Af vettvangi dagsins
Eldra efni >>








Hjörleifur Guttormsson 24. nóvember 2025

Farsælt starf Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri í aldarfjórðung

Í ár var liðinn aldarfjórðungur frá því hús Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri var formlega opnað almenningi en stofnunin varð til þrem árum áður með reglum sem Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra setti. Gunnar Gunnarsson lést fyrir 50 árum, 21. nóvember 1975. Í minningu hans var þann 15. nóvember sl. haldið málþing í Veröld – húsi Vigdísar. Efnið var tengt bókmenntum innflytjenda almennt og Aðventu, riti Gunnars sérstaklega, en það kom fyrst út á þýsku hjá Reclam-forlaginu árið 1936, á dönsku árið eftir og loks á íslensku 1939. Nú hefur Aðventa verið þýdd á um 20 tungumál.
Ég minnist þess að prófessor í grasafræði við háskólann í Leipzig, Gertrud Weichsel, minntist oftar en einu sinni á þessa sögu Gunnars er hún ræddi við mig um átthaga mína. Hún var greinilega snortin af frásögninni í  Advent im Hochgebirge, en svo hljóðaði titill sögu Gunnars á þýsku.

Aðdragandinn að kaupum Gunnars á Skriðuklaustri

Faðir minn Guttormur Pálsson og Gunnar skáld voru þremenningar, Gunnar afi þess síðarnefnda var yngsti bróðir Sigurðar Gunnarssonar prófasts á Hallormsstað, móðurafa Guttorms.  Gunnar afi Gunnars skálds var lengst af  bóndi á Brekku í Fljótsdal (d. 1898). Báðir gengu þeir Guttormur og frændi hans Gunnar verðandi skáld vetrarlangt í  lýðháskólann í Askov, hvor við upphaf sinnar dvalar í Danmörku, Guttormur frá haustinu  1905, en Gunnar tveim árum síðar.
Saman eyddu þeir jólunum 1907 á Jótlandi, en hittust síðan ekki fyrr en  á Valþjófsstað sumarið 1937 þar  sem Gunnar heimsótti fæðingarstað sinn með syni sínum Gunnari listmálara. Þar tók Guttormur að sér að svipast um bújörð fyrir skáldið frænda sinn. Fyrst varð á dagskrá jörðin Hafursá næst utan við Hallomsstað, en á miðju sumri 1938 losnaði Skriðuklaustur óvænt til sölu og Guttormur lagði þá strax inn kauptilboð í nafni Gunnars. Franzisca hafði þá aldrei í Fljótsdal komið. Fóru þau hjón því til Íslands  haustið 1938 og skruppu þá frá Hallormsstað inn í Fljótsdal. Voru kaupin á Skriðuklaustri þá afráðin og byrjað að grafa grunn að nýju íbúðarhúsi þá um veturinn. (Hjörleifur Guttormsson: Aðdragandinn að byggingu Gunnarshúss á Skriðuklaustri. Múlaþing 45,  2023)

Þýskalandsferð vorið 1939

Út á frændsemi og í þakklætisskyni fyrir leit að jarðnæði bauð Gunnar skáld föður mínum í heimsókn til Danmerkur. Fór Guttormur utan í mars 1939 og sat kveðjuhóf sem Gunnari var haldið í Kaupmannahöfn í lok þess mánaðar. Þau hjón höfðu þá selt og rýmt heimili sitt í  Fredensholm og sent búslóð sína áleiðis til Íslands. Í beinu  framhaldi af þessu fóru þau í ferð suður á Þýskaland ásamt föður mínum og með soninn Úlfar við stýri. Leið þeirra lá fyrst til Hamborgar þar sem farið var þann 3. apríl 1039 á fund með Höger arkitekt, sem skömmu áður hafði boðið Gunnari að teikna fyrir hann húsnæði á Íslandi. Þá þegar hafði Jóhann Kristjánsson gert teikningu að húsi fyrir Gunnar, en nú skyldi hún endurskoðuð eða lögð til hliðar. Var Jóhann því kvaddur  til fundar með Höger síðar í aprílmánuði 1939. Á um tveim vikum var þar gengið frá þekktri teikningu af fyrirhuguðu stórbýli á Skriðuklaustri, eins konar málamiðlun Högers og Jóhanns, en opinberlega kennd þeim fyrrnefnda.
Ferð Guttorms með Gunnari og fjölsskyldu hélt hinsvegar áfram í röska viku suðvestur í Rínarhéruð, en leiðir skildu að því búnu í Bremen. Guttormur fór þaðan um Jótland og Kaupmannahöfn og í veg fyrir skip frá Bergen áleiðis til Íslands 23 apríl. Gunnar og fjölskylda fóru aftur á móti með Lagarfossi frá Kaupmannahöfn 20. maí 1939 og komu í Skriðuklaustur í mánaðarlok.  Bygging íbúðarhúss þeirra samkvæmt teikningu var þá að hefjast af krafti og inn í slotið hálfkarað fluttu Gunnar og fjölskylda fyrir jól þetta ár,  þ.e. 1939. Þar var heimili þeirra fram á haustið 1948 að þau gáfu íslenska ríkinu jörðina með húseignum.

Hálfrar aldar togstreita stjórnvalda um Skriðuklaustur og Gunnarshús.

Í gjafabréfi Gunnars og Franziscu sem fylgdi ráðstöfun þeirra á Klausturjörðinni stóð m.a. :

Jarðeign þessi skal vera ævarandi eign íslenzka ríkisins. Hún skal hagnýtt á þann hátt, að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili.

Eins og hér kemur fram höfðu gefendurnir víðtækan áhuga á menningarmálum. Gunnar hafði í ræðu á samkomu í Atlavík sumarið 1942  m.a. lagt áherslu á stofnun byggðasafns fyrir Múlasýslur. Kosin var 7 manna undirbúningsnefnd og þegar haustið 1943 var Minjasafn Austurlands stofnað og því kjörin stjórn með Gunnar skáld sem formann og með honum varð Sigrún Blöndal  féhirðir og Þóroddur Guðmundsson ritari stjórnar. Söfnun minja hófst þá fljótlega fyrir tilstyrk Ragnars Ásgeirssonar ráðunauts og var þeim komið fyrir í litlu herbergi á Skriðuklaustri. Safnamálin sem ítrekað eru nefnd í gjafabréfinu lutu hins vegar í lægra haldi fyrir tilraunabúi í landbúnaði sem stjórnvöld fluttu frá Hafursá  í Skriðuklaustur árið 1949 og varð ekki þokað þaðan allt til aldamótanna 2000 að Gunnarsstofnun var sett á fót með þátttöku stjórnvalda. Viðleitni Safnastofnunar Austurlands sem stofnað var til 1972 með tengsl við samtök sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) fékk litlu áorkað um Skriðuklaustur, og því varð loks að ráði að koma upp aðstöðu fyrir Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, fyrst í timburhúsum og síðar í nýbyggingu sem framkvæmdir hófust við 1983 og hýsir nú Minjasafnið, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Héraðsbókasafn. Senn munu hefjast brýnar framkvæmdir við stækkun á aðstöðu þessara stofnana.

Starfsemi Gunnarsstofnunar í aldarfjórðung

Gunnarsstofnun hefur nú verið opin almenningi í fullan aldarfjórðung.  Skúli Björn Gunnarsson var ráðinn forstöðumaður hennar þegar á árinu 1999 og  eiginkona hans Elísabet Þorsteinsdóttir hefur allt frá aldamótum veitt afar vinsælu Klausturkaffi forstöðu á neðstu hæð hússins. Þau hafa náð að gefa stofnuninni mjög jákvætt yfirbragð og sinna þeim afar fjölbreytta hópi sem sækir upplýsingar og ánægju í heimsókn í Skriðuklaustur. Þar við bætist vinna svonefnds staðarhaldara, starf sem sem Ólöf Sæunn, kölluð Skotta. hefur rækt af samviskusemi í áratugi. Fornleifarannsóknir  á klausturrústum og kirkju frá miðöldum undir forystu Steinunnar Kristjánsdóttur miðla gestum sýn til fyrri alda og opna mönnum sýn  sem ella væri hulin. Ekki má gleyma fræðasetri í hluta hússins, þar sem hundruð einstaklinga hafa fengið inni allt frá árinu 1990 og bætt við sinn hugarheim með nokkurra vikna dvöl.
Allt tekur enda, og nú eru framundan mannaskipti í rekstri Gunnarsstofnunar. Við forstöðumannsstarfi tekur frá áramótum Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur með heimspekibakgrunn, fædd í Reykjavík 1972. Eftir hana hafa frá aldamótum komið út nokkrar skáldsögur, ljóð og prósaverk auk þess sem hún hefur stundað rannsóknir á safna- og minjavettvangi. Um leið og við þökkum liðið er Oddnýju Eir og öðru nýju fólki óskað ánægju og velfarnaðar í starfi við Gunnarsstofnun.

Hjörleifur Guttormsson

Prentvæn útgáfa

Af vettvangi dagsins - eldra efni

Til baka | |   Heim