Djúpstæðra breytinga þörf á alþjóðavettvangi Árið 2024 er talið það fyrsta í þekktri sögu mannkyns sem meðalhiti á jörðinni hefur verið yfir 1,5 gráður á C allt árið. Það er lágmarkið sem reynt verður að halda til frambúðar samkvæmt Parísarsamningnum frá 2015, alþjóðasamningi sem þorri þjóða hefur undirritað og byggist á því að stöðva sem fyrst losun gróðurhúsalofttegunda frá brennslu kola og olíu. Trump Bandaríkjaforseti reynir nú öðru sinni að losa Bandaríkin undan þeirri skuldbindingu sem þau undirgengust með undirritun þessa samkomulags. Ekkert sýnir betur þann skammsýna hugsunarhátt sem hann stendur fyrir, studdur af þeim meirihluta sem kaus hann til forseta. Er NATO að liðast í sundur? Annað áhrifaríkt skref sem Trump nú boðar í reynd er að hverfa frá samstarfi vestrænna ríkja undir merkjum NATO, með því m.a. að taka upp einhliða kröfur um útfærslu á yfirráðum Bandaríkjanna yfir Grænlandi og á Panamaskurðinum með þeim alþjóðasamgöngum sem um hann fara. Fátt sýnir betur þá útþenslustefnu sem Trump stendur fyrir í nafni Bandaríkjanna. Jafnframt boðar hann samstarf Bandaríkjanna og Rússa um lyktir Úkraínustríðsins án fyrirframákveðins samflots við Evrópuríki sem fylkt hafa sér til varnar sjálfstæði Úkraínu. Þýsku kosningarnar Niðurstöðu nýafstaðinna þingkosninga í Þýskalandi var beðið með óþreyju. Þátttaka í þeim var óvenjumikil, þar sem um 84% atkvæðisbærra greiddu atkvæði. Á þinginu Bundestag sitja 630 fulltrúar. Til að fá þar þingsæti þurfa flokkar að hafa fengið 5% greiddra atkvæða á landsvísu. Aðeins fimm flokkar náðu nú því marki: Kristilegir (CDU/CSU) sem fengu 28,5% og 208 þingsæti, Þýski þjóðernisflokkurinn (Alternativ für Deutschland) 20,8% og 152 þingsæti, Sósíaldemókratar (SPD) 16,4% og 120 þingsæti, Græningjar (Grüne) 11,6% og 85 þingsæti og loks Vinstri flokkurinn (Die Linke) með 64 þingsæti. Minna en 5% atkvæða fengu BSW (Bündnis Sahra Wagenknecht) með 4,97% og FDP (Frjálslyndir) með 4,33%. Margt er athyglisvert við þessi úrslit. Sósíaldemókratar, sem frá 2021 hafa lagt til Olaf Scholz sem forsætisráðherra (kanslara), en fengu nú lökustu útkomu flokksins frá stríðslokum og Kristilegir sína næstlægstu á sama tíma. Þjóðernisflokkurinn AfD, stofnaður 2013, fékk fyrst fulltrúa á ríkisþingið 2017, en náði því hins vegar nú að tvöfalda þingstyrk sinn og er nú langstærsti þingflokkurinn í fyrrverandi Austur-Þýskalandi. Óvænt úrslit til vinstri Ókyrrt hefur verið á vinstri væng þýskra stjórnmála allt frá samruna Austur- og Vestur-Þýskalands 1991. Sahra Wagenknecht hefur lengi komið þar við sögu. Eiginmaður hennar Oskar Lafontaine var fyrrum virkur á vinstri væng í þýskum stjórnmálum. Sahra var kjörin á þýska þingið 2009 og hefur lengst af setið þar síðan sem fulltrúi vinstriflokksins Die Linke. Fyrir um ári stofnaði hún eigin flokksvísi, BSW, sem bauð nú fram, en skorti nokkur þúsund atkvæði til að ná 5% á landsvísu. Die Linke sópaði nú hins vegar óvænt að sér atkvæðum, 8,77%, og meira en tvöfaldaði þingmannatölu sína úr 28 í 64. Er flokkurinn með hátt hlutfall atkvæða í borgum eins og Berlín og Leipzig. Hervæðing framundan í Evrópu Það getur engum dulist að breytt stefna Bandaríkjanna í málefnum NATO og þar með í öryggismálum Evrópu mun ganga hart að efnahag álfunnar. Öryggismálin með stórauknum útgjöldum til hermála blasa nú við ríkjum Evrópusambandsins, sem standa mörg hver höllum fæti fyrir. Hinn kosturinn með víðtækum samdrætti í hervæðingu og vopnaframleiðslu risaveldanna sýnist ekki vera í boði. Á slíka þróun ættu þó smáríki eins og Norðurlönd að knýja og gerast talsmenn víðtækrar afvopnunar, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hjörleifur Guttormsson Af vettvangi dagsins - eldra efni
|