Fjarðarárvirkjun – tifandi tímasprengja
Birtist sem grein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2007
Seyðisfjarðarmegin við vatnaskil á Fjarðarheiði standa nú yfir framkvæmdir við Fjarðarárvirkjun með gífurlegri umhverfisröskun. Baksvið þessara umsvifa er sambland af skelfilegum mistökum opinberra aðila og framgöngu fyrirtækisins Íslenskrar Orkuvirkjunar ehf með dyggri aðstoð forsvarsmanna Seyðisfjarðarkaupstaðar. Virkjunin sem verið er að reisa er ekki aðeins dæmi um óafmáanleg náttúruspjöll á fjölfarinni ferðamannaleið heldur tifandi tímasprengja sem vofa mun yfir byggðinni á Seyðisfirði ef fram heldur sem horfir. Hér verður aðeins stiklað á örfáum atriðum í sögu þessarar framkvæmdar sem ekki sér fyrir endann á.
- Árin 2003-2005 kynnti forsvarsmaður Íslenskrar Orkuvirkjunar ehf, Birkir Þór Guðmundsson, forsvarsmönnum Seyðisfjarðarkaupstaðar tillögu sína um “vistvæna” Fjarðarárvirkjun í tveimur sjálfstæðum þrepum, Gúlsvirkjun 2,5 + Bjólfsvirkjun 4,9 MW, með tveimur 10,5 gígalítra miðlunarlónum á Fjarðarheiði auk inntakslóna, þar af 9 gígalítra miðlun í Heiðarvatni með 14 metra vatnsborðssveiflu.
- Skipulagsstofnun ákvað 18. ágúst 2005 eftir að hafa leitað umsagnar lögboðinna umsagnaraðila „ ... að virkjun Fjarðarár sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.” Engin sérstök skilyrði fylgdu niðurstöðu stofnunarinnar. Athygli vekur að iðnaðarráðuneytið taldi í umsögn sinni 14. júlí 2005 eðlilegt að að framkvæmdin færi í mat „ ... í ljósi þess hve framkvæmdir ná yfir stórt svæði við alfaraleið og í samræmi við ákvæði í viðauka I lið 17 í lögum um mat á umhverfisáhrifum.” Umhverfisstofnun gerði hins vegar enga kröfu um mat á framkvæmdunum.
- Fimm aðilar, þar á meðal undirritaður [sjá hér kæru og athugasemdir], kærðu niðurstöðu Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og færðu fram fjölmörg rök fyrir því að virkjunin yrði ákvörðuð matsskyld, m.a. vegna ónógra rannsókna á náttúru Fjarðardals, líklegra áhrifa á fossaskrúð Fjarðarár, umfangs vatnsmiðlana og ákvæða í Evrópurétti. Vakin var m.a. athygli á að Umhverfisstofnun hefði ekki haft fyrir því að senda starfsmenn á vettvang áður en stofnunin gaf umsögn sína og að fornminjaúttekt væri nafnið tómt.
- Umhverfisráðherra úrskurðaði 24. janúar 2006 að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að virkjun Fjarðarár skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skuli óhögguð standa. Engin skilyrði fylgdu þessari niðurstöðu ráðherra.
- Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir gaf 15. maí 2006 út virkjanaleyfi fyrir Gúlsvirkjun, 3,4 MW að stærð og Bjólfsvirkjun 6,4 MW, samtals 9,8 MW, en virkjanirnar höfðu af framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun verið kynntar samtals 7,4 MW að stærð og umhverfisráðherra vísaði til sömu gagna um stærð virkjananna um leið og hann hafnaði kröfum kæruaðila.
- Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkti 14. júní 2006 „ ... að heimila byggingafulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi til handa ÍOV Seyðisfirði ehf vegna virkjana í Fjarðará jafnóðum og fullnægjandi gögn berast.” Byggingafulltrúinn á Seyðisfirði gaf út framkvæmdaleyfi 1 áfanga, 23. júní 2006. „Framkvæmdir skulu vera í samræmi við og eins og þeim er lýst í greinargerð og á deiliskipulagsuppdráttum dagsettum 10. maí 2005 unnum af Tekton vegna virkjunar Fjarðarár í Seyðisfirði. Öðrum hönnunargögnum verði skilað til byggingarfulltrúa jafnóðum og þau verða gerð.”
- Framkvæmdir hófust sumarið 2006, fyrst við miðlunarmannvirki á Fjarðarheiði en síðan við þrýstivatnspípur, inntakslón og stöðvarhús með óheyrilegu raski frá Fjarðarheiði niður undir byggð, m.a. á fornminjum á eyðibýlinu Fjarðarseli.
- Helsti verktaki við jarðvegsvinnu og stíflugerð, Afrek ehf, sagði sig frá verkinu í miðjum klíðum sl. vetur vegna ágreinings um vinnubrögð og önnur samskipti við ÍOV. Í kjölfarið hefur síðan verkfræðingur frá GeoTek ehf sem tekið hafði að sér innra gæðaeftirlit fyrir Íslenska orkuvirkjun ehf sagt sig frá verkinu vegna óánægju með vinnubrögð framkvæmdaraðilans.
- Í fréttaviðtölum við RÚV 27. júlí sl.upplýsti bæjarstjórinn á Seyðisfirði, Ólafur H. Sigurðsson, að honum hafi verið ókunnugt um að sveitarfélaginu bæri skylda til að hafa eftirlit með framkæmdinni, talið það vera í höndum framkvæmdaraðilans. Fjölmargar athugasemdir sagði hann hafa borist sveitarfélaginu vegna jarðrasks.
Allt ber þetta að sama brunni. Óprúttnir aðilar eru eftirlitslaust að hrúga upp stíflum fyrir risastóra vatnsmiðlun á Fjarðarheiði og leggja þrýstivatnspípur niður 600 m fall ofan þéttbýlis. Dæmi eru um það frá svokölluðum „smærri virkjunum” hérlendis að stíflur hafi brostið, síðast Djúpadalsvirkjun í Eyjafirði, en hér er sá munur á að á Seyðisfirði er fjöldi manns í hættu ef illa fer. Ekki bætir úr skák að fyrrum iðnaðarráðherra og opinberar stofnanir hafa brotið viðteknar leikreglur í aðdraganda þessara framkvæmda.
Er ekki kominn tími til að fram fari opinber rannsókn á þessu hrikalega máli sem bætist nú við Kárahnjúkahneykslið? Það á sannarlega ekki af Austfirðingum að ganga þessi árin.
Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson |