![]() |
|||
Um skipulagsmál á Þingvöllum og hlut stjórmálamanna Í Morgunblaðinu hefur á síðustu dögum verið sagt frá fyrirhuguðu erindi Guðna Ágústssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra á Þingvöllum næstkomandi fimmtudagskvöld, en þar mun hann og fleiri sérstaklega minnast Steingríms Hermannssonar. Er dagskráin hluti af svonefndum fimmtudagsgöngum á vegum þjóðgarðsins. Í blaðaummælum aðstandenda að þessum fundi í tengslum við Þjóðgarðinn á Þingvöllum er Steingrími þökkuð forganga í umhverfismálum, m.a. með stofnun umhverfisráðuneytis haustið 1988. Er það og fleira réttmætt, en um annað gætir oftúlkunar eða misskilnings, þegar hann á í hlut. Varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum skipti sköpum stefnumörkun Þingvallanefndar í skipulagsmálum í maí 1988 sem fylgt var eftir síðar og gjörbreytti áherslun varðandi þróun þjóðgarðsins. Hún fólst m.a. í uppbyggingu þjónustu- og upplýsingamiðstöðvar sem síðan hefur risið vestan við Hakið. Steingrímur tók sæti í Þingvallanefnd um stuttan tíma 1988 og lagði þar til að umrædd miðstöð yrði ekki byggð þarna, heldur niðri á völlunum, en á það var þá og síðar ekki fallist. Eitt af því sem missagt var í grein Mbl. 28. júní sl. um hlut Steingríms er að hann hafi sótt ráðstefnuna í Ríó 1992 og fengið þar áhuga á loftslagsmálum. Steingrímur var þá utan ríkisstjórnar og sat Eiður Guðnason sem umhverfisráðherra þann merka alþjóðafund. Umræða um hlut stjórnmálamanna að umhverfismálum er mikilvægari nú en áður, þegar háskinn af breytingum gerist augljósari með degi hverjum. Hjörleifur Guttormsson
Af vettvangi dagsins - eldra efni
|