Af vettvangi dagsins
Eldra efni >>








Hjörleifur Guttormsson

27. október 2025

Þórbergssetur og Saga Eymundar og Halldóru í Dilksnesi

Út kom nú á haustdögum að tilhlutan Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit bókmenntaverk í fjórum bindum eftir Gísla Sverri Árnason sagnfræðing og ber það heitið Saga Eymundar og Halldóru í Dilksnesi. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi er útgefandi verksins og hefur verið að kynna það á síðustu vikum bæði eystra og í Reykjavík. Verkið er alls um 1700 blaðsíður með uppdráttum og fjölda gamalla og nýlegra mynda.

Sögulegt hjónband

Hjónin Eymundur Jónsson (1840‒1927) og Halldóra Stefánsdóttir (1844‒1935) voru Skaftfellingar, hann komin af fátækum foreldrum á Hofi í Öræfum, Jón faðir hans prýðilega hagur eins og sonurinn síðar. Hlaut drengurinn nafnið Meyvant, en tók upp heitið Eymundur síðar á lífsleiðinni. Kona hans Halldóra var dóttir Stefáns Eiríkssonar bónda í Árnanesi, hreppstjóra og alþingismanns (1858-1884) og Guðrúnar Einarsdóttur konu hans. Halldóra ólst í sjö ár upp hjá Sólveigu móðursystur sinni, prestskonu að Kálfafelli í Fljótshverfi, en sneri heim aftur 1861. Eymundur (enn nefndur Meyvant) var þá kominn með Sigríði móður sinni að Árnanesi og stundaði m.a. smíðar. Tókust brátt ástir á laun með honum og Halldóru sem lyktuðu með hjónabandi eftir söguleg samskipti þeirra við föður hennar, sem taldi dótturina vera að bindast múgamanni. Til sátta varð m.a. að Eymundur lauk smíðanámi í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann einnig af lækningabókum fæðingarhjálp sem hann ástundaði með góðum árangri á langri ævi. Hjónaband hans og Halldóru var innsiglað haustið 1866 eftir heimkomu Eymundar, en þá hafði þeim fæðst dóttir fyrst 16 barna.

Í heimanmund gaf Stefán bóndi og alþingismaður Halldóru dóttur sinni eignarjörð sína Dilksnes, þar sem þau Eymundur hófu búskap 1870. Auk hefðbundins búskapar stundaði hann þar smíðar úr járni og kopar sem mikið orð fór af. Andleg afþreying hans reyndist hins vegar vera ljóðagerð, sem nú birtist flestum í fyrsta sinn sem 4. bindi þessa margbrotna ritverks á 275 blaðsíðum.

Ótrúleg varðveisla ljóðasafns

Eymundur í Dilksnesi var þekktur og mikils metinn sem ágætur handverksmaður. Hitt þekktu fáir hve fjölbreytt ljóðagerð var stór þáttur í daglegu lífi hans. Sá þáttur birtist okkur hér sem heilt bindi, en ljóð hans

voru aðeins þekkt af fáum og birtust á stangli meðan hann lifði. Varðveisla þeirra er ævintýraleg, þar eð ekkert eiginhandarrit hans sjálfs, sem hann tók að safna kvæðum sínum í eftir miðjan aldur, hefur varðveist. Það eru uppskriftir annarra á þeim sem bjargast hafa og birtast nú sem 4. bindi þessarar sögulegu útgáfu, sem Gísli Sverrir og Zophonías Torfason bjuggu til útgáfu. Þrjár uppsprettur eru nefndar og sú lang fyllsta upp á 394 vélritaðar síður er að líkindum afrit af heildaruppskrift Eymundar af ljóðum sínum. Þetta afrit ljóðanna sem fyllir fimm bækur, skrifaði Ragna Sigurðardóttir, ekkja eftir Arnór Sigurjónsson á Brunnhól, heima við eldhúsborðið á árunum 1971‒1972. Þrjár dætur hennar urðu eigendur þessa handrits, þeirra á meðal Þorbjörg Arnórsdóttir á Hala, forstöðumaður Þórbergsseturs. Skýrir það betur en mörg orð það kapp sem Þorbjörg og hennar nánustu hafa lagt í að styðja við tilurð þessarar margbrotnu ævisögu. Útgáfa hennar er eitt af mörgum dæmum um burði þessarar sjálfsprottnu stofnunar heimafólks á Hala til að lyfta menningarlegu grettistaki.

