Hjörleifur Guttormsson 6. ágúst 2007

Framkvæmdir við Fjarðarárvirkjun í uppnámi

Það er nú loks að renna upp fyrir heimamönnum á Seyðisfirði sem og stjórnvöldum sem heimiluðu byggingu Fjarðarárvirkjunar að ekki er þar allt með felldu um framkvæmdir. Það sem fram hefur komið til þessa er þó líklega aðeins brot af þeim vandkvæðum sem stofnað hefur verið til með þessari vanhugsuðu virkjun og margs konar reiðuleysi sem henni tengist, svo ekki sé tekið sterkara til orða.

Minnisblað Skipulagsstofnunar

Undirritaður sneri sér nýlega til forráðamanna Skipulagsstofnunar og óskaði eftir gögnum sem fram kynnu að hafa komið hjá stofnuninni undanfarið vegna Fjarðarárvirkjunar. Fékk ég þá í hendur minnisblað um vettvangsferð fulltrúa Skipulagsstofnunar Þórodds Þóroddssonar 7. júlí sl. á framkvæmdasvæðið við Seyðisfjörð. Hafði bæjarstjórinn á Seyðisfirði óskað eftir heimsókn frá stofnuninni og er ljóst að honum hefur ekki verið farið að lítast á blikuna enda fjölmargar kvartanir undanfarið borist bæjaryfirvöldum. Ekki var hægt að skoða framkvæmdir við stíflustæðin á Fjarðarheiði vegna þoku þennan dag en  í minnisblaði Þórodds koma fram margar alvarlegar ábendingar vegna framkvæmda í Stöfum og Fjarðardal, m.a. við þrýstivatnspípur. [Sjá hér minnisblaðið] Þar stendur m.a.: „Ljóst er að krefjast þarf enn frekari upplýsinga um hönnun mannvirkja en gert hefur verið svo umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði augljósari.”

Kastað höndum til stíflumannvirkja

Svo slæmt sem ástandið er á þeim hluta framkvæmdasvæðis sem Þóroddur skoðaði með fylgdarmönnum er ástæða til að óttast að enn alvarlegri staða sé uppi varðandi gerð stíflumannvirkja á Fjarðarheiði. Undirrituðum hafa borist til eyrna frásagnir af ótrúlegri handvömm og hirðuleysi við gerð stíflumannvirkja, þar sem allssendis ófullnægjandi forsögn hafi legið fyrir og framkvæmdaraðilar höfðu sjálfdæmi um tilhögun verka. Fyrir liggur að Trausti Bjarnason sem rekur fyrirtækið Afrek ehf sagði sig frá verkinu 1. mars sl. og Oddur Sigurðsson jarðverkfræðingur hjá GeoTek ehf, sem Íslensk Orkuvirkjun hafði ráðið til að sinna jarðvinnueftirliti og til að setja upp gæðakerfi fyrir framkvæmdina, sagði sig formlega frá þeim verkefnum í júní sl. Svo er að skilja sem þessir aðilar hafi ekki lengur viljað vera bendlaðir við framkvæmdina og þau vinnubrögð sem við hana hafa verið tíðkuð. Þannig mun eftirlitsaðilanum beinlínis hafa verið torveldað að sinna sínu verkefni og fá í hendur nauðsynlegar upplýsingar. Miðlunarlón Fjarðarárvirkjunar rúma yfir 10 gígalítra af vatni og því augljóst að sé pottur brotinn við gerð mannvirkja vofir vá yfir byggð á Seyðisfirði. Stíflugerð er með vandasömustu verkum sem gefast og ekki á færi annarra en góðra fagmanna með reynslu. Sama á raunar við um lagningu á þrýstivatnspípum sem staðfest er í minnisblaði Skipulagsstofnunar að ekki sé í samræmi við gefnar forsendur.„Mikilvægt atriði við framkvæmdina er að öll skilyrði er varða öryggi þegar kemur að rekstri séu uppfyllt” stendur í þessari umsögn.

Virkjanaleyfi Valgerðar

Fyrir liggur að Valgerður Sverrisdóttir veitti sem iðnaðarráðherra Íslenskri Orkuvirkjun 15. maí 2006 leyfi fyrir tveimur virkjunum í Fjarðará með samtals 9,8 MW afli. Það er þriðjungi meira afl en tilgreint var í umsókn fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar þegar það óskaði eftir að framkvæmdin yrði undanþegin umhverfismati. Sömu stærðir voru lagðar til grundvallar þegar Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra úrskurðaði 24. janúar 2006 í kærumálum sem bárust ráðuneytinu vegna  Fjarðarárvirkjunar. Leyfisveiting Valgerðar er skýlaust brot á viðtekinni stjórnsýslu og hlýtur að stangast á við lög. Hér skal ekki fullyrt um afleiðingar þessarar dæmalausu embættisfærslu en engar skýringar er að finna á henni í fylgibréfi ráðuneytisins með virkjanaleyfunum fyrir Gúls- og Bjólfsvirkjun frá 15. maí 2006. Samanlagt var afl þessara virkjana frá upphafi tilgreint 7,4 MW en leyfi ráðherrans hljóðar upp á 9,8 MW.

Sammingar ÍOVS við kaupstaðinn

Upphaflegur samningur Íslenskrar Orkuvirkjunar ehf við Seyðisfjarðarkaupstað um rannsóknir og vatnsréttindi vegna Fjarðarárvirkjunar var gerður 3. október 2003 af þáverandi bæjarstjórn, en sveitarstjóri var þá Tryggvi Harðarson. Viðaukasamningur var síðan gerður 3. júlí 2006 við Íslenska Orkuvirkjun Seyðisfirði ehf og kveður hann á um greiðslur fyrir vatnsréttindi/virkjunarrétt og landnot. Að honum stóð nýkjörin sveitarstjórn og Ólafur H. Sigurðsson bæjarstjóri fyrir hennar hönd. Undirrituðum var í júlí í fyrra neitað um að fá samninga þessa afhenta. Þá synjun kærði ég til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu 10. nóvember 2006 að Seyðisfjarðarkaupstað væri skylt að veita mér aðgang að báðum samningunum í heild sinni. Nú er hægt að skoða þessa samninga með því að smella hér.
 Ólafur bæjarstjóri hefur talið samningana mjög hagstæða fyrir kaupstaðinn þar eð þeir geri ráð fyrir stighækkandi hlutdeild sveitarfélagsins af brúttótekjum ÍOVS á 50 ára samningstímabili miðað við tilteknar forsendur. Ef ÍOVS eða aðili sem fyrirtækið framselur réttindi sín ákveður að leggja starfsemi virkjunarinnar niður skal Seyðisfjörður eignast kauprétt á henni. Skal kaupverð miðað við stofnverð virkjunarinnar að teknu tilliti til afskrifta. Neyti kauðstaðurinn ekki kaupréttar skal ÍOVS greiða til hans 10 milljónir króna vegna missis tekna og annars tjóns. – Allt er á huldu um fjárhagslega stöðu framkvæmdaraðilans, sem verið hefur í viðskiptum við Landsbankann. Þó virðist ljóst að kostnaður stefni langt fram úr áætlun og óvissa er um verklok sem fyrirhuguð voru á árinu 2007. Um sölu raforkunnar frá Fjarðarárvirkjun hefur  ÍOVS fyrir allnokkru samið til Hitaveitu Suðurnesja.
 
Fórnarkostnaðurinn gífurlegur

Hér hefur ekki verið dvalið við náttúruspjöllin sem þegar eru orðin vegna Fjarðarárvirkjunar og ekki verða bætt hversu mjög sem reynt yrði að vanda til frágangs. Rennsli fossa Fjarðarár verður skert til muna, einkum framan af sumri á meðan vatnssöfnun stendur yfir í miðlunarlón. Sú skerðing verður enn tilfinnanlegri ef afl virkjunarinnar verður aukið eins og virkjunarleyfi ráðherra gerir ráð fyrir. Allur er þessi gjörningur frá upphafi til enda með fádæmum, lýsandi um það hvernig umhverfishagsmunum sem ekki verða metnir til fjár er fórnað í von um óverulegan fjárhagsávinning. – Hlutur forráðamanna Íslenskrar orkuvirkjunar ehf í þessu máli öllu er hrapalegri en orð fá lýst, óprúttið gróðabrall klætt í vistvæna skikkju. Það væri hollt fyrir ýmsa að horfa í bakspegilinn og rifja upp fagurgalann í þeim pappírum sem notaðir voru til að ryðja brautina fyrir þessa óheillaframkvæmd.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim