Ávarp á útgáfufagnaði Ferðafélags Íslands 27. ágúst 2024
Kæru samfélagar í Ferðafélagi Íslands.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Ferðafélagi Íslands, starfsmönnum þess og fjölda félaga fyrir samstarf, sem staðið hefur í hálfa öld, sem liðin er frá því að félagið gaf út fyrstu árbókina í mínu nafni 1974.
Upphafið var óvænt og eftirminnilegt þegar Páll Jónsson ritstjóri félagsins bað mig að skrifa árbók um Austfjarðafjöll. Mig minnir þetta gerast heima hjá honum, þar sem einnig var viðstaddur Hjörtur Eldjárn, þá höfundur væntanlegrar árbókar um Svarfaðardal 1973.
Síðan hafa átta árbækur bæst við með mínu nafni, að þeirri 9. meðtalinni sem hér er fagnað.
Fyrir það traust og stuðning sem forysta félags okkar hefur sýnt mér nú í hálfa öld þakka ég innilega.
„Allt er álitamál þá gert er“ segir gamall orðskviður og það á við um mín verk sem og annarra.
Árbækur mínar fjalla allar um austurhluta landsins, austan Jökulsár á Fjöllum, suður yfir Vatnajökul til Skaftafellssýslu.
Þetta svæði varð vettvangur margvíslegra rannsókna af minni hálfu, samhliða verkefnum félagslegs eðlis um áratugi. Það er skemmtileg tilviljun að meðal þeirra sem komu að fyrstu hálendisrannsóknum á Eyjabökkum á vegum þá nýstofnaðs Náttúrugripasafns í Neskaupstað sumarið 1975 var Gísli Már Gíslason líffræðingur, nú formaður ritnefndar Ferðafélagsins.
Fjöldi staðbundinna heimildarmanna studdi við ritun árbóka minna auk sérfróðra höfunda um náttúrufar og mannlíf. Öllum þessum þakka ég fyrir aðstoðina.
Drögum að árbókum mínum ásamt með efni frá heimildarmönnum hef ég þegar ráðstafað til Þjóðskjalasafns.
Eigin myndefni, m.a. frummyndum vegna árbóka minna, hyggst ég á næstunni ráðstafa til Þjóðminjasafns Íslands.
Langafi minn Sigurður Gunnarsson (d. 1878), sem ég hef reynt að gera skil á öðrum vettvangi í nýútkomnu riti, skrifaði ítarlega ritgerð um örnefni í Íslendingasögum austanlands. Gat hann þess að sig hefði langað til að skrifa hliðstætt yfirlit um örnefni í sveitarfélögum fjórðungsins, en sá fram á að koma því ekki í verk, enda óvíst um pláss í blöðum þess tíma. Kannski hef ég verið að hefna fyrir hann með mínu pári í níu árbókum!
Kæru ferðafélagar.
Ég þakka ykkur öllum og fjarstöddum langa og trausta samfylgd í hálfa öld. Megi félag okkar blómstra og dafna um ókomin ár.