Dýrkeypt Kanadadvöl

Í 2. bindi af ritverki Gísla Sverris er fjallað um fimm ára Kandadvöl Eymundar og Halldóru þangað sem þau fóru með fimm sonum sínum. Við Dilknesjörðinni tóku Björn Jónsson og Lovísa dóttir Eymundar sem áttu margt barna. Ekki færri en 119 manns fóru úr Austur-Skaftafellssýslu vestur um haf á árunum 1901 til 1905. Undir það ýtti óvenju hart veðurfar með hafís sem lokaði siglingu mánuðum saman inn á Hornafjörð síðla vetrar 1901. Í Kanada settust Eymundur og fjölskylda að í Pine Valley um 100 mílur suðaustur af Winnipeg og nefndu leigujörð sína Skóga. Þar byggði Eymundur sér smiðju við hús sitt og stundaði viðgerðir samhliða búskap. Upplýsingar um líðan þeirra og fjölskyldunnar eru raktar í tíðum bréfaskriftum, sem varðveist hafa milli aðstandenda þar vestra og heima á Fróni. Vetur þar vestra voru harðir þessi árin og gerðu landnemum með búskap lífið erfitt. Af bréfum Eymundar og Halldóru undir vor 1905 er ljóst að hugur beggja stefndi á að selja Skóga og flytja heim. Til þess þurfti Eymundur að fá kanadískt ríkisfang og með því vilyrði um eignarhald á jörðinni. Þetta gekk eftir en sala á Skógajörðinni dróst fram um mitt sumar 1907, en gekk þá eftir á sæmilegu verði. Þau hjón, Eymundur og Halldóra biðu þá ekki boðanna og fóru með lest frá Winnipeg 23. ágúst 1907 og með skipi austur um haf. Þau voru þá að sögn jafn snauð og þá þau komu vestur fimm árum áður, en ríkari að reynslu og þekkingu. Heimkomin settust þau á ný að í Dilksnesi, Eymundur nú sem húsmaður. Voru þau búsett þar með hléum allt til ársins

1919 að þau fluttu í Þinganes. Eftir lát Eymundar fór Halldóra kona hans á ný að Dilksnesi þar sem hún andaðist 1935.

Halldór Laxness um Eymund

Halldór Guðjónsson, síðar Laxness, dró í bók sinni Grikklandsárið (útg. 1980) upp eftirminnilega mynd af Eymundi, sem þá var kominn á efri ár. Þórbergur Þórðarson var heimilsvinur í Dilksnesi og taldi hann Halldór þá 18 ára á að gerast þar heimiliskennari barna, sem sum reyndust eldri en kennarinn. Í bók sinni Grikklandsárið greinir Halldór frá kynnum sínum af gamla Eymundi „föður frúarinnar“ Lovísu. „Ég átti lángar skrafræður við þennan töframann og sumpart kynja , þar sem hann var gestur dóttur sinnar í Dilksnesi. ... Þegar ég hlýddi á Eymund karl, sem farið hafði úr Vatnajökli í frosin helvísti ókunnra heimsálfa, gleymdi ég stað og stund.“ Ummæli Halldórs opnuðu mér heima, sem nú hafa verið lýstir nánar upp í fjórum myndskreyttum bindum Gísla Sverris fyrir tilstuðlan Þórbergsseturs.

Hjörleifur Guttormsson

Prentvæn útgáfa

Af vettvangi dagsins - eldra efni

Til baka | |   Heim