Bjørn Lomborg, falsspámaður í fremstu röð Morgunblaðið birti mánudaginn 29. júlí grein eftir Danann Bjørn Lomborg undir fyrirsögninni „Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá.“ Þetta er ein af nokkrum greinum, sem blaðið hefur að undanförnu sótt í smiðju þessa þekkta andmælanda skaðlegra loftslagsbreytinga af mannavöldum, sem magnast hafa vegna notkunar sívaxandi kolefniseldsneytis á heimsvísu. Höfundurinn er vel þekktur fyrir sjónarmið sín, sem ganga þvert á ríkjandi alþjóðlega sýn og áhyggjur vegna sívaxandi loftslagsbreytinga sem menn hafa hrundið af stað með notkun jarðefnaeldsneytis. Lomborg er vissulega ekki einn um slíkan máflutning, sem sækir nú í sig veðrið m.a. hjá hægri sinnuðum stjórnmálaflokkum í ríkjum innan Evrópusambandsins. Hér verður ekki rakinn ferill og málflutningur Lomborgs, sem fylla myndu ótal síður sem auðvelt er að sækja á Netið. Hinsvegar er hér bent á nýlega grein eftir Bob Ward, forstöðumann á rannsóknasviði hjá Grantam Researsh Institute innan The London School of Economics, sem birtist 22. mars 2024. Hún ber fyrirsögnina „More information and nonsense on climate from Lomborg and Tol“ . Síðara nafnið vísar á prófessor Richard Tol, höfund ritgerðar sem Lomborg vísar til og birtist í febrúarhefti tímaritsins Energy Policy. Bob Ward nefnir mörg dæmi um að greinin eftir Tol sýni falsfréttir (bogus narrative), sem Lomborg haldi á lofti í málflutningi sínum. „Algjör mistúlkun á niðurstöðum IPCC“ Bob Ward rekur mörg dæmi um fráleitan málflutning Lomborgs í nýlegum greinum hans. Fyrirsögnina hér að ofan tekur hann sem gróft dæmi um málflutning Lomborgs þegar hann skrifar: „Loftslagsbreytingar eru raunverulegt vandamál, en þær eru ekki sú yfirvofandi tilvistarkreppa sem fjölmiðlar og virkir stjórnmálamenn halda niðri í sér andanum út af. Þeir búa til fyrirsagnir og halda ræður um afbrigðilegt veðurfar, þótt Milliríkjahópur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvísindi hafi ekki getað sýnt fram á að flest fari það versnandi.“ „Þetta“, segir Bob Ward „er algjör mistúlkun á niðurstöðum UN Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). Í samandregnum texta þessarar Sjöttu matsskýrslu IPCC, nýjustu útgáfu um vísindalegar horfur, sem út kom 2021, og fyrstu heildarniðurstöður frá fimmtu skýrslunni, þ.e. AR5 2013, segir: „Manngerðar loftslagsbreytingar hafa nú þegar áhrif á veður- og loftslagsviðburði á öllum svæðum jarðar. Dæmi um óvenjulegar staðfestar breytingar eins og hitabylgjur, úrhellisúrkomu, þurrka og hitabeltisstorma, og einkum þó viðbætur við manngerð áhrif hafa aukist síðan AR5.“ Aðför að mótmælendum Bob Ward víkur að mörgu fleira í gagnrýni sinni á framgöngu Bjørns Lomborgs, m.a. þar sem sá síðarnefndi segir að yfirdrifinn hræðsluáróður hafi valdið því að áhyggjufullir mótmælendur meðal best stæðu þjóða heims geri hlægilegar kröfur um að stöðva bæði olíutöku sem og kolanám og gasvinnslu, kröfur sem að vísu myndu fækka dauðsföllum en jafnframt eyða lífi á jörðinni eins og við þekkjum það. Vísar Lomborg í hagfræðing að nafni Neil Record sem í nýlegu mati sýni fram á að ef hætt væri við notkun jarðefnaeldsneytis myndi það valda dauða sex milljóna manna innan árs. Í reynd er þessi staðhæfing sótt í málflutning bresks baráttuhóps sem halda vill töku jarðefnaeldsneytis óbreyttri og sem hafnar áhættu af loftslagsbreytingum vegna jarðefnabrennslu. Ársfundir Loftslagssamnings SÞ Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna er burðarásinn í alþjóðlegu samstarfi um loftslagsmál. Grunnur að honum var lagður á Ríó-ráðstefnunni 1992 og undir merkjum hans hafa frá1995 verið haldnir ársfundir þátttökuríkja (Conferences of the parties = COP). Þáttaskil urðu á COP-21 í París 2015 þar sem gengið var frá samkomulagi 197 ríkja heims með það að markmiði að halda hnattvæddri hlýnun innan við 2 gráður á Celcíus og helst sem næst 1,5 °C Á COP-fundum sem síðan hafa verið haldnir hefur þokast í samkomulagsátt um áfanga að marki. Síðustu ársfundir voru haldnir Kairó í Egyptalandi 2027 og 2028 í Dubai í Sameinuðu arabisku furstadæmunum. Í nóvember næstkomandi er röðin komin að Bakú í Asjerbadjan í kjölfar undirbúngsfundar þátttökuríkja sem haldinn var í júní sl. COP-fundirnir mega teljast mikilvægustu árlegu alþjóðaráðstefnur okkar tíma. Á þeim hafa þróast aðgerðaáætlanir undir merkjum Loftslagssamningsins. Mörgum þykir hægt ganga, en án þessa samningsbundna ramma væri sannarlega dökkt fyrir dyrum. Hjörleifur Guttormsson Af vettvangi dagsins - eldra efni
|