi skerða með mannvirkjagerð. Þess í stað ber að friðlýsa svæðið í heild sinni, helst sem hluta af Hofsjökulsþjóðgarði, sbr. þltl. undirritaðs um þjóðgarða á miðhálendinu, 16. mál á 123. löggjafarþingi. Undirbúningur að Norðlingaölduveitu hefur einkennst af röngum ákvörðunum stjórnvalda, sbr. meðfylgjandi kæru undirritaðs til umhverfisráðherra, dags. 18. september 2002. Úrskurður setts umhverfisráðherra Jóns Kristjánssonar 30. janúar 2003 þar sem fallist er á Norðlingaölduveitu er að mínu mati ólögmætur í mikilvægum greinum, þar á meðal framsetning svonefndra mótvægisaðgerða og efnahagsleg rök sem færð eru fram fyrir framkvæmdinni. Í því sambandi vísast til meðfylgjandi greinar eftir undirritaðan sem birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2003. Ég skora hér með á iðnaðarráðherra að draga nefnda auglýsingu til baka og að fallið verði frá öllum áformum um Norðlingaölduveitu. Virðingarfyllst
Meðfylgjandi:
Hjörleifur Guttormsson